Sæmundur suðureyski

Sæmundur suðureyski var landnámsmaður í Skagafirði. Hann hafði áður verið í víkingaferðum með Ingimundi gamla og er hans getið í Vatnsdæla sögu.

Hann kom til Íslands og lenti skipi sínu í Gönguskarðsárósi. Síðan nam hann Sæmundarhlíð alla en það nafn náði þá yfir miklu stærra svæði en nú er, allt út að Gönguskarðsá, en nú nær Sæmundarhlíð ekki nema út að Reynistað. Austurmörk landnámsins voru við Sæmundará, sem heitir Staðará neðst, og síðan Héraðsvötn og hefur Sæmundur því einnig numið þau byggðarlög sem nú kallast Staðarsveit og Borgarsveit. Óljóst er hver syðri mörk landnámsins voru því að í einu handriti Landnámabókar er Sæmundur einnig sagður hafa numið land undir Vatnsskarði. Þetta var því mjög stórt landnám og líklega hefur Sæmundur verið með allra fyrstu landnámsmönnum í Skagafirði.

Landnámsjörð Sæmundar er ýmist kölluð Sæmundarstaðir eða Geirmundarstaðir í handritum Landnámabókar en heitir nú Geirmundarstaðir. Það er þó engin stórjörð; helstu höfuðbólin í landnámi Sæmundar eru Reynistaður og Sjávarborg.

Heimildir

breyta
  • „Landnámabók“.
  • Ólafur Lárusson (1940). Landnám í Skagafirði. Sögufélag Skagfirðinga.