Byggðasaga eða byggðarsaga er sagnfræðirit (eða fræðastarfsemi), sem fjallar um sögu byggðaþróunar á ákveðnu svæði, svo sem í sveitarfélagi eða sýslu.

Héraðssaga er náskylt hugtak, en hefur víðari merkingu og fjallar almennt um sögu ákveðins svæðis. Saga Kaupfélags Skagfirðinga getur verið hluti af héraðssögu, en er tæplega byggðasaga. Oft geta skilin þarna á milli verið óljós og rit verið blönduð að efni, þar sem til dæmis er blandað saman byggðasögu og persónusögu.

Flestar sýslur hér á landi hafa látið semja einhvers konar byggðasögurit, en misjafnt er hvaða tökum menn hafa tekið efnið. Eitt metnaðarfyllsta ritið er Byggðasaga Skagafjarðar, sem enn er í vinnslu. Þar er saga hverrar jarðar rakin eins langt aftur og heimildir greina. Í sumum öðrum ritum er tekin önnur stefna, þar sem fyrst og fremst er fjallað um nútímann; ein síða er um hverja jörð, með myndum af húsum og ábúendum. Stundum eru slík rit gefin út á um það bil 20 ára fresti, þannig að hægt er að fylgjast með breytingum sem verða (sjá til dæmis Suður-Þingeyjarsýslu). Oftast eru yfirlitskaflar í slíkum ritum, svo sem um sögu búnaðarsamtaka.

Fjöldi rita hefur komið út um íslenska byggðasögu, bæði um einstök svæði og um einstaka þætti byggðasögunnar, svo sem um eyðibýli, seljabúskap og fleira.

Ólafur Lárusson prófessor var frumkvöðull í byggðasögurannsóknum á Íslandi, sjá til dæmis ritgerðasafn hans: Byggð og saga (Reykjavík, 1944).

Nokkur byggðasögurit

breyta
  • Hjalti Pálsson: Byggðasaga Skagafjarðar 1–5, Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkróki 1999–2010. — Verður alls 9 bindi.
  • Sigurjón Sigtryggsson: Frá Hvanndölum til Úlfsdala. Þættir úr sögu Hvanneyrarhrepps 1–3, Sögusteinn, Reykjavík 1986.
  • Byggðir Eyjafjarðar 1990 (2. útg.) 1–2, Búnaðarsamband Eyjafjarðar, Akureyri 1993. — Eldra rit með sama nafni kom út 1973.
  • Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 2005 (3. útg.), Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga, Húsavík 2006. — Eldri útgáfur: 1963 og 1986.
  • Land og fólk. Byggðasaga Norður-Þingeyinga, Búnaðarsamband Norður-Þingeyinga, 1985.
  • Ármann Halldórsson: Sveitir og jarðir í Múlaþingi 1–5, Búnaðarsamband Austurlands, Egilsstöðum 1974–1995.
  • Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu 1–3, Reykjavík 1971–1976.
  • Sunnlenskar byggðir 1–6, Búnaðarsamband Suðurlands, Selfossi 1980–1987. — Fjallar um Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.
  • Guðni Jónsson: Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, Stokkseyringafélagið, Reykjavík 1952.
  • Byggðir Borgarfjarðar 1–4, Búnaðarsamband Borgarfjarðar 1989–1998. — Fjallar um Borgarfjarðar- og Mýrasýslu.
  • Byggðir Snæfellsness, Búnaðarsamband Snæfellinga, Stykkishólmi 1977. Önnur prentun 1989.
  • Kristján Jónsson frá Garðsstöðum: Barðstrendingabók, Reykjavík 1942.
  • Kjartan Ólafsson: Firðir og fólk 900–1900. Vestur-Ísafjarðarsýsla, Búnaðarsamband Vestfjarða 1999. — Vestfjarðarit 1. Kom einnig sem Árbók Ferðafélags Íslands 1999.
  • Gunnar M. Magnúss: Súgfirðingabók. Byggðasaga og mannlíf, Rvík 1977.
  • Guðrún Ása Grímsdóttir: Grunnvíkingabók. Mannlíf í Grunnavíkurhreppi. Þættir úr byggðarsögu / Grunnvíkingatal 1–2, Grunnvíkingafélagið á Ísafirði, Reykjavík 1989. — Önnur útgáfa, leiðrétt, 1992.
  • Þórleifur Bjarnason: Hornstrendingabók 1–3, Örn og Örlygur, Reykjavík 1976. — Fyrsta útgáfa 1943.
  • Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason: Sléttuhreppur, fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur, Átthagafélag Sléttuhrepps, Rvík 1977.
  • Húnaþing 1–3, Búnaðarsamband Austur-Húnvetninga, 1975–1989. — Fjallar bæði um Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu.