Erich Ludendorff
Erich Friedrich Wilhelm Ludendorff (9. apríl 1865 – 20. desember 1937) var þýskur hershöfðingi í fyrri heimsstyrjöldinni, sem leiddi Þjóðverja til sigurs gegn Belgum í orrustunni við Liège, og í orrustunni við Tannenberg gegn Rússum, árið 1914. Hann var í kjölfarið skipaður birgðastjóri þýska keisarahersins (þýska: Erster Generalquartiermeister) og hafði ásamt Paul von Hindenburg keisaramarskálki, forystu yfir stríðsátaki Þýskalands fram til ósigursins í stríðinu árið 1918.
Erich Ludendorff | |
---|---|
Fæddur | 9. apríl 1865 Kruszewnia, Provinz Posen, Prússlandi |
Dáinn | 20. desember 1937 (72 ára) |
Störf | Hershöfðingi og birgðastjóri þýska keisarahersins |
Flokkur | Þýski þjóðfrelsisflokkurinn Þjóðernissósíalíska Frelsishreyfingin Nasistaflokkurinn |
Maki | Margarethe Schmidt Mathilde von Kemnitz |
Undirskrift | |
Eftir að stríðinu lauk gerðist hann virkur í þýskum stjórnmálum á millistríðsárunum og varð einn helsti forystumaður öfgahægristefnu í Þýskalandi á tímum Weimar-lýðveldisins. Hann var einn af forsprökkum „rýtingsstungu-kenningarinnar“ svokölluðu, ósannri kreddu og samsæriskenningu, um að Þjóðverjar hefðu ekki tapað stríðinu heldur verið sviknir heima fyrir af marxistum, sósíaldemókrötum og gyðingum. Adolf Hitler og Nasistaflokkurinn tóku seinna upp þennan málstað og urðu helstu talsmenn hans. Árið 1923 tók Ludendorff ásamt Hitler þátt í misheppnaðri valdaránstilraun í München, sem nefnd hefur verið Bjórkjallarauppreisnin. Á meðan Hitler var handtekinn og dæmdur í fangelsi fyrir uppátækið, var Ludendorff náðaður með sæmd. Eftir að Hitler var látinn laus úr haldi tók hann við af Ludendorff sem helsti leiðtogi öfgahægrimanna í Þýskalandi. Ludendorff bauð sig fram til forseta gegn fyrrverandi kollega sínum Paul von Hindenburg, í forsetakosningunum 1925, en þurfti að lúta í lægra haldi með aðeins 1,1% atkvæða. Eftir það fór lítið fyrir honum í þýskum stjórnmálum fram til dauðadags árið 1937.
Heimildir
breyta- Kershaw, Ian (1999). Hitler 1889-1936: Hubris. London: Penguin Books.
- Rees, Laurence (2005). The Nazis: A Warning From History. London: BBC Books. bls. 46.
- Stevenson, David (2005). 1914-1918: The History of the First World War. London: Penguin Books.