Alþjóðasamtök um eldfjallafræði

Alþjóðasamtök um eldfjallafræði og efnafræði innri hluta jarðar, eða IAVCEI – (Interational Association of Volcanology and the Chemistry of the Earth's Interior) – eru samtök sem fylgjast með og móta alþjóðlegar áherslur í rannsóknum í eldfjallafræði, leitast við að draga úr hættu af völdum eldgosa, og stuðla að rannsóknum í skyldum greinum, svo sem jarðefnafræði, steindafræði og bergfræði eldstöðva, og hvernig bergkvika myndast í efri hluta möttulsins og leitar upp um jarðskorpuna.

IAVCEI er stjórnað af framkvæmdastjórn, sem kosin er til fjögurra ára í senn. Stjórnin mótar stefnu samtakanna og kemur henni í framkvæmd með starfi allmargra nefnda og vinnuhópa.

Alþjóðasamband um jarðmælingar og jarðeðlisfræði , eða IUGG – (International Union of Geodesy and Geophysics) – var stofnað árið 1919. IUGG skiptist í átta samtök, og er IAVCEI eitt þeirra.

Alþjóðasamtök um eldfjallafræði (IAV) voru stofnuð 1919, og voru þau fyrirrennari IAVCEI. Samþykktir og reglugerðir IAV voru staðfestar í Helsinki 1960 og voru endurskoðaðar í Zürich 1967 og í Canberra 1979. 'Chemistry of the Earth's Interior' (CEI) var bætt við nafnið árið 1967 til samræmis við systursamtökin: Alþjóðasamtök um jarðskjálftafræði og eðlisfræði innviða jarðar, eða IASPEI – (International Association of Seismology and the Physics of the Earth's Interior).

Markmið samtakanna

breyta

Samkvæmt lögum IAVCEI eru markmið samtakanna eftirfarandi:

  • Að fást við vísindaleg viðfangsefni tengd eldfjöllum og eldvirkni, fyrr og nú, og efnafræði innri hluta jarðar.
  • Að hvetja til, hafa frumkvæði að og samræma rannsóknir í eldfjallafræði, og stuðla að alþjóðasamvinnu um þær.
  • Að hvetja eldfjallafræðinga til að vekja athygli viðkomandi yfirvalda á mikilvægi þess að hafa strangt eftirlit með virkum eldfjöllum og þeim sem kunna að vera virk, og að meta hættu af völdum eldgosa.
  • Að gefa út niðurstöður vísindarannsókna í eldfjallafræði og efnafræði innri hluta jarðar, og stuðla að fræðilegri umræðu um þær.

Aðild að IAVCEI var lengst af bundin við vísindafélög. Árið 1996 var einstaklingum gert kleift að gerast félagar í IAVCEI.

Þing samtakanna í Reykjavík 2008

breyta

Samtökin héldu allsherjarþing í Reykjavík 17.-22. ágúst 2008. Tæplega 1.000 manns frá 50 þjóðlöndum sóttu þingið. Um 1.300 fræðileg framlög voru kynnt, sem skiptust í 700 erindi og 600 veggspjöld.

Meðal þriggja nýrra heiðursfélaga, sem þar voru kynntir, var dr. Haraldur Sigurðsson, fyrrum prófessor í eldfjallafræði við Háskólann í Rhode Island, Bandaríkjunum.

Eftirtaldir aðilar sáu um undirbúning þingsins: Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, Guðrún Larsen jarðfræðingur og Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.

Tímarit IAVCEI

breyta

Bulletin of Volcanology er tímarit samtakanna, og kemur það út átta sinnum á ári. (Eldra nafn: Bulletin Volcanologique). Tímaritið kom fyrst út 1922.

Viðurkenningar

breyta

Samtökin veita viðurkenningar á fjórum mismunandi sviðum:

Heimild

breyta

Tenglar

breyta