Zhou Enlai

1. forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína (1898-1976)
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Zhou, eiginnafnið er Enlai.

Zhou Enlai (5. mars 1898 – 8. janúar 1976), einnig ritað Sjú Enlæ á íslensku, var fyrsti forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína. Hann gegndi því hlutverki frá því að Alþýðulýðveldið var stofnað árið 1949 til dauðadags árið 1976. Á þeim tíma var hann einn nánasti samstarfsmaður Maó Zedong.

Zhou Enlai
周恩来
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
Í embætti
1. október 1949 – 8. janúar 1976
ForsetiMaó Zedong
Liu Shaoqi
EftirmaðurHua Guofeng
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. mars 1898
Huai'an, Jiangsu, Tjingveldinu
Látinn8. janúar 1976 (77 ára) Peking, Kína
DánarorsökÞvagblöðrukrabbamein
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kína
MakiDeng Yingchao (g. 1925–1976)
Börn2
HáskóliHáskólinn í Nankai
StarfStjórnmálamaður, byltingarmaður, erindreki
Undirskrift

Æviágrip breyta

Zhou Enlai var kominn af gamalli kínverskri embættismannastétt. Afi hans var embættismaður í þjónustu kínversku keisaraættarinnar og Zhou var ungur settur til mennta til þess að feta svipaða braut. Hann gekk fyrst í kínverskan trúboðsskóla, nam eitt ár í Japan og síðan við háskóla í Tianjin. Þar stofnaði hann róttæk stúdentasamtök og hóf útgáfu stúdentablaðs. Zhou var handtekinn fyrir stjórnmálaafskipti sín árið 1919 og kynntist í fangelsinu tilvonandi eiginkonu sinni, Deng Yingchao.[1]

Eftir að Zhou var sleppt úr fangelsi slóst hann í för með kínverskum námsmönnum á leið til Frakklands, sem áttu að læra þar evrópsk vinnubrögð og fræðigreinar til að hjálpa til við nútímavæðingu Kína. Zhou vann fyrir sér í frönskum kolanámum og í bílaverksmiðjum Renault og stóð á þessum tíma í bréfaskriftum við Maó Zedong, leiðtoga kommúnista í Kína. Zhou tók að sér að stofna flokksdeildir kínverska kommúnistaflokksins meðal Kínverja í Frakklandi og Þýskalandi.[1] Meðal félaga Zhou í Frakklandi var víetnamski byltingarmaðurinn Ho Chi Minh.[2]

Zhou sneri heim til Kína árið 1924 og gerðist ritari og stjórnmálafulltrúi við hernaðarháskólann í Vampóa. Kommúnistarnir voru á þessum tíma enn í bandalagi við kínverska þjóðernisflokkinn Kuomintang og leiðtoga hans, Chiang Kai-shek, sem jafnframt var skólastjóri Vampóa-hernaðarháskólans. Þessar tvær fylkingar unnu saman að því að endursameina Kína, sem hafði klofnað í yfirráðasvæði fjölmargra stríðsherra eftir fall Tjingveldisins. Eftir heimkomu sína til Kína var Zhou sendur til Sjanghæ, sem þá var í höndum stríðsherrans Sun Chuanfang, og tók þar þátt í verkamannauppreisn sem leiddi til þess að borgin var opnuð fyrir her Chiangs.[1]

Eftir endursameiningu Kína í norðurherför Chiangs lauk bandalagi þjóðernissinna og kommúnista og kínverska borgarastyrjöldin braust út milli hópanna tveggja. Á fyrstu árum styrjaldarinnar fór Zhou huldu höfði og vann að því að skipuleggja starfsemi kommúnistaflokksins meðal verkamanna kínverskra borga. Árið 1930 fór hann til fjallahéraða í Suður-Kína, þar sem Maó Zedong hélt til og stýrði uppreisnum sínum. Árið 1934 tók Zhou ásamt kommúnistahernum þátt í göngunni miklu, þar sem kommúnistarnir gengu frá Suður-Kína til Shaanxi í norðurhluta landsins og rétt tókst að forðast þjóðernisher Chiangs. Zhou var á þessum tíma stjórnmálafulltrúi meginhers kommúnistanna.[1]

