Hallvard Magerøy (15. janúar 191615. nóvember 1994) var norskur textafræðingur, og prófessor í íslensku við Háskólann í Osló. Hann er meðal annars þekktur fyrir rannsóknir sínar á Bandamanna sögu.

Æviágrip

breyta

Foreldrar: Nils Magerøy (1883–1961) kennari og Sofia Apeland (1892–1922).

Hallvard Magerøy fæddist í Borgundi við Álasund í Vestur-Noregi. Hann varð stúdent í Volda 1936, cand. phil. í norrænum fræðum frá Háskólanum í Osló 1946, með latínu og sögu sem aukagreinar. Næstu þrjú árin var hann á rannsóknarstyrk og var þá um tíma í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Hann var lektor í norsku við Háskóla Íslands 1949–1952, síðan styrkþegi hjá norska rannsóknaráðinu til 1956 þegar hann vann að doktorsritgerð sinni og lauk doktorsprófi 1958 með riti sínu Studiar i Bandamanna saga. Hann vann svo við útgáfu Norska fornbréfasafnsins til 1962, varð þá dósent í norrænum fræðum við Óslóarháskóla og loks prófessor í íslensku þar 1974, uns hann fór á eftirlaun í árslok 1983.

Hallvarður gaf út og þýddi íslensk fornrit og ritaði margt um þau efni og menningarleg samskipti Íslands og Noregs. Auk Bandamanna sögu fjallaði hann sérstaklega um Ljósvetninga sögu og Böglunga sögur, en allar þessar sögur eru til í fleiri en einni gerð. Niðurstaða hans um Bandamanna sögu var að báðar gerðir sögunnar ættu sameiginlegan ritaðan uppruna og að lengri gerðin væri eldri og ætti að vera aðaltexti í útgáfu. Ekki voru allir fræðimenn sáttir við þetta, því að styttri gerðin var af þungavigtarmönnum talin upprunalegri. Hallvarður svaraði gagnrýni þeirra í tímaritsgrein 1966 og eru viðhorf hans til sögunnar nú viðurkennd af flestum. Eftir 1970 vann hann með Finn Hødnebø að nýrri útgáfu konungasagna sem kom út 1979 í tilefni af 800 ára afmæli Snorra Sturlusonar. Hóf hann þá rannsóknir á Böglunga sögum og gaf þær út í fræðilegri útgáfu 1988.

Hallvarður aðylltist „íslenska skólann“ eða bókfestukenninguna í fornsagnarannsóknum, þ.e. að Íslendingasögurnar séu verk menntaðra rithöfunda, sem styðjast við munnmæli, ýmis rit og eigið ímyndunarafl. Hann var ágætur latínumaður og nýtti sér það í rannsóknum sínum. Flestar ritsmíðar Hallvarðs eru á nýnorsku.

Hallvarður fékk ungur áhuga á Íslandi og íslenskum fræðum. Hann kom fyrst til Íslands árið 1947, fór þá á Snorrahátíðina í Reykholti og dvaldist á Hólum í Hjaltadal, þar sem hann æfði sig í íslensku. Árið 1949 kom hann hingað með konu sinni og var sendikennari í norsku við Háskóla Íslands í þrjú ár. Þau hjónin héldu síðan tengslum við landið og komu hér oft, enda tengdist það starfi þeirra beggja. Árið 1974 hafði Hallvarður forgöngu um það að Norðmenn gáfu Árnastofnun á Íslandi veglega bókagjöf, í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Ludvig Holm-Olsen átti þar einnig hlut að máli.

Hallvarður arfleiddi Háskólann í Volda (Høgskulen i Volda) að bókasafni sínu, og bréfum frá Helga Valtýssyni rithöfundi, en þeir skrifuðust á um árabil. Hallvarður birti grein um Helga í tímaritinu Syn og segn 1963.

Í tilefni af 75 ára afmæli Hallvarðs, 15. janúar 1991, var gefið út heiðursrit: Norroena et Islandica, með úrvali greina eftir hann. Þar er einnig ritaskrá Hallvarðs.

