George Patrick Leonard Walker
George Patrick Leonard Walker (George P. L. Walker) (2. mars 1926 – 17. janúar 2005) var enskur jarðfræðingur sem sérhæfði sig í eldfjallafræði og steindafræði. Hann vann merkar rannsóknir á jarðfræði Austurlands.
Walker fæddist í London. Hann lauk meistaraprófi frá Háskólanum í Belfast á Norður-Írlandi 1949, og varð doktor frá Háskólanum í Leeds 1956. Hann kenndi við Imperial College í London 1951-1978.
Á árunum 1955-1965 kortlagði Walker jarðlög víða á Austur- og Suðausturlandi, ásamt nemendum sínum. Hann birti um þær rannsóknir margar ritgerðir, m.a. um jarðfræði Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar, Breiðdals, Álftafjarðar og Þingmúla í Skriðdal. Hann skrifaði einnig vísindaritgerðir um landmótun, samsetta bergganga, flikruberg og geislasteinabelti á Austurlandi, og almennt um íslenska jarðfræði og landrek. Walker sótti Ísland heim nokkrum sinnum síðar, t.d. 1973, 1980, 1988 og a.m.k. einu sinni eftir 1990.
Með rannsóknum sínum sýndi Walker fram á að berggrunnur Austurlands væri myndaður af eldvirkni, sem bundin var við megineldstöðvar, á sama hátt og enn má sjá á eldvirkum svæðum hér á landi. Walker kynnti hér nýjar og gagnlegar aðferðir við að rekja saman jarðlög af sama aldri milli staða. Einnig taldi hann að myndun hraunlagastaflans og innskota hefði gerst nokkuð samfellt í tíma í tengslum við landrek út frá gosbeltinu og sig jarðskorpunnar þar, en eldri hugmyndir höfðu gert ráð fyrir afmörkuðum hrinum gosvirkni og höggunar til skiptis. Fyrsta eldgos sem Walker sá var Surtseyjargosið 1963–1967, og beindist áhugi hans þá að virkum eldfjöllum.
Síðari rannsóknir Walkers voru einkum á Asoreyjum, Ítalíu, Kanaríeyjum, Nýja-Sjálandi, Indónesíu og Havaí. Árið 1978 þáði hann rannsóknarstöðu á Nýja-Sjálandi, varð síðan í ársbyrjun 1981 prófessor í eldfjallafræði við Háskólann á Havaí, en lét af störfum sökum aldurs 1996 og fluttist aftur til London.
Walker hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar, m.a. íslensku Fálkaorðuna 1980, og Heiðursmerki Sigurðar Þórarinssonar 1989, sem alþjóðasamtök um eldfjallafræði (IAVCEI) veita. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 22. október 1988. Var einnig bréfafélagi í Vísindafélagi Íslendinga.
Á vegum alþjóðasamtaka um eldfjallafræði er verðlaunasjóður, sem veitir George Walker verðlaunin. Þau eru veitt á fjögurra ára fresti eldfjallafræðingum sem hafa nýlega tekið doktorspróf, fyrst 2004.
Þann 23. ágúst 2008 var stofnað jarðfræðisetur á Breiðdalsvík í minningu George P. L. Walkers. Þar er aðstaða til fræðaiðkunar í gamla Kaupfélagshúsinu, elsta húsi þorpsins (frá 1906). Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur, fyrrum nemandi Walkers, átti hugmyndina að setrinu, og hefur í samstarfi við ekkju og dóttur Walkers, farið yfir gögn, ljósmyndir og muni sem varðveitt eru í setrinu.
Í júní 2006 var haldin ráðstefna í Reykholti í minningu George Walkers og framlags hans til jarðvísinda. Ráðstefnuritið heitir: "Studies in Volcanology. The Legacy of George Walker", London 2009, 409 bls. Bæði íslenskir og erlendir jarðvísindamenn eiga greinar í ritinu.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „George Patrick Leonard Walker“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. febrúar 2008.
- Morgunblaðið, 22. febrúar 2008.
- Leó Kristjánsson: George P. L. Walker and his geological research in Iceland. "Jökull", 55. ár, Reykjavík 2005.
Tenglar
breyta- Ómar Bjarki Smárason: George Patrick Leonard Walker (1926–2005)
- Ómar Bjarki Smárason: Í fótspor George Walkers – Vísindasetur á Breiðdalsvík
- Leó Kristjánsson: Skrá um rit G. P. L. Walkers og samstarfsmanna, sem snerta jarðfræði Íslands Geymt 7 janúar 2007 í Wayback Machine
- Viðtal við Walker, Morgunblaðið 22. október 1988 - fyrri hluti[óvirkur tengill]
- Viðtal við Walker, Morgunblaðið 22. október 1988 - síðari hluti[óvirkur tengill]
- Vefsíða Breiðdalsseturs Geymt 18 september 2017 í Wayback Machine