Hólaskóli (háskóli)

Hólaskóli – Háskólinn á Hólum er rannsóknar- og menntastofnun sem útskrifar nemendur úr þremur deildum.

Háskólinn á Hólum
Stofnaður: 2007
Gerð: Ríkisháskóli
Rektor: Erla Björk Örnólfsdóttir
Nemendafjöldi: 210
Staðsetning: Hólar í Hjaltadal, Ísland
Vefsíða

Um miðja 11. öld bjó á Hólum Oxi Hjaltason af ætt Hofsverja. Hann lét gera kirkju mikla. Um 1100 átti Illugi Bjarnason jörðina. Þegar ákveðið var að stofna biskupsstól á Norðurlandi, gaf hann Hóla til biskupsseturs.

Fyrsti biskupinn á Hólum var Jón Ögmundsson helgi. Hann tók vígslu árið 1106. Jón hélt skóla á staðnum fyrir prestsefni. Skólinn var kallaður Hólaskóli og má segja að þetta hafi verið háskóli þess tíma. Viðfangsefnin voru fjölbreytt. Fór mikið frægðarorð af skólahaldi hans og kirkjustjórn. Rætur Hólaskóla nútímans teygja sig langt aftur í tímann eða allt til ársins 1106. Frá tíð Jóns Ögmundssonar er orðtakið, sem síðan hefur lifað á vörum Íslendinga; heim að Hólum.

Höfuðstaður Norðurlands

breyta

Á sjö alda tímabili voru Hólar hinn raunverulegi höfuðstaður Norðurlands og helsta menningarsetur fjórðungsins, enda starfræktur þar skóli lengst af. Mikill auður safnaðist að Hólum. Þegar veldi biskupsstólsins var sem mest á fyrri hluta 16. aldar, átti hann 352 jarðir og var það um 1/4 af öllum jörðum í Norðlendingafjórðungi. Þá átti Hólastóll víða rekaítök og önnur hlunnindi.

Biskuparnir

breyta

Alls sátu 36 biskupar á Hólum, 23 í kaþólskum sið og 13 í lútherskum. Má þar nefna Jón Ögmundarson helga (1106-1121), Guðmund Arason góða (1203-1237), Auðun rauða Þorbergsson (1313-1322), Jón Arason (1524-1550) og Guðbrand Þorláksson (1571-1627) og Gísla Magnússon (1755-1779). Árið 1802 var stóllinn lagður niður og eignir hans seldar.

Vígslubiskupsembættið var stofnað 1910. Vígslubiskup hefur setið á Hólum frá 1986, er hr. Sigurður Guðmundsson þáverandi vígslubiskup flutti á staðinn. Hr. Bolli Þ. Gústavsson tók við af Sigurði og núverandi vígslubiskup Hólastiftis er hr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson og tók hann við embættinu í júní 2003.

Guðmundur Arason hinn góði var þekktastur fyrir að eiga í stöðugum deilum við voldugustu höfðingjaættir landsins. Mikið orð fór af honum fyrir ölmusugjafir, bænahald og lækningar. Gvendarskál er sylla í Hólabyrðu, fjallinu fyrir ofan Hóla. Sagt er að Guðmundur góði hafi farið þangað reglulega og beðist fyrir. Fornt altari er í Gvendarskál. Gvendarbrunnur er í túninu framan við kirkjuna.

Jón Arason var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi og barðist hart gegn siðaskiptunum. Hann var hálshöggvinn í Skálholti ásamt tveimur sonum sínum 7. nóvember 1550 og markaði það endalok kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Jón var höfðingi í lund og eitt mesta skáld sinnar tíðar. Til minningar um Jón var reistur turn við Hóladómkirkju árið 1950.

Guðbrandur Þorláksson er þekktastur fyrir bókaútgáfu sína. Guðbrandur gaf út fyrstu biblíuna á íslenska tungu 1584 og á útgáfa hennar stóran þátt í að íslenskan varðveittist. Guðbrandur var vísindamaður og reiknaði m.a. út hnattstöðu Hóla. Honum hefur stundum verið líkt við Leonardo Da Vinci. Á hans tímum má búast við að margt hafi verið íhugað og skeggrætt í hinum forna Hólaskóla.

Búnaðarskólinn 1882

breyta

Árið 1881 keypti Skagafjarðarsýsla Hóla, og ári síðar var stofnaður búnaðarskóli á Hólum sem hefur starfað nær óslitið síðan. Hlutverk skólans hefur breyst í tímans rás og skólinn hefur lagað sig að breyttum aðstæðum. Námið miðar að því að efla atvinnu- og menningarlíf í dreifbýli með fjölbreyttri starfsmenntun á sviði nútíma landbúnaðar. Árið 1999 fékk skólinn aftur hið upphaflega nafn, Hólaskóli.

