Gerty Cori

(Endurbeint frá Gerti Cori)

Gerty Theresa Cori (fædd undir nafninu Radnitz; 15. ágúst 1896 – 26. október 1957) var austurrísk-ungverskur (og síðar bandarískur) lífefnafræðingur sem vann árið 1947 til Nóbelsverðlaunanna í lífeðlis- og læknisfræði fyrir þátt sinn í uppgötvun efnaskipta glýkógens. Hún var fyrsta konan sem vann til Nóbelsverðlauna í þessum flokki og þriðji kvenkyns Nóbelsverðlaunahafinn í vísindum frá upphafi.

Gerty Cori
Gerty Cori árið 1947.
Fædd15. ágúst 1896
Dáin26. október 1957 (61 árs)
DánarorsökMergnetjuhersli
ÞjóðerniAusturrísk-ungversk, síðar bandarísk
MenntunKarlsháskólinn í Prag
StörfLífefnafræðingur
TrúKaþólsk (áður gyðingur)
MakiCarl Ferdinand Cori (g. 1920)
Börn1
Verðlaun Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði (1947)

Æviágrip

breyta

Gerty Radnitz var elst þriggja dætra austurrísk-ungversku hjónanna Otto Radnitz, sem var efnafræðingur, og Mörthu Radnitz. Hún var menntuð í heimahúsum þar til hún var tíu ára, en þá gekk hún í stúlknaskóla í Prag.[1] Þegar Gerty var 16 ára ákvað hún að gerast læknir og reyndi að skrá sig til læknisnáms í Karlsháskólanum í Prag, en var hafnað þar sem hún þótti ekki nógu langt komin í stærðfræði, latínu og efnafræði. Á næstu árum bætti hún kunnáttu sína í þessum fögum og námsumsókn hennar var loks samþykkt árið 1914, þegar Gerty var átján ára.[2]

Í háskólanum kynntist Gerty Carl Ferdinand Cori, sem hún giftist árið 1920.[1] Vegna hungursneyðar sem tröllreið Tékkóslóvakíu á þeim tíma fluttu hjónin til Vínarborgar, þar sem Gerty Cori var ráðin til starfa við barnaspítala og vann við rannsóknir á blóðsjúkdómum og kannaði breytingar á líkamshita fyrir og eftir meðferðir á skjaldkirtlum.[2] Gerty sýktist á þessum tíma af augnþurrki og þurfti að snúa aftur til Prag um hríð til að hvílast í húsi foreldra sinna og ná aftur heilsu.[2] Á miðjum þriðja áratuginum fóru hjónin að þreifa fyrir sér um möguleika á að flytjast burt frá Evrópu vegna aukins gyðingahaturs í álfunni. Fyrst sóttu þau um starf hjá ríkisstjórn Hollands á eyjunni Jövu, en eftir að hafa verið hafnað þáði Carl Cori atvinnutilboð frá ríkisrekinni rannsóknarmiðstöð á illvirkum sjúkdómum í Buffalo í Bandaríkjunum.[2] Hann fór til Bandaríkjanna árið 1922 en Gerty fylgdi honum ekki þangað fyrr en sex mánuðum síðar, eftir að hún hafði fengið stöðu sem aðstoðarkennari í meinafræðum.[2]

Árið 1929, eftir sex ára rannsóknarvinnu, lögðu Cori-hjónin fram kenningu sem síðar hefur verið kennd við þau og kölluð Cori-hringrásin. Kenning þeirra útskýrði hvernig mjólkursýrur sem verða til við sykrurof í vöðvunum ferðast niður í lifrina, þar sem þær breytast í glúkósa fyrir efnaskipti og eru síðan sendar aftur í vöðvana, þar sem hringrásin endurtekur sig.[3] Rannsóknarstörf þeirra höfðu mikil áhrif á notkun insúlíns, sem var uppgötvað nokkrum árum síðar.[2]

Þrátt fyrir mikla og árangursríka rannsóknarvinnu Gerty, sem hafði birt 11 greinar sjálf og 50 í samstarfi við eiginmann sinn, hlaut hún aðeins ráðningu sem aðstoðarmaður til ársins 1946 vegna kynfordóma bandaríska vísindasamfélagsins.[4] Við Háskólann í Rochester var Carl jafnvel varaður við því að hann væri að „eyðileggja feril sinn“ með því að birta greinar í samstarfi við eiginkonu sína.[5] Háskólarnir í Toronto og Cornell tóku ekki til greina að ráða Gerty til starfa þrátt fyrir að sækjast eftir því að ráða eiginmann hennar.[5] Loks hlutu hjónin bæði stöður við Washington-háskóla í St. Louis árið 1931. Carl varð prófessor í lyfjafræðum en Gerty varð aðstoðarmaður við lyfjarannsóknir.[2] Það var ekki fyrr en árið 1946 sem Gerty varð sjálf lyfjafræðiprófessor, en þá hafði Carl tekið við stöðu forstöðumanns lífefnafræðideildar skólans.[5]

Við rannsóknir sínar á glúkósum árið 1936 uppgötvuðu hjónin glúkósa-1-fosfat með því að fylgjast með niðurbroti glýkógens í glúkósa.[2] Þetta var fyrsta skrefið í rannsókn sem leiddi til þess að hjónin unnu til Nóbelsverðlaunanna í lífeðlis-og læknisfræði árið 1947 ásamt Argentínumanninum Bernardo Houssay. Hjónin voru verðlaunuð fyrir rannsóknir sínar á glýkósum og fyrir uppgötvun Cori-hringrásarinnar.[6][3]

Nokkrum dögum eftir verðlaunaafhendinguna greindist Gerty með mergnetjuhersli, sjaldgæft og ólæknandi krabbamein.[2] Þrátt fyrir sjúkdóminn hélt Gerty áfram rannsóknarstörfum sínum og uppgötvaði meðal annars hvernig dauði eða truflun á starfsemi ensíms getur orsakað sjúkdóma.[2] Gerty Cori lést heima hjá sér þann 26. október árið 1957, þá 61 árs gömul.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „The Nobel Prize in Physiology or Medicine 1947“ (enska). Nóbelsverðlaunin. Sótt 14. ágúst 2019.
  2. 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 Hélène Merle-Béral (2016). 17 femmes prix Nobel de sciences. Odile Jacob. bls. 82-96.
  3. 3,0 3,1 3,2 Carl and Gerty Cori and carbohydrate metabolism (enska). National Historic Chemical Landmarks.
  4. Des femmes prix Nobel[óvirkur tengill], Institut national de physique nucléaire et de physique des particules.
  5. 5,0 5,1 5,2 Dr. Gerty Theresa Radnitz Cori, æviágrip á vefsíðu United States National Library of Medicine
  6. „The Nobel Prize in Physiology or Medicine 1947“. Nóbelsstofnunin. 2010. Sótt 14. ágúst 2019. „for their discovery of the course of the catalytic conversion of glycogen“