Frans Jósef 1. Austurríkiskeisari

(Endurbeint frá Franz Jósef 1.)

Frans Jósef 1. (18. ágúst 1830 – 21. nóvember 1916) var keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands, Bæheims og ýmissa annarra ríkja frá 2. desember 1848 til dauðadags þann 21. nóvember 1916.[1] Frá 1. maí 1850 til 24. ágúst 1866 var hann einnig forseti þýska ríkjasambandsins. Hann ríkti lengst allra keisara Austurríkis og konunga Ungverjalands og fjórða lengst allra evrópskra einvalda, á eftir Loðvík 14. Frakklandskonungi, Jóhanni 2. fursta af Liechtenstein og Elísabetu 2. Bretlandsdrottningu.[2]

Skjaldarmerki Habsburg-Lothringen-ætt Keisari Austurríkis
Habsburg-Lothringen-ætt
Frans Jósef 1. Austurríkiskeisari
Frans Jósef 1.
Ríkisár 2. desember 184821. nóvember 1916
SkírnarnafnFranz Joseph Karl von Österreich
Fæddur18. ágúst 1830
 Schönbrunn-höll, Vín, austurríska keisaradæminu
Dáinn21. nóvember 1916 (86 ára)
 Schönbrunn-höll, Vín, Austurríki-Ungverjalandi
GröfKeisaragrafhýsinu í Vín
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Frans Karl erkihertogi
Móðir Soffía af Bæjaralandi
KeisaraynjaElísabet

Ferdinand keisari lét af völdum í desember 1848 til að binda enda á uppreisnir í Ungverjalandi og eftirlét krúnuna frænda sínum, Frans Jósef. Frans Jósef var íhaldssamur og stóð gegn takmörkun einveldisins í ríkjum sínum. Austurríska keisaradæmið neyddist til þess að láta af áhrifum sínum í Toskanahéraði og tilkalli sínu til Langbarðalands og Feneyja eftir annað og þriðja ítalska sjálfstæðisstríðið á árunum 1859 og 1866. Frans Jósef lét engin landssvæði af hendi eftir að Austurríki lét í lægri hlut fyrir Prússum í stríði árið 1866, en útkoma þess stríðs útkljáði það að Prússar frekar en Austurríkismenn yrðu þungavigtin innan nýja þýska ríkisins sem var að myndast og útilokaði því að Þýskaland yrði sameinað undir stjórn Habsborgara.[3]

Alla sína valdatíð þurfti Frans Jósef að kljást við þjóðernishyggju. Hann miðlaði málum í Ausgleich árið 1867 og veitti Ungverjalandi aukna sjálfsstjórn innan veldisins og breytti austurríska keisaraveldinu í austurrísk-ungverska keisaraveldið, þar sem hann var einvaldur tveggja konungsríkja. Frans Jósef réð ríkjum sínum friðsamlega næstu 45 árin, en hann mátti þó þola ýmsa persónulega harmleiki: Bróðir hans, Maximilian var tekinn af lífi í Mexíkó árið 1867, sonur hans og erfingi, Rúdolf, framdi sjálfsmorð árið 1880 og eiginkona hans, Elísabet keisaraynja var myrt árið 1898.[4]

Eftir stríðið við Prússa beindi Austurríki-Ungverjaland sjónum sínum til Balkanskaga, sem var orðinn suðupottur alþjóðarígs vegna hagsmunaáreksturs Austurríkismanna við Rússaveldi. Frans Jósef hleypti alþjóðastjórnmálum í uppnám árið 1908 þegar hann innlimaði Bosníu og Hersegóvínu, sem hafði verið hernumin af Austurríkismönnum frá því á Berlínarráðstefnunni 1878, inn í keisaraveldið. Þann 28. júní 1914 var Frans Ferdinand erkihertogi, bróðursonur og erfingi Frans Jósefs, skotinn til bana í Sarajevo. Þetta leiddi til þess að Frans Jósef lýsti Serbum, sem voru bandamenn Rússa, stríði á hendur. Þetta var byrjunin á fyrri heimsstyrjöldinni. Frans Jósef lést þann 21. nóvember árið 1916 eftir að hafa ráðið yfir keisaradæminu í nærri því 68 ár. Við honum tók frændi hans, Karl.

Heimild

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Francis Joseph, í Encyclopædia Britannica. sótt 18. júlí 2017
  2. Anatol Murad, Franz Joseph I of Austria and his Empire, Twayne Publishers, 1968
  3. Murad 1968, bls. 151.
  4. Gamall þjóðhöfðingi, Frækorn, bls. 119, 9. september 1910.


Fyrirrennari:
Ferdinand 1.
Keisari Austurríkis
(2. desember 184821. nóvember 1916)
Eftirmaður:
Karl 1.