Evo Morales
Juan Evo Morales Ayma (f. 26. október 1959), oft einfaldlega kallaður Evo, er bólivískur stjórnmálamaður sem var forseti Bólivíu frá árinu 2006 til ársins 2019. Hann er fyrsti forseti landsins sem er af amerískum frumbyggjaættum. Stjórn hans einbeitti sér að vinstrisinnuðum stefnumálum, baráttu gegn fátækt og spornun við áhrifum Bandaríkjanna og fjölþjóðlegra fyrirtækja í Bólivíu. Morales er sósíalisti og formaður bólivísku Sósíalistahreyfingarinnar (Movimiento al Socialismo eða MAS).
Evo Morales | |
---|---|
Forseti Bólivíu | |
Í embætti 22. janúar 2006 – 10. nóvember 2019 | |
Varaforseti | Álvaro García Linera |
Forveri | Eduardo Rodríguez |
Eftirmaður | Jeanine Áñez |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 26. október 1959 Isallawi, Bólivíu |
Stjórnmálaflokkur | Sósíalistahreyfingin |
Börn | 3 |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaMorales er kominn af bændum af Aymara-þjóðerni. Hann fæddist í Isallave í Orinoca-sýslu og hlaut grunnskólanám áður en hann gegndi herskyldu í bólivíska hernum. Hann flutti til Chapare-sýslu árið 1978 og fór að rækta kókarunna. Hann gekk í stéttarfélag kókaræktarmanna og komst til metorða sem baráttumaður gegn tilraunum Bandaríkjamanna til að fá Bólivíumenn til að banna kókaræktun í stríðinu gegn eiturlyfjum. Morales fordæmdi hreyfinguna fyrir banni á kókaræktun og kallaði hana tilraun heimsvaldssinna til að bæla niður menningu frumbyggja Andesfjalla. Hann tók þátt í mótmælaaðgerðum gegn ríkisstjórninni og var handtekinn nokkrum sinnum. Morales hóf þátttöku í stjórnmálum árið 1995, gerðist foringi Sósíalistahreyfingarinnar og var kjörinn á bólivíska þingið. Morales beitti kosningabrögðum í anda lýðhyggju og einbeitti sér bæði að málefnum innfæddra og fátækra samfélagshópa í kosningabaráttum sínum. Meðal annars mælti hann með endurskiptingu ágóða af olíuvinnslu og landeignarumbótum. Árið 2002 var hann rekinn af bólivíska þinginu fyrir að hvetja til mótmæla en hann hlaut þó næstmestan stuðning í forsetakosningum sem haldnar voru sama ár.
Morales var kjörinn forseti árið 2005. Sem forseti var hann fljótur að hækka skatta á kolvetnaiðnaðinn til þess að fjármagna ýmis velferðarverkefni, meðal annars til að berjast gegn ólæsi, fátækt, kynþáttafordómum og kynfordómum. Morales gagnrýndi nýfrjálshyggju opinskátt og dró úr tengslum Bólivíu við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hagvöxtur var mikill snemma á stjórnartíð hans er hann vék Bólivíu frá efnahagslegu frjálslyndi í átt að blönduðu hagkerfi. Morales dró úr bandarískum áhrifum í landinu og styrkti tengsl Bólivíu við aðrar vinstristjórnir sem höfðu komist til valda í Rómönsku Ameríku í „bleiku flóðbylgjunni“ svokölluðu á miðjum fyrsta áratug 21. aldar. Undir stjórn Morales gekk Bólivía meðal annars í Bólivaríska bandalagið fyrir Ameríkuþjóðir sem Hugo Chávez hafði stofnað. Morales vann þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort honum skyldi vikið úr embætti árið 2008 og kynnti í kjölfarið nýja stjórnarskrá sem viðurkenndi Bólivíu sem fjölþjóðlegt ríki. Morales vann endurkjör í forsetaembættið árið 2009 og hélt áfram að koma á vinstrisinnuðum umbótum. Á öðru kjörtímabili hans gekk Bólivía í Suðurbankann og Samfélag rómansk-amerískra og karabískra ríkja. Morales var aftur endurkjörinn árið 2014.
