Ghislaine Maxwell
Ghislaine Noelle Marion Maxwell (f. 25. desember 1961) er bresk yfirstéttarkona sem er þekkt fyrir tengsl sín við fjárfestinn og kynferðisafbrotamanninn Jeffrey Epstein. Hún vann fyrir föður sinn, athafnamanninn Robert Maxwell, til dauða hans árið 1991 en flutti síðan til Bandaríkjanna og varð náin vinkona Epsteins. Maxwell stofnaði góðgerðasamtök til verndar hafsins, TerraMar-verkefnið, árið 2012. Samtökin hættu starfsemi 12. júlí 2019, viku eftir að ákærur ríkissaksóknara í New York gegn Epstein fyrir kynlífsmansal voru gerðar opinberar.
Ghislaine Maxwell | |
---|---|
Fædd | 25. desember 1961 |
Þjóðerni | Frönsk, bresk og bandarísk |
Menntun | Balliol-háskóli í Oxford |
Störf | Athafnakona |
Þekkt fyrir | Tengsl sín við kynferðisafbrotamanninn Jeffrey Epstein |
Maki | Scott Borgerson (g. 2016) |
Börn | 2 |
Árið 2020 kærði ákæruvald Bandaríkjanna Maxwell fyrir að hafa tælt til sín ólögráða einstaklinga og fyrir að taka þátt í mansali á ólögráða stúlkum. Þann 10. júlí tilkynnti dómsmálaráðuneyti Bandarísku Jómfrúaeyja einnig að hún væri til rannsóknar þar.
Æviágrip
breytaGhislaine Maxwell er dóttir breska fjölmiðlakóngsins og stjórnmálamannsins Roberts Maxwell, sem lést árið 1991. Hún er fædd í Frakklandi en ólst upp í Englandi.[1] Áður en Robert Maxwell lést hafði hann stolið um 450 milljónum sterlingspunda úr eftirlaunasjóðum fyrirtækja sinna til að reyna að bjarga þeim frá gjaldþroti. Ghislaine var áberandi í fjölmiðlum eftir dauða föður síns. Þegar hún var þrjátíu ára bjó hún í New York í íbúð nærri Central Park og vann hjá fasteignafyrirtæki við Madison Avenue. Hún átti í vinfengi við mektarfólk á borð við Ivönu Trump og Adnan Khashoggi og rak um skeið eigið fyrirtæki sem sá fjölskyldufyrirtækjum Maxwell-ættarinnar fyrir starfsmannagjöfum.[2]
Maxwell kynntist fjárfestinum Jeffrey Epstein á árum sínum í New York. Þau voru par á tímabili en voru áfram nánir vinir eftir að þau hættu saman. Í viðtali við Vanity Fair árið 2003 kallaði Maxwell Epstein besta vin sinn.[1] Undir lok tíunda áratugarins sá Maxwell um öll persónuleg mál Epsteins og efldi tengslanet sitt með því að sækja ýmsa samkvæmisviðburði á Manhattan.[3]
Maxwell virðist hafa fjarlægst Epstein eftir aldamótin. Hún flutti til Flórída og hóf sambúð með öðrum manni en byrjaði aftur að vinna fyrir Epstein árið 2004 og vann fyrir hann að minnsta kosti til 2006.[3]
Á næstu árum var Maxwell áhugasöm um umhverfisvernd og sér í lagi um verndun hafsins. Hún stofnaði TerraMar-verkefnið til að berjast fyrir málaflokknum árið 2012 og kom tvisvar til Reykjavíkur, árin 2013 og 2014, til að flytja erindi á ráðstefnu Hringborðs Norðurslóða (e. Arctic Circle) í Hörpu um úrgang og ofveiði í hafinu.[3]
