Hólar í Hjaltadal

kirkjustaður og skólasetur í Hjaltadal Skagafirði
(Endurbeint frá Hólar)

65°44′01″N 19°06′49″V / 65.73361°N 19.11361°V / 65.73361; -19.11361

Dómkirkjan á Hólum og skólahúsið í baksýn.
Dómkirkjan á Hólum (1814/1

Hólar (oft kallaður Hólar í Hjartadal) eru bær, kirkjustaður og skólasetur í Hjaltadal í Skagafjarðarsýslu. Þar var settur biskupsstóll árið 1106 þegar Norðlendingar kröfðust þess að fá sinn eigin biskup til mótvægis við biskupinn í Skálholti. Fyrsti biskup á Hólum var jon ogmundsson. Hólabiskupsdæmi náði yfir stjórnsýslueininguna Norðlendingafjórðung eða frá Hrútafjarðará að Helkunduheiði og að Skoruvíkurbjargi á Langanesi.

Biskupssetur

breyta

Hólar voru í raun höfuðstaður og helsta menningarsetur Norðurlands frá því í upphafi tólftu aldar til upphafs nítjándu aldar og frá fornu fari hafa Norðlendingar og þó einkum Skagfirðingar talað um að fara „heim að Hólum“. Biskupsstóllinn átti geysimiklar eignir og um siðaskipti var um fjórðungur af öllum jörðum í Norðlendingafjórðungi í eigu stólsins. Á Hólum var löngum rekinn skóli, þó líklega ekki óslitið nema frá því um siðaskipti, og prentsmiðja var starfrækt þar lengi. Aðalhöfn fyrir Hóla fram að siðaskiptum var Kolbeinsárós (Kolkuós). Þar komu að landi þau skip sem biskupsstóllinn átti í förum á miðöldum.

Hólabiskupar voru 23 í kaþólskum sið og 13 í lútherskum sið. Margir biskupanna á 14. og 15. öld voru þó erlendir og stóðu stutt við á Hólum eða komu jafnvel aldrei til landsins en dvöldust erlendis og létu fulltrúa sína sinna málefnum biskupsdæmisins. Af atkvæðamestu biskupum í kaþólskum sið má auk Jóns Ögmundssonar nefna Guðmund góða Arason (biskup 1203-1237), Norðmanninn Auðun rauða Þorbergsson (biskup 1313-1322), sem meðal annars reisti Auðunarstofu hina fyrri, og Jón Arason (1524-1550), síðasta biskup á Hólum í kaþólskum sið.

Fyrsti lúterski biskupinn á Hólum var Ólafur Hjaltason en atkvæðamestur lútherskra biskupa þar var Guðbrandur Þorláksson, sem sat staðinn í meira en hálfa öld, eða frá 1571 til 1627 og lét meðal annars þýða og prenta biblíuna sem við hann er kennd og kölluð Guðbrandsbiblía. Gísli Magnússon (biskup 1755-1779) lét reisa steinkirkjuna sem enn stendur á Hólum. Síðasti biskup á Hólum var Sigurður Stefánsson (biskup 1789-1798) en eftir lát hans voru biskupsdæmin tvö sameinuð og Hólastóll lagður niður en skólinn fluttur suður og sameinaður Hólavallaskóla. Eftir að biskupsstóllinn var lagður af og eignir hans seldar voru Hólar prestssetur til 1868 en þá var prestssetrið flutt í Viðvík. Hólar urðu aftur prestssetur 1952 og frá Hólum hefur þar verið vigslubiskupssetur.

Skólasetur

breyta

Skagafjarðarsýsla keypti jörðina 1881 og árið eftir var bændaskóli stofnaður á Hólum, frá 2003 hefur nám þar verið á háskólastigi og kallast skólinn nú Háskólinn á Hólum. Ýmsar stofnanir eru einnig á Hólum, þar á meðal Sögusetur íslenska hestsins, Guðbrandsstofnun, sem er rannsókna- og fræðastofnun í tengslum við skólann, og fiskeldisstöðin Hólalax. Á Hólum er grunnskóli og leikskóli. Þar er umfangsmikil ferðaþjónusta og á sumrin er rekið þar gistihús og veitingahús. Þar er einnig sundlaug.

Íbúar á Hólum voru 83 þann 1. janúar 2012.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta