Berggangar

(Endurbeint frá Berggangur)

Berggangar (e. dykes) myndast við að bráðin bergkvika úr iðrum jarðar eða frá grunnstæðari kvikuhólfum, brýtur sér leið upp í gegn um jarðskorpuna eða þrýstir sér út í sprungur og storknar. Berggangar eru því alltaf yngri en bergið í kring. Oftast liggja þeir því sem næst hornrétt á jarðlagastaflann í kring. Hallandi gangar eru þó víða. Algengasta gerð hallandi ganga eru svokallaðir keilugangar (e. cone sheets) en þeir myndast gjarnan í megineldstöðvum. Gangar geta einnig verið láréttir (eða legið samsíða jarðlagastaflanum sem þeir eru í). Slíkir gangar nefnast syllur (e. sills). Berggangar eru oft aðfærslukerfi bergkviku að eldstöð eða hafa myndast við lárétt kvikuhlaup út frá eldstöð. Berggangar geta verið úr basalti, andesíti eða líparíti. Þeir geta verið margir kílómetrar að lengd. Breidd þeirra er oftast einungis einn til tveir metrar. Þeir geta þó verið mun þynnri og einnig þykkari. Stærstu gangar á Íslandi eru margir tugir metra að þykkt.

Dólérit í Svíþjóð
Á Tröllaskagi

Tenglar

breyta
  • „Hvað eru berggangar og hvers vegna halla þeir oft út á aðra hliðina?“. Vísindavefurinn.
  • Berggangar - Pípulagnir Eldfjallanna (Haraldur Sigurðsson)