Eugénie de Montijo

Frönsk keisaraynja (1826-1920)
(Endurbeint frá Evgenía de Montijo)

María Eugenia Ignacia Agustina de Palafox-Portocarrero de Guzmán y Kirkpatrick, markgreifynja af Ardales, markgreifynja af Moya og 20. greifynja af Teba, kölluð Eugénie de Montijo (5. maí 1826 – 11. júlí 1920), var eiginkona Napóleons 3. Frakkakeisara og keisaraynja Frakklands frá 1853 til 1870.

Skjaldarmerki Bonaparte-ætt Keisaraynja Frakka
Bonaparte-ætt
Eugénie de Montijo
Eugénie de Montijo
Ríkisár 30. janúar 18534. september 1870
SkírnarnafnMaría Eugenia Ignacia Agustina de Palafox-Portocarrero de Guzmán y Kirkpatrick
Fædd5. maí 1826
 Granada, Spáni
Dáin11. júlí 1920 (94 ára)
 Madríd, Spáni
GröfSt Michael's Abbey, Farnborough, Hampshire, Englandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Cipriano de Palafox y Portocarrero
Móðir María Manuela Enriqueta Kirkpatrick de Closbourn y de Grevigné
KeisariNapóleon 3.
BörnNapóleon keisaraprins

Eugénie réð Frakklandi sem ríkisstjóri í nafni eiginmanns síns í stuttan tíma á meðan fransk-prússneska stríðið stóð yfir árið 1870. Hún er því síðasta konan sem hefur ríkt yfir Frakklandi með valdi þjóðhöfðingja.[1][2]

Æviágrip breyta

Eugénie fæddist til spænskrar aðalsfjölskyldu í Grenada á Spáni árið 1826. Faðir hennar, don Cipriano de Palafox y Portocarrero, hafði gengið til liðs við innrásarher Frakka á Íberíuskaga í Napóleonsstyrjöldunum. Móðir hennar, María Manuela Kirkpatrick de Closbourn, var hálf-skosk og var dóttir sendiherra Bandaríkjanna til Malaga. María flúði með dætur sínar til Frakklands árið 1834 vegna Karlistastríðanna á Spáni. Í Frakklandi réð hún franska rithöfundinn Stendhal til að gerast kennari Eugénie.[3][4]

Eugénie kynntist Louis-Napoléon Bonaparte, forseta franska lýðveldisins, árið 1849. Bonaparte hreifst af Eugénie og eyddi næstu tveimur árunum í að stíga í væng við hana. Eftir að hann tók sér keisaratign sem Napóleon 3. árið 1852 vonuðust margir stuðningsmenn hans til þess að hann myndi kvænast inn í ríkjandi konungsfjölskyldu annars Evrópuríkis en svo fór að þau Eugénie gengu í hjónaband þann 22. janúar næsta ár. Þau Napóleon eignuðust einn son, Napoléon Eugène Louis Jean Joseph Bonaparte, árið 1856.

Eugénie naut nokkurra pólitískra áhrifa sem keisaraynja og hvatti meðal annars til hernaðaríhlutunar Frakka í Mexíkó til þess að hægt yrði að stofna kaþólskt keisaradæmi þar.

Þegar fransk-prússneska stríðið braust út árið 1870 varð Eugénie eftir sem ríkisstjóri í París á meðan eiginmaður hennar og sonur héldu til atlögu gegn Þjóðverjum. Hún útnefndi nýja ríkisstjórn undir forsæti Charles Cousin-Montauban á meðan maður hennar var í burtu. Eftir nokkra franska hernaðarósigra íhugaði Napóleon að yfirgefa her sinn og snúa aftur til Parísar en Eugénie réð honum frá því og sagði honum að bylting myndi brjótast út ef keisarinn yfirgæfi hermenn sína.[5] Þjóðverjar handsömuðu Napóleon 3. eftir ósigur Frakka í orrustunni við Sedan og í kjölfarið lýstu Frakkar yfir endalokum keisaraveldisins og stofnun nýs fransks lýðveldis.

Eugénie flutti ásamt eiginmanni sínum og syni í útlegð til Englands, þar sem Napóleon lést árið 1873. Sonur þeirra lést sömuleiðis árið 1879 í hernaði Breta gegn Súlúmönnum.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 gaf Eugénie breska hernum gufuskipið sitt, Thistle. Hún styrkti einnig hernaðarsjúkrahús í styrjöldinni.[6]

Tilvísanir breyta

  1. „Chatou : un café causerie sur l'impératrice Eugénie“. leparisien.fr..
  2. Louis Badinguet (2017). L'Impérial Socialiste. Massot Éditions. bls. 83.
  3. „Pierre Pellissier, « Stendhal et Mérimée »“..
  4. Yannick Portebois, Les arrhes de la douairière : histoire de la dictée de Mérimée ou l'orthographe sous le Second Empire, Librairie Droz, 2006 (lesa), bls. 161.
  5. Milza, Pierre (2006). Napoleon III. Tempus (Paris). bls. 80–81.
  6. Seward, Desmond (2004). Eugénie: The Empress and her Empire. Stroud: Sutton, bls. 293–294.