Gísli Magnússon (biskup)

Gísli Magnússon (f. 12. september 1712, d. 8. mars 1779) var biskup á Hólum frá 1755 til dauðadags, 1779, eða í 24 ár.

Foreldrar Gísla voru Magnús Markússon (d. 1733) prestur á Grenjaðarstað í Aðaldal, og kona hans Guðrún Oddsdóttir frá Reynistað.

Gísli fæddist á Grenjaðarstað og ólst þar upp. Hann lærði undir skóla hjá síra Þorleifi Skaftasyni í Múla í Aðaldal, og varð stúdent frá honum 1731. Fór utan sama ár, skráður í Kaupmannahafnarháskóla síðla hausts, og lauk embættisprófi í guðfræði vorið 1734. Kom heim um sumarið. Hann var skólameistari í Skálholti 1737-1746, bjó fyrst að Miðfelli en síðan í Haukadal. Hann fékk Staðastað 1746 og varð um leið prófastur í Snæfellsnessýslu.

Haustið 1754 fór Gísli til Kaupmannahafnar að konungsboði, og var vígður Hólabiskup 5. maí 1755. Hann kom að Hólum samsumars og var biskup til æviloka, 1779. Páll Eggert Ólason segir um Gísla: "Honum fór allt vel úr hendi, skólastjórn og kirkjustjórn; ... Hann var og vel gefinn, góðmenni og örlátur, höfðinglegur og hraustmenni að afli. kennimaður ágætur."

Það verk sem mun halda nafni Gísla lengst á lofti, er bygging steinkirkjunnar á Hólum, þ.e.a.s. þeirrar Hóladómkirkju sem nú prýðir staðinn (Gíslakirkju). Bygging kirkjunnar hófst sumarið 1757, og var kirkjan vígð 20. nóvember 1763. Byggingin var liður í endurreisnarstarfi dönsku stjórnarinnar hér.

Um 74 bækur komu út á Hólum í biskupstíð Gísla Magnússonar, en þó var lítið prentað þar á meðan á byggingu dómkirkjunnar stóð, og ekkert árin 1760-1763. Það taldist nýlunda að árið 1756 komu út tvær bækur með íslenskum fornsögum: Ágætar fornmannasögur og Nokkrir margfróðir söguþættir. Einnig þýddur reyfari: Þess svenska Gustav Landkrons og þess engelska Bertholds fábreytilegar Robinsons eður lífs og æfi sögur. Mæltist þetta misjafnlega fyrir og varð ekki framhald á. Gísli þýddi og lét prenta Monita Catechetica eftir J. J. Rambach (Hólum 1759). Árið 1779 kom út á Hólum útfararminning Gísla Magnússonar.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Gísla biskups, og margvísleg skjöl um byggingu dómkirkjunnar.

Í Hóladómkirkju var málverk af Gísla Magnússyni, það er nú í Þjóðminjasafni Íslands, og eftirmynd þess á Hólum.

Kona Gísla Magnússonar (gift 1736) var Ingibjörg Sigurðardóttir (f. um 1709, d. 1793) frá Geitaskarði í Langadal. Börn þeirra sem upp komust: Magnús Gíslason sýslumaður á Geitaskarði, Oddur Gíslason prestur á Miklabæ í Blönduhlíð og Kristín Gísladóttir, kona Hálfdanar Einarssonar skólameistara á Hólum.

Heimildir breyta

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár II.



Fyrirrennari:
Halldór Brynjólfsson
Hólabiskup
(17551779)
Eftirmaður:
Jón Teitsson