Bonne af Lúxemborg

Bonne af Lúxemborg (20. maí 131511. september 1349) eða Bonne af Bæheimi, upphaflega Jutta eða Júdit, var hertogaynja af Normandí og fyrri kona Jóhanns 2. Frakkakonungs. Hún varð þó aldrei drottning Frakklands þar sem hún lést áður en maður hennar varð konungur.

Jutta var fædd í Prag og var næstelsta dóttir Jóhanns blinda af Lúxemborg, konungs Bæheims, og fyrri konu hans Elísabetar af Bæheimi. Föðurafi hennar var Hinrik 7. keisari. Yngri bróðir hennar var Karl 4., sem krýndur var keisari hins Heilaga rómverska ríkis sex árum eftir lát hennar. Hún var upphaflega trúlofuð Kasimír 3., konungi Póllands, en ekki varð af þeim ráðahag og 28. júlí 1332 giftist hún Jóhanni, krónprinsi Frakklands. Hún var þá 17 ára en hann 13. Faðir hans gerði hann skömmu síðar að hertoga af Normandí og varð Jutta þá hertogaynja og nefndist Bonne eftir að hún kom til Frakklands.

Ein ástæða þess að Filippus 6. Frakkakonungur valdi Bonne sem konu sonar síns fremur en einhverja barnunga prinsessu var að hann vildi að hún gæti farið að ala erfingja sem fyrst og það gekk eftir, Bonne ól fjóra syni á fjórum árum og tryggði þar með ríkiserfðirnar. Synirnir komust allir upp og voru það þeir Karl 5. Frakkakonungur, Loðvík 1. hertogi af Anjou, Jóhann hertogi af Berry og Filippus 2. hertogi af Búrgund. Þrjár dætur þeirra komust líka upp og voru það Jóhanna kona Karls 2. Navarrakonungs, María kona Róberts hertoga af Bar og Ísabella, kona Gians Galeazzo 1., hertoga af Mílanó.

Bonne dó í Svarta dauða, 11. september 1349, í Maubisson í Frakklandi, og er grafin í klaustrinu þar. Jóhann maður hennar giftist seinni konu sinni fáeinum mánuðum síðar.

Heimild breyta