Háskólastofnun 2003

breyta

Árið 2003 fékk Hólaskóli heimild til að starfa sem háskólastofnun og vera með fullt nám til fyrstu háskólagráðu. Á undanförnum árum hefur vísindastarf skólans eflst verulega samhliða námsframboði. Samningar hafa verið gerðir við aðra háskóla um margvíslega viðurkenningu á námi skólans sem hluta af þeirra námi. Margir nemendur hafa unnið framhaldsverkefni til M.Sc. prófs undir leiðsögn kennara skólans. Heimild skólans til að starfa sem háskólastofnun er honum mjög mikilvæg og markar tímamót í sögu hans.

900 ár

breyta

Mikið var um dýrðir árið 2006 þegar haldið var upp á 900 ára afmæli biskupsstóls og skólahalds á Hólum. Sérstök vefsíða var sett upp um afmælishaldið, þar sem sjá má dagskrá, myndir og frásagnir af atburðum.

Háskóli 2007

breyta

Alþingi samþykkti ný lög um Hólaskóla - Háskólann á Hólum í desember 2006. Nýju lögin eru í samræmi við löggjöf um aðra ríkisháskóla. Lögin styrkja starf skólans mjög mikið og auka tækifæri hans til að þróast enn frekar. Með lögunum fær skólinn m.a. leyfi til að útskrifa meistara- og doktorsnema.

Nýtt ráðuneyti 2008

breyta

Háskólinn á Hólum flyst frá landbúnaðarráðuneyti yfir í ráðuneyti menntamála.

Viðurkenning fræðasviða 2007 Háskólinn á Hólum fékk viðurkenningu fræðasviða sinna í apríl 2008. Með henni var faglegt starf skólans formlega staðfest í samræmi við alþjóðleg viðmið um háskóla.

Ný löggjöf 2013

breyta

Hinn 1. júlí 2013 tóku gildi ný lög um opinbera háskóla og frá og með þeim degi heyra málaefni Hólaskóla - Háskólans á Hólum undir þau. Á sama tíma féllu lög um búnaðarfræðslu úr gildi.

Deildir

breyta

Ferðamáladeild

breyta

Nám í ferðamáladeild undirbýr nemendur fyrir störf í ferðaþjónustu og fyrir framhaldsnám á því sviði. Mikil áhersla er lögð á virk tengsl við stofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu auk náinna tengsla við menntastofnanir í ferðaþjónustu hérlendis og erlendis.

Staðnám eða fjarnám með staðbundnum lotum - blandað nám Aðstæður til náms og búsetu á Hólum eru ágætar, og auðvelda bein tengsl við samnemendur og kennara. Margir nemendur tala einnig um dýrmæta reynslu þess að búa á stað sem Hólum. Fjarkennsla við deildina hófst haustið 2000 og nú eru öll námskeið við hana einnig í boði í fjarnámi. Í mörgum námskeiðum er þó gert ráð fyrir staðbundnum lotum, til dæmis í tengslum við vettvangsferðir eða aðra þætti, sem erfitt er að sinna í fjarnámi. Staðbundnu loturnar eru einnig til þess fallnar að efla tengslin milli nemenda og við kennarana.

Annir og stuttannir

breyta

Skólaárinu er skipt í þrjár annir, þar af tvær sem fyrst og fremst byggjast á bóklegu námi (haustönn og vorönn). Þessum önnum er síðan skipt í tvær stuttannir hvorri og einstök námskeið ná ýmist yfir önnina alla eða aðra hvora stuttönnina. Á sumarönn er einkum um verknám að ræða.

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild

breyta

Námsframboð við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum er fyrst og fremst tvíþætt. Annars vegar eins árs diplómunám í fiskeldisfræði og hins vegar rannsóknatengt meistaranám í sjávar- og vatnalíffræði.

Ennfremur hefur verið boðið upp á BS-nám í sjávar- og vatnalíffræði, í samstarfi við Háskóla Íslands.

Kennslu- og rannsóknaaðstaða deildarinnar er í Verinu á Sauðárkróki.

Hestafræðideild

breyta

Við hestafræðideild Háskólans á Hólum er boðið upp á tvær mismunandi leiðir til BS-gráðu. Annars vegar BS í reiðmennsku og reiðkennslu, og hins vegar BS í hestafræðum. Báðar námsleiðirnar eru byggðar upp af 180 ECTS, sem samsvara þriggja ára fullu námi.

Námsleiðin BS í hestafræði er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, og er skipulögð þannig að fyrstu tvö árin stundar nemandinn sitt nám á Hvanneyri en hið þriðja og síðasta heima á Hólum.

Samhliða námsleiðinni BS í reiðmennsku og reiðkennslu er boðið upp á þá möguleika að útskrifast með diplómu að loknu einu námsári (leiðbeinendapróf) eða tveimur (tamningapróf).

Tenglar

breyta