Hallvarður var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1983.

Hallvarður giftist 1949, kona hans var Ellen Marie Magerøy (1918–2009) listfræðingur, fædd Olsen. Þau eignuðust þrjú börn: Nils Are, Jostein og Ingeborg.

Tilvitnun

breyta
 
Mér finnst aðdáunarvert hve mikilli tryggð Íslendingar halda við mál sitt og sögu. Það er ekki eingöngu mikils virði fyrir þá sjálfa, heldur einnig fyrir hin Norðurlöndin og allan hinn menntaða heim. — Hallvard Magerøy, viðtal í Morgunblaðinu 21. júlí 1981.
 

Helstu rit

breyta

Bækur

breyta
  • Studiar i Bandamanna saga. Kring gjerd-problemet, København 1957. Bibliotheca Arnamagnæana XVIII. — Doktorsritgerð.
  • Sertekstproblemet i Ljósvetninga saga, Oslo 1957. Avhandlinger utgitt av Det Norske Videnskaps-Akademi i Oslo: II Hist.-Folos. Klasse 1956, No. 2.
  • Norsk-islandske problem, Oslo 1965.
  • Norroena et Islandica. Festskrift til Hallvard Magerøy på 75-årsdagen den 15 januar 1991, Øvre Ervik 1991. — Úrval greina eftir Hallvarð og ritaskrá hans.
  • Soga om austmenn. Nordmenn som siglde til Island og Grønland i mellomalderen, Oslo 1993.

Nokkrar greinar

breyta
  • „Frambrotet av nytida i islandsk lyrikk“, Syn og segn, 1948:21 bls. Sérprent.
  • „Garborgdikting i islandsk bunad“, Syn og segn, 1951:344–355.
  • „Hovuddrag i nyare islandsk og færøysk litteratur“, Syn og segn, 1957:204–215.
  • „Islands Wildenvey i norsk bunad“, Syn og segn, 1960:141–144. — Um þýðingar Ivars Orglands á ljóðum Tómasar Guðmundssonar.
  • „Ein norsk islending“, Syn og segn, 1963:254–259. — Um Helga Valtýsson rithöfund.
  • „Dei to gjerdene (versjonane) av Bandamanna saga. Eit tilsvar og eit supplement“, í Arkiv för nordisk filologi, 1966:75–108.
  • „Den indre samanhengen i Ljósvetninga saga“, Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969 Rvík 1969:118–146. — Endurprentað í Norroena et Islandica, 1991.
  • „Aristóteles og Snorri“, Skírnir, Rvík 1986:167–192. — Fyrirlestur í Háskóla Íslands 12. september 1985.
  • „Aristoteles og Snorre“, í A. Aarnes, H. Nordahl og S. Mathisen (ritstj.): Poetikk fra Platon til Valéry, 1986. — Endurprentað í Norroena et Islandica, 1991.
  • „Oprør mot Jón Helgason“, Bibliotheca Arnamagnæana XXXIX, Kbh. 1991:11–14.
  • „Vergil-påverknad på norrøn litteratur“, Gripla 10, Rvík. 1998:76–136.

Útgáfur

breyta

Þýðingar

breyta
  • Soga om Ljosvetningene, Oslo 1950. Norrøne bokverk 37. — Ljósvetninga saga á nýnorsku með 20 bls. inngangi eftir Hallvard Magerøy.
  • Jón Jóhannesson: Islands historie i mellomalderen: Fristatstida, oversatt av Hallvard Magerøy med et tillegg om Jón Jóhannesson og hans vitenskapelige produksjon, Oslo 1969.
  • Soga om sambandsmennene, Oslo 1976. Norrøne bokverk 18. — Bandamanna saga á nýnorsku með 80 bls. inngangi eftir Hallvard Magerøy.

Heimildir

breyta
  • Jónas Kristjánsson: „Hallvard Magerøy“. Minningargrein í Morgunblaðinu 7. desember 1994.
  • Store Norske Leksikon — á netinu.

Tenglar

breyta