Morales hefur verið hrósað fyrir að draga verulega úr fátækt og ólæsi í Bólivíu og hefur verið sæmdur ýmsum alþjóðlegum verðlaunum. Stuðningsmenn hans líta til hans sem verndara frumbyggjaréttinda, náttúruverndar og gegn heimsvaldshyggju. Aftur á móti hafa ýmsir gagnrýnendur hans sakað hann um að standast ekki hugsjónirnar sem hann talar fyrir. Hægrisinnaðir gagnrýnendur hans hafa einnig sakað hann um að vera ofstækisfullan og gerræðislegan auk þess sem þeir saka hann um að hvetja til ólöglegrar kókaínframleiðslu með stuðningi sínum við kókaræktun.
Morales vann endurkjör í þriðja skipti eftir umdeildar kosningar árið 2019. Hann hafði fengið leyfi frá stjórnlagadómstól landsins til að gefa kost á sér í fjórða skipti þrátt fyrir að kjósendur hefðu áður hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samkvæmt opinberum tölum hlaut Morales um 47 prósent atkvæða og hafði um tíu prósenta forskot á helsta andstæðing sinn, fyrrum forsetann Carlos Mesa, í kosningunum, sem rétt nægði til að sleppa við aðra kosningaumferð. Þar sem Morales hafði talist með aðeins um sjö prósenta forskot á Mesa áður en tíu klukkustunda hlé var gert á atkvæðatalningunni sætti hann ásökunum um kosningasvindl og ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Kólumbíu, Argentínu og Brasilíu hvöttu stjórnina til að halda aðra kosningaumferð.[1] Fjöldamótmæli gegn Morales brutust út víða um Bólivíu eftir að Morales var lýstur sigurvegari og lögreglan í sumum borgum landsins, meðal annars höfuðborginni La Paz, gekk í lið með mótmælendunum.[2]
Þann 10. nóvember 2019 sagði Morales af sér vegna þrýstings frá alþýðu og her Bólivíu.[3] Eftir afsögnina hlaut Morales hæli í Mexíkó[4] og síðan í Argentínu.[5] Forsetakosningarnar voru endurteknar þann 19. október 2020 og í þeim vann frambjóðandi Sósíalistahreyfingarinnar, Luis Arce, fyrrum fjármálaráðherra í stjórn Morales, afgerandi sigur.[6] Morales sneri aftur til Bólivíu þann 9. nóvember, daginn eftir að Arce var svarinn í embætti.[7]
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Evo Morales“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. ágúst 2018.
Tilvísanir
breyta- ↑ Róbert Jóhannsson (25. október 2019). „Morales lýstur sigurvegari í Bólivíu“. RÚV. Sótt 25. október 2019.
- ↑ Róbert Jóhannsson (10. nóvember 2019). „Höfuðborgarlögreglan stendur með mótmælendum“. RÚV. Sótt 10. nóvember 2019.
- ↑ „Forseti Bólivíu segir af sér“. mbl.is. 10. nóvember 2019. Sótt 10. nóvember 2019.
- ↑ Róbert Jóhannsson (12. nóvember 2019). „Morales floginn til Mexíkó“. RÚV. Sótt 12. nóvember 2019.
- ↑ Kjartan Kjartansson (22. desember 2019). „Morales áformar fjöldafund við landamærin að Bólivíu“. Vísir. Sótt 14. mars 2020.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (19. október 2020). „Frambjóðandi Sósíalista kosinn forseti Bólivíu“. RÚV. Sótt 21. október 2020.
- ↑ Tom Phillips; Dan Collyns (9. nóvember 2020). „'The fight goes on': exiled former president Evo Morales returns to Bolivia“ (enska). The Guardian. Sótt 9. nóvember 2020.
Fyrirrennari: Eduardo Rodríguez (starfandi) |
|
Eftirmaður: Jeanine Áñez (starfandi) |