Bandamanna saga er eina Íslendingasagan sem gerist að öllu leyti eftir söguöld, nánar tiltekið skömmu eftir 1050. Hún gerist að mestu í Miðfirði í Húnaþingi og á alþingi á Þingvöllum. Hún er vel sögð og í gamansömum tón, og um leið hörð gagnrýni á höfðingjastéttina. Náin tengsl virðast vera milli Bandamanna sögu og Ölkofra þáttar.

Um söguna

breyta

Sagan segir frá feðgunum Ófeigi Skíðasyni á Reykjum í Miðfirði og Oddi syni hans. Þeir eiga ekki skap saman og fer Oddur ungur að heiman og gerist sjómaður og fer síðan að fást við verslun. Hann auðgast fljótt, kaupir skip og fer í verslunarferðir til Noregs. Eftir nokkur ár er hann orðinn vel efnaður og kaupir jörðina Mel í Miðfirði (Melstað), sem er beint á móti Reykjum, kaupir goðorð og gerist sveitarhöfðingi. Hann lendir brátt í málaferlum og kemur þá í ljós að hann kann lítið fyrir sér á því sviði. Þegar hann er kominn í ógöngur, birtist faðir hans og fær snúið dómnum með lagaþekkingu og fégjöfum. Þeir sem í hlut áttu una illa við sinn hlut og mynda bandalag 8 höfðingja um að fá Odd dæmdan fyrir formgalla og fyrir að múta dómsmönnum. Hyggjast þeir gera eignir Odds upptækar, enda eftir miklu að slægjast. Þegar allt virðist komið í óefni fyrir Oddi á alþingi, grípur faðir hans aftur til sinna ráða, nær með klókindum að rjúfa samstöðu bandamanna og er Oddur dæmdur í óverulegar sektir. Sögunni lýkur með því að Oddur sættist við föður sinn og giftist dóttur eins af bandamönnum.

Sagan er varðveitt í tveimur gerðum. Lengri gerðin er í Möðruvallabók (M), frá síðari hluta 14. aldar. Styttri gerðin er í Konungsbók (K) (GKS 2845 4to), sem er frá 15. öld. Þessar tvær gerðir eru ólíkar um margt, þó að allur þorri efnisins sé hinn sami. Munurinn liggur m.a. í stílnum, M er margorðari (um 20% lengri en K) og „stíllinn flýtur þar í breiðara farvegi“.

Mjög skiptar skoðanir hafa verið meðal fræðimanna um hvor gerðin sé upphaflegri og hvert samband þeirra sé. Norski fræðimaðurinn Hallvard Magerøy hefur í seinni tíð manna mest rannsakað söguna, og samdi hann doktorsritgerð um hana. Niðurstaða hans var að báðar gerðir sögunnar ættu sameiginlegan ritaðan uppruna og að lengri gerðin væri eldri og ætti að vera aðaltexti í útgáfu.

Björn M. Ólsen segir um söguna: „Hvernig sem á Bandamanna sögu er litið, verður að telja hana með hinum merkustu Íslendinga sögum. Hún er sannkallaður gimsteinn í bókmenntum vorum.“

Helstu útgáfur

breyta

Nokkrar þýðingar

breyta
  • Enska: The saga of the confederates. The complete sagas of Icelanders, 5:283-308, Rvík 1997. — Ruth C. Ellison þýddi.
  • Enska: Bandamanna saga, Llanerch 1994. — John Porter þýddi, Andy Selwood myndskreytti.
  • Enska: The confederates & Hen-Thorir, Edinburgh 1975. The new saga library. — Hermann Pálsson þýddi.
  • Þýska: Die Geschichte von den Verbündeten, München 1924. — Arthur Bonus þýddi.
  • Franska: La saga des allies, Paris 1989. — Alain Marez þýddi og ritaði formála.
  • Norska: Sambandsmændenes saga, Oslo 1923. Tre sagaer om Islændinger. — Sigrid Undset þýddi.
  • Nýnorska: Soga om sambandsmennene, Oslo 1976. Norrøne bokverk 18. — Hallvard Magerøy þýddi og ritaði um söguna 80 bls. inngang.
  • Danska: De sammensvornes saga, Kbh. 1932. Islandske sagaer III. — Hans Kyrre þýddi. 2. útg. 1960, endurprentað nokkrum sinnum síðan.

Heimildir

breyta
  • Vésteinn Ólason: Íslensk bókmenntasaga 2, Rvík 1993:120–122.
  • Björn M. Ólsen: Um Íslendingasögur. Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta 6, Rvík 1929–1939:250–273.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi sögugrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.