Héraðssaga er sagnfræðirit (eða fræðastarfsemi), sem takmarkar sig við ákveðið svæði, svo sem sýslu, byggðarlag eða kaupstað. Sjónarhorninu getur verið beint að héraðinu í heild eða hluta þess, allt niður í einstakar bújarðir. Æviskrárritun er oft mikilvægur þáttur í héraðssögu og tengist hún þannig ættfræði.

Byggðasaga (eða byggðarsaga) er náskylt hugtak, en hefur þrengri merkingu og fjallar fyrst og fremst um sögu byggðaþróunar. Saga Kaupfélags Skagfirðinga getur verið hluti af héraðssögu, en er tæplega byggðarsaga.

Héraðssaga stendur á gömlum rótum hér á landi. Segja má að margar Íslendingasögur geti talist héraðssögur. Á 19. öld varð vakning í slíkri söguritun, t.d. tók Gísli Konráðsson saman nokkur slík rit, t.d. Strandamanna sögu, Húnvetninga sögu, Sögu Skagstrendinga og Skagamanna o.fl.

Elsta héraðssögufélag landsins sem enn starfar, er Sögufélag Skagfirðinga, stofnað 1937, og er það enn með öfluga starfsemi. Nú eru starfandi slík sögufélög í mörgum landshlutum, en annars staðar hefur slíkri fræðastarfsemi verið haldið uppi af öðrum aðilum, svo sem átthagafélögum, ungmennafélögum, sýslunefndum (síðar héraðsnefndum), sveitarfélögum eða menningarmiðstöðvum. Einnig eru dæmi um að einstaklingar standi fyrir slíku, t.d. gáfu þeir Þórður Tómasson í Skógum og Jón R. Hjálmarsson út tímaritið Goðastein (eldri) með efni úr Rangárþingi.

Í flestum héruðum og bæjum hér á landi eru byggðasöfn og héraðsskjalasöfn sem einbeita sér að sögu viðkomandi héraðs og minjum og skjölum sem tengjast henni.

Á síðari árum hefur víða verið komið upp menningartengdri eða sögutengdri ferðaþjónustu, til að miðla slíku efni til ferðamanna og gera svæðið áhugaverðara í augum þeirra.

Landshlutabundin sögufélög breyta

Tímarit um héraðssögu breyta

Heimildir breyta

  • Rit viðkomandi félaga.