Frances Arnold
Frances Hamilton Arnold (25. júlí 1956) er bandarískur efnaverkfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi. Hún er prófessor í efnaverkfræði, lífverkfræði og lífefnafræði við Tækniháskólann í Kaliforníu. Árið 2018 var Arnold sæmd Nóbelsverðlaununum í efnafræði fyrir rannsóknir sínar á stýrðri þróun til að byggja upp ensím.[1]
Efnaverkfræði 20. og 21. öld | |
---|---|
Nafn: | Frances Hamilton Arnold |
Fædd: | 25. júlí 1956 |
Svið: | Efnaverkfræði, lífverkfræði, lífefnafræði |
Alma mater: | Princeton-háskóli (BS) Kaliforníuháskóli í Berkeley (M.S., PhD) |
Helstu vinnustaðir: |
Tækniháskólinn í Kaliforníu |
Verðlaun og nafnbætur: |
Nóbelsverðlaunin í efnafræði (2018) |
Uppvöxtur og menntun
breytaFrances Arnold er dóttir Josephine Inman og kjarneðlisfræðingsins Williams Howard Arnold. Hún er jafnframt sonardóttir herforingjans Williams Howard Arnold eldri.[2] Hún ólst upp í úthverfinu Edgewood við Pittsburgh og hverfunum Shadyside og Squirrel Hill í Pittsburgh. Hún útskrifaðist úr Taylor Allderdice-gagnfræðiskólanum í borginni árið 1974.[3] Sem gagnfræðiskólanemandi ferðaðist Arnold á puttanum til Washington, D.C. til þess að mótmæla Víetnamstríðinu og vann fyrir sér sem gengilbeina á djassklúbbi og sem leigubílstjóri.[4]
Arnold útskrifaðist úr Princeton-háskóla árið 1979 með BS-gráðu í vélaverkfræði og flugvélaverkfræði. Þar hafði hún lagt áherslu á rannsóknir á sólarorku.[5] Auk þess að ljúka skylduáföngum námsbrautar sinnar tók hún áfanga í hagfræði, rússnesku og ítölsku og sá fyrir sér að hún myndi gerast erindreki eða framkvæmdastjóri. Hún velti því fyrir sér að fara í framhaldsnám í alþjóðasamskiptum.[6] Hún tók sér eins árs hlé frá Princeton-háskóla eftir annað árið sitt þar og ferðaðist til Ítalíu til að vinna þar í verksmiðju sem framleiddi hluta í kjarnakljúfa. Að ári loknu sneri hún aftur til Bandaríkjanna til að ljúka námi.[7]
Þegar hún kom aftur til Princeton-háskóla hóf Arnold nám við Orku- og umhverfisrannsóknarstöð skólans – hóp vísindamanna og verkfræðinga sem vinna að þróun sjálfbærrar orku. Þetta átti eftir að vera eitt af meginviðfangsefnum Arnolds síðar á rannsóknarferli hennar.[7]
Eftir útskrift úr Princeton-háskóla árið 1979 vann Arnold sem verkfræðingur í Suður-Kóreu og Brasilíu og við Sólarorkurannsóknarmiðstöð Colorado.[7] Við stofnunina vann hún að hönnun sólarorkustöðva fyrir afskekkta staði og tók þátt í að rita skýrslur um málefnið fyrir Sameinuðu þjóðirnar.[6]
Arnold skráði sig síðar til náms við Kaliforníuháskóla í Berkeley og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í efnaverkfræði árið 1985.[8] Hún fékk jafnframt mikinn áhuga á lífefnafræði við skólann.[9][7] Doktorsritgerð hennar fjallaði um aðferðir við sækniskiljun.[8][10]
Ferill
breytaEftir að hafa lokið doktorsnámi sínu lauk Arnold nýdoktorsrannsókn í lífeðlisefnafræði við Berkeley-háskóla.[11] Árið 1986 fékk hún vinnu sem gestakennari við Tækniháskólann í Kaliforníu (Caltech). Hún var gerð lektor árið 1986, dósent árið 1992 og prófessor árið 1996. Hún var útnefnd Dick og Barbara Dickinson-prófessor í efnaverkfræði, lífverkfræði og lífefnafræði árið 2000 og hlaut síðan stöðu Linus Pauling-prófessors í sömu greinum árið 2017.[12] Árið 2013 var hún útnefnd framkvæmdastjóri Lífverkfræðistofu Donnu og Benjamins M. Rosen við Caltech.[12]
Arnold sat í vísindanefnd Santa Fe-stofnunarinnar frá 1995-2000.[13] Hún er meðlimur í ráðgjafarnefnd ríkisrannsóknarstofnunarinnar Joint BioEnergy Institute og styrkjasjóðs David og Lucile Packard-stofnunarinnar fyrir vísindi og verkfræði. Auk þess situr hún í ráðgjafarráði forseta Vísinda- og tækniháskóla Abdúlla konungs og í dómnefnd fyrir verkfræðiverðlaun Elísabetar drottningar. Arnold hefur unnið við bandarísku vísindaakademíuna til að hjálpa handritshöfundum í Hollywood að skrifa á réttan hátt um vísindaleg málefni.[14]
