Guðmundur Eyjólfsson ríki

Guðmundur Eyjólfsson ríki (d. 1025) var norðlenskur höfðingi og goðorðsmaður á 10. og 11. öld og bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði. Hann er aðalpersónan í Ljósvetninga sögu og kemur við sögu í ýmsum öðrum Íslendingasögum.

Faðir hans var að því er segir í Landnámu Eyjólfur Valgerðarson, sonur Einars sonar Auðuns rotins Þórólfssonar landnámsmanns í Saurbæ í Eyjafirði. Kona Einars var Helga dóttir Helga magra. Valgerður móðir Eyjólfs var Runólfsdóttir Gissurarsonar. Bróðir hans var Einar Þveræingur Eyjólfsson, sem bjó á Þverá (seinna Munkaþverá).

Guðmundur var höfðingi mikill og segir í Ljósvetninga sögu að hann hafi haft hundrað hjóna (vinnuhjúa) og hundrað kúa. „Það var og siður hans að láta löngum vera með sér göfugra manna sonu og setti þá svo ágætlega að þeir skyldu engan hlut eiga að iðja annan en vera ávallt í samsæti með honum.“ Hann var goði og átti þingmenn bæði í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og reið um með þrjátíu menn og heimsótti þingmenn sína.

Kona Guðmundar var Þórlaug dóttir Atla ramma, sonar Sæmundar suðureyska landnámsmanns í Skagafirði. Þau áttu nokkur börn. Í Ljósvetninga sögu segir að synir Guðmundar, Eyjólfur halti og Koðrán, hafi tekið arf eftir hann. Raunar segir Landnáma að móðir Koðráns hafi verið Þjóðgerður dóttir Flóka Vilgerðarsonar en það stenst illa tímans vegna. Eyjólfur kvæntst Yngvildi dóttur Síðu-Halls og var Þórey dóttir þeirra móðir Sæmundar fróða en Þorsteinn sonur þeirra faðir Ketils biskups.

Tenglar

breyta
  • „Ljósvetninga saga á snerpa.is“.
  • „Landnámabók á snerpa.is“.