Hólarannsóknin

(Endurbeint frá Hólarannsókn)

Hólarannsóknin er umfangsmikið fornleifarannsóknarverkefni á Hólum í Hjaltadal sem hófst árið 2002. Áður höfðu mjög takmarkaðar fornleifarannsóknir verið gerðar á Hólum og nær eingöngu í tengslum við dómkirkjuna. Hólar voru helsta höfuðból Norðurlands um aldir; þar var biskupssetur til 1801, skóli og fyrsta prentsmiðja landsins var byggð þar á 16. öld. Rannsóknin miðar að því að varpa ljósi á þessa sögu. [1]

Um rannsóknina

breyta

Verkefnið er samstarf Hólaskóla, Byggðasafns Skagfirðinga og Þjóðminjasafns Íslands auk erlendra samstarfsaðila. Kristnihátíðarsjóður styrkti rannsóknina á árunum 2002-2006. Verkefnisstjóri er Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur. [2]

Aðaluppgraftarsvæði rannsóknarinnar er á Hólum en verkefnið teygir anga sína víða um Skagafjörð, m.a. að Hofi í Hjaltadal, Kolkuósi og Keldudal í Hegranesi. Í sambandi við rannsóknina var á tímabili rekinn vettvangsskóli fyrir fornleifafræðinema, bæði innlenda og erlenda í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Osló. [3]

Fundir

breyta

Á hólum hafa fundist tæplega 40 þúsund munir; leirker, krítarpípur, steináhöld, járngripir, hnífar, lyklar, leikföng, taflmenn og ýmislegt sem tengist fatnaði, svo sem hnappar, perlur, textill, leðurskór og gullþráður. Sægur af gripum er innfluttur. Leirkerin koma til dæmis frá Norðurlöndum, Þýskaldandi og Englandi. Um 2500 krítarpípubrot hafa fundist á staðnum. Flest eru það brot af pípuleggjum en einnig eru nokkrir heillegir pípuhausar.[4]

Göng frá kirkju til bæjarhúsa fundust við kirkjugarðsvegginn en eru hvorki fullgrafin né fullrannsökuð. Miðað við afstöðu þeirra til annarra mannvirkja má átta sig á húsaskipan á Hólum á 17. og 18. öld samkvæmt úttektum og öðrum heimildum.

Í prenthúsinu fundust flísar og flísabrot úr leir sem verið höfðu á stórum kakelofni, ættuðum frá Þýskalandi, þær elstu sem fundist hafa á Íslandi. Afar sjaldgæft er að finna slíkar ofnflísar hérlendis.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. http://fornleifar.holar.is/
  2. http://fornleifar.holar.is/
  3. http://fornleifar.holar.is/
  4. http://fornleifar.holar.is/index.php?option=com_jdownloads&Itemid=43&view=viewcategory&catid=4[óvirkur tengill]
  5. Ragnheiður Traustadóttir: 'Ekki í kot vísað.' Endurfundir. Fornleifarannsóknir styrktar af Kristnihátíðarsjóði 2001-2005, bls. 16-29