Einar Þveræingur
Einar Þveræingur Eyjólfsson er sögupersóna í Íslendingasögunum. Hann var kenndur við bæ sinn Þverá, nú Munkaþverá í Eyjafirði og var bróðir Guðmundar ríka Eyjólfssonar. Einar Þveræingur er þekktur fyrir ræðu sína þegar Þórarinn Nefjólfsson erindreki Ólafs Haraldssonar Noregskonungs fór þess á leit á Alþingi að Íslendingar gæfu Noregskonungi Grímsey.
Ræða Einars Þveræings var svohljóðandi:
Því em eg fáræðinn um þetta mál að engi hefir mig að kvatt. En ef eg skal segja mína ætlan þá hygg eg að sá muni til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldregi ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sjá sé góður maður, sem eg trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verður að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla eg vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða ef þaðan er engi hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla eg mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir durum. |
Í seinni tíð hafa Íslendingar oft vísað til fordæmis Einars Þveræings í umræðu um sjálfstæði og fullveldi Íslands og gjarnan er bent á ræðu hans sem fyrirmynd að andstöðu gegn erlendu áhrifavaldi á landinu, ekki síst hervaldi. Árið 1918 gáfu andstæðingar sambandslagafrumvarpsins út tímarit undir nafninu Einar Þveræingur þar sem þeir birtu greinar með rökum gegn samþykkt laganna, sem þeir töldu að myndu í reynd gefa Dönum aukin völd á Íslandi.[1] Fyrsta merkið sem sett var fram í nafni hernaðarandstæðinga á Íslandi var gert þegar samtökin Þjóðareining gegn her í landi voru stofnuð 1953. Þetta var barmmerki þar sem nafnið ÞVERÆINGUR ritað á bogadreginn málmflöt. Samtök hernáms- og herstöðvaandstæðinga héldu nafni Einars einnig mjög á lofti og mörg kvæði hafa verið ort honum til lofs.[2]
Heimild
breyta- Tilvísanir
- ↑ Gunnar Þór Bjarnason (2018). Hinir útvöldu. Reykjavík: Sögufélag. bls. 259–260. ISBN 978-9935-466-17-4.
- ↑ Gunnar M. Magnúss. Ein þjóðarrödd skal ríkja. Þjóðviljinn 25. ágúst 1973.