Í september árið 2009 var Maxwell stefnt fyrir dóm í tengslum við rannsókn á kynferðisafbroti Epsteins gegn ungri stúlku. Sex árum síðar sakaði önnur kona, Virginia Giuffre, Epstein um kynferðisbrot gegn sér og benti á Maxwell sem vitorðsmann hans og þátttakanda í ofbeldinu. Sagði hún Maxwell hafa fengið sig til að gerast einkanuddari Epsteins þegar hún var fimmtán ára og hafa gert sig að kynlífsþræl Epsteins og vinar þeirra, Andrésar Bretaprins. Maxwell hafnaði ásökunum Giuffre en var í kjölfarið kærð fyrir meiðyrði. Að endingu samdi Maxwell um sátt í málinu utan dómstóla.[3]
Í júlí árið 2019 var Jeffrey Epstein handtekinn og ákærður fyrir mansal eftir að fyrri samningur hans við ákæruvaldið var endurskoðaður.[4] Maxwell var á þessum tíma stödd í Bretlandi en lét sig hverfa þegar gamlar ásakanir um að hún hefði útvegað Epstein ungar stúlkur til að níðast á urðu umtalaðar. Epstein lést í fangelsi í ágúst 2019 en Maxwell fannst ekki fyrr en 2. júlí 2020 þegar bandaríska alríkislögreglan kom að henni í húsi í Bradford í New Hampshire. Maxwell var í kjölfarið ákærð fyrir að aðstoða Epstein að misnota ólögráða stúlkur.[3] Í lok mars 2021 var hún jafnframt ákærð fyrir mansal.[5]
Réttarhöld gegn Maxwell hófust í nóvember 2021. Saksóknarar hafa sakað Maxwell um að vingast við ungar stúlkur í verslunarferðum um Manhattan og hafa kynnt þær fyrir Epstein, sem misnotaði þær og greiddi þeim síðan peninga. Lögmenn stjórnvalda hafa jafnframt sakað Maxwell um að taka stundum þátt í athæfinu á heimili sínu í London og á heimilum Epsteins á Manhattan, Palm Beach og í Nýju-Mexíkó.[6] Í vitnisburði sínum í málinu kallaði fyrrum einkaflugmaður Epsteins Maxwell „hægri hönd“ Epsteins.[7]
Þann 29. desember 2021 var Maxwell sakfelld fyrir alla ákæruliði nema einn. Hún var fundin sek um að hafa lagt á ráð með Epstein um að tæla ólögráða stúlkur í kynlífsmansal, flytja þær á milli landa og brjóta á þeim kynferðislega. Hún var hins vegar sýknuð af ákærulið um kynlífsmansal á einni stúlku undir lögaldri.[8]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Guðný Hrönn (4. júlí 2020). „Hver er Ghislaine Maxwell? – Hægri hönd Jeffrey Epsteins“. Mannlíf. Sótt 3. desember 2021.
- ↑ „Sumir hafa það ágætt“. Tíminn. 20. júní 1992. bls. 10-11.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Sunna Ósk Logadóttir (20. júlí 2020). „Íslandsvinurinn sem sagður er hafa „fóðrað skrímslið" Epstein“. Kjarninn. Sótt 3. desember 2021.
- ↑ Kristjana Björg Guðbrandsdóttir; Ólöf Skaftadóttir (17. ágúst 2019). „Níddist á brotnum stúlkum“. Fréttablaðið. Sótt 18. nóvember 2019.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (29. mars 2021). „Maxwell ákærð fyrir mansal í fyrsta sinn“. Vísir. Sótt 3. desember 2021.
- ↑ „Réttarhöld yfir Maxwell að hefjast“. mbl.is. 27. nóvember 2021. Sótt 3. desember 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (1. desember 2021). „Flutti nafngreind frægðarmenni á fund Epsteins“. RÚV. Sótt 3. desember 2021.
- ↑ Urður Ýrr Brynjólfsdóttir (29. desember 2021). „Ghislaine Maxwell sakfelld í öllum ákæruliðum nema einum“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2022. Sótt 29. desember 2021.