Þegar annað stríð Kína og Japan hófst árið 1936 neyddust kommúnistar og þjóðernissinnar til að gera með sér vopnahlé og berjast saman gegn japönsku innrásarmönnunum. Frá 1937 til 1946 var Zhou fulltrúi kommúnista í þjóðstjórn Chiangs og hafði aðsetur í Chongqing. Eftir að Japanir voru hraktir frá Kína með ósigri þeirra í seinni heimsstyrjöldinni var Zhou samningamaður kommúnista í viðræðum sem Bandaríkjamenn stóðu fyrir til að koma á sameiginlegri stjórn þeirra með þjóðernissinnunum. Þær viðræður báru engan árangur og borgarastyrjöldin hófst því að nýju og lauk með sigri kommúnistanna árið 1949.[1]

Forsætisráðherra alþýðulýðveldisins breyta

Eftir að Alþýðulýðveldið Kína var stofnað árið 1949 varð Zhou fyrsti forsætisráðherra þess. Zhou varð einnig utanríkisráðherra og átti lykilhlutverk í að móta utanríkisstefnu alþýðulýðveldisins á næstu árum. Hann innsiglaði bandalag Kína við Sovétríkin, gekk frá vopnahléssamningi í Kóreustríðinu 1953 og gerði samning um samstarf Kína við aðildarríki Sambands hlutlausra ríkja eftir Bandung-ráðstefnuna árið 1955. Zhou var einnig fulltrúi Kínverja á Genfarráðstefnunni 1954 þar sem samið var um brottför Frakka frá franska Indókína og endalok fyrri Indókínastyrjaldarinnar.[2] Zhou annaðist einnig viðræður við Bandaríkin sem leiddu til heimsóknar Richards Nixon Bandaríkjaforseta til Kína árið 1972 og formlegrar viðurkenningar Bandaríkjamanna á alþýðulýðveldinu.[3]

Zhou var gjarnan talinn meðal hófsamari manna í yfirstjórn alþýðulýðveldisins og hann aflaði sér mikilla vinsælda fyrir að reyna að hafa hemil á verstu öfgum menningarbyltingarinnar á sjöunda og áttunda áratugnum. Zhou reyndi að sporna við áhrifum Jiang Qing og fjórmenningaklíkunnar á árum menningarbyltingarinnar og dauði hans snemma árið 1976 þótti styrkja stöðu róttæklinga flokksins verulega.[4] Maó lést hins vegar síðar sama ár og eftir dauða hans tókst bandamönnum Zhou að koma fjórmenningaklíkunni frá völdum. Zhou var í kjölfarið stimplaður sem kínversk þjóðhetja.[5] Samstarfsmaður og pólitískur lærlingur Zhou til margra ára, Deng Xiaoping, varð einn áhrifamesti leiðtogi Kínverja á næstu árum.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Sjú Enlæ, fulltrúi hins nýja Kína á alþjóðavettvangi“. Nýi tíminn. 20. maí 1954. Sótt 25. september 2019.
  2. 2,0 2,1 Einar Olgeirsson (1976). „Chou-En-Lai (1898 - 8. janúar 1976)“. Réttur. Sótt 27. september 2019.
  3. „Chou-En-Lai“. Lesbók Morgunblaðsins. 1971. Sótt 27. september 2019.
  4. „Leikkonan sem komst nærri því að stjórna fjölmennasta ríki heims“. Vísir. 25. október 1980. Sótt 27. september 2019.
  5. Jón Hákon Magnússon (6. júlí 1980). „„Leitið sannleikans í staðreyndum ...". Morgunblaðið. Sótt 27. september 2019.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
(1. október 19498. janúar 1976)
Eftirmaður:
Hua Guofeng