Arnold er meðal hugarsmiða á bak við rúmlega 40 einkaleyfi í Bandaríkjunum.[9] Árið 2005 tók hún þátt í stofnun Gevo, Inc., fyrirtækis sem býr til eldsneyti og efnablöndur úr endurnýtanlegum hráefnum.[9] Árið 2013 stofnaði hún ásamt tveimur fyrrum nemendum sínum, Peter Meinhold og Pedro Coelho, fyrirtækið Provivi til að leita að öðrum leiðum en plágueyðum til að vernda akra.[9][15] Arnold hefur setið í framkvæmdastjórn erfðafræðifyrirtækisins Illumina frá árinu 2016.[16][17]
Einkahagir
breytaArnold býr í La Cañada Flintridge í Kaliforníu. Hún var gift efnaverkfræðingnum Jay Bailey, sem lést úr krabbameini árið 2001.[18][16] Þau áttu son að nafni James Bailey.[19] Arnold var sjálf greind með brjóstakrabbamein árið 2005 og fór í 18 mánaða meðferð fyrir sjúkdómnum.[20][21]
Arnold giftist stjarneðlisfræðingnum Andrew E. Lange árið 1994 og eignaðist með honum tvo syni, William og Joseph.[22][19] Lange framdi sjálfsmorð árið 2010 og annar sonur þeirra, William Lange-Arnold, lést af slysförum árið 2016.[16]
Arnold hefur áhuga á ferðalögum, köfun, skíðum, torfæruhjólreiðum og fjallgöngum.[21]
Tilvísanir
breyta- ↑ Samúel Karl Ólason (3. október 2018). „Fá nóbelsverðlaun fyrir að taka stjórn á þróuninni“. Vísir. Sótt 30. nóvember 2019.
- ↑ Memorial Tributes. National Academies Press. 26. september 2017. doi:10.17226/24773. ISBN 978-0-309-45928-0.
- ↑ Guarino, Ben (3. október 2018). „'Her work is incredible': Pittsburgh native Frances Arnold shares Nobel Prize in chemistry“. Pittsburgh Post-Gazette.
- ↑ Kharif, Olga (15. mars 2012). „Frances Arnold's Directed Evolution“. Bloomberg Businessweek. Sótt 1. september 2012.
- ↑ „Princeton engineering alumna Frances Arnold wins Nobel Prize in Chemistry“. Princeton University (enska). Sótt 4. október 2018.
- ↑ 6,0 6,1 Ouellette, Jennifer (8. mars 2013). „The Director of Evolution“. Slate (bandarísk enska). ISSN 1091-2339. Sótt 5. október 2018.
- ↑ 7,0 7,1 7,2 7,3 „Evolution Gets an Assist“. Princeton Alumni Weekly (enska). 17. október 2014. Sótt 5. október 2018.
- ↑ 8,0 8,1 Arnold, Frances Hamilton (1985). Design and Scale-Up of Affinity Separations) (PhD). University of California, Berkeley. OCLC 910485566 – gegnum ProQuest.
- ↑ 9,0 9,1 9,2 9,3 „Frances H. Arnold“. NAE Website. Sótt 3. október 2018.
- ↑ „A to G | Harvey W. Blanch“. stage.cchem.berkeley.edu (enska). Sótt 3. október 2018.
- ↑ „Interview with Frances H. Arnold – Design by Evolution“. www.chemistryviews.org (enska). Sótt 3. október 2018.
- ↑ 12,0 12,1 „Frances Arnold Wins 2018 Nobel Prize in Chemistry | Caltech“. The California Institute of Technology (enska). Sótt 4. október 2018.
- ↑ „Frances Arnold Wins Nobel Prize in Chemistry“. Santa Fe Institute (enska). Sótt 25. júlí 2019.
- ↑ „Frances Arnold's directed evolution“. American Association for the Advancement of Science (enska). Sótt 3. október 2018.
- ↑ Freeman, David (31. maí 2016). „Meet The Woman Who Launched A New Field of Scientific Study“. Huffington Post (bandarísk enska). Sótt 4. október 2018.
- ↑ 16,0 16,1 16,2 „This Nobel winner lost a son and two husbands and survived cancer“. NBC News (bandarísk enska). Sótt 5. október 2018.
- ↑ „Board of Directors“. Illumina (enska). Sótt 8. október 2018.
- ↑ D. S. Clarke (2002) Biotechnology and Bioengineering vol 79, no 5, page 483 "In Appreciation:James E. Bailey, 1944–2001"
- ↑ 19,0 19,1 Overbye, Dennis (27. janúar 2010). „Andrew Lange, Scholar of the Cosmos, Dies at 52“. The New York Times. Sótt 3. október 2018.
- ↑ Hamilton, Walter (3. júlí 2011). „Frances Arnold: Career path of a Caltech scientist“. Los Angeles Times. Sótt 1. september 2012.
- ↑ 21,0 21,1 Hamilton, Walter (3. júlí 2011). „Frances Arnold: Career path of a Caltech scientist“. Los Angeles Times (bandarísk enska). ISSN 0458-3035. Sótt 5. október 2018.
- ↑ „Andrew E. Lange '80“. Princeton Alumni Weekly. 21. janúar 2016. Sótt 3. október 2018.