Eli Filip Heckscher (24. nóvember 1879 – 23. desember 1952) var sænskur hagfræðingur og sagnfræðingur. Heckscher er þekktastur fyrir Heckscer-Ohlin módelið, sem hann þróaði ásamt hagfræðingnum og stjórnmálamanninum Bertil Ohlin, og snýr sú kenning að viðskiptum á milli landa.

Ævi og störf

breyta

Hann fæddist í Stokkhólmi og ólst þar upp ásamt föður sínum, Isidor Heckscher og móður, Rosu Meyer. Heckscher iðkaði háskólanám við háskólann í Uppsölum frá 1897 og einnig í Gautaborgarháskóla árið 1898. Heckscer lauk doktorprófi í Uppsölum árið 1907 og gerðist stuttu seinna prófsessor í stjórnmálahagfræði og tölfræði við Hagfræðiháskólann í Stokkhólmi frá 1909 til 1919[1].  Árið 1929 stofnaði Heckscher stofnun fyrir Hagfræði- og Viðskiptarannsóknir (Institute for Economic and Business History Research) sem var lykilskref til að skapa vettvang fyrir hagsögu í Svíþjóð og gera það að stefnumiðum vísindum.  Til að stækka stofnunina enn frekar réð hann tvo aðra fræðimenn, sagnfræðinginn Bertil Boëthius (1885–1974) og hagfræðinginn Arthur Montgomery. Með þessari stækkun varð Stokkhólmsskólinn til og náði miklum árangri í afskiptum við áætlanagerð ríkisins.[2]

Heckscher var mjög afkastamikill. Árið 1950 hafði hann gefið út 1148 bækur og greinar.  Meðal þekktustu rita hans var rit hans um Merkantilisma (sænska: Merkantilismen), sem kom út 1931.[3] Þekktasta framlag hans til hagfræðinnar birist árið 1919, greinin „Áhrif utanríkisviðskipta á tekjudreifingu“. Í henni sýndi Heckscher fram á hlutfallslegir yfirburðir landa í utanríkisviðskiptum réðust af ólíkri samsetningu framleiðsluþátta. Kenning Heckschers var þróuð áfram af Bertil Ohlin, og er þekkt sem Heckscer-Ohlin líkanið.

Heckscher-Ohlin líkanið

breyta

Heckscher-Ohlin líkanið í hagfræði er kenning um hlutfallslega yfirburði í alþjóðaviðskiptum.  Líkanið er notað til að meta viðskipti milli tveggja landa sem hafa mismunandi sérstöðu og náttúruauðlindir. í Heckscher-Ohlin þá eru tveir framleiðsluþættir, vinnuafl og fjármagn, framleiðsluþættir geta flust á milli geira og framleiðslutækni er sú sama alls staðar. Í Heckser-Ohlin þá útskýrir hlutfallslegur aðgangur að framleiðsluþáttum hlutfallslega yfirburði. Í þessu líkani ákvarðast alþjóðaviðskipti af hlutfallslegri gnægð framleiðsluþátta á milli landa.[4]

Líkanið leggur áherslu á útflutning á vörum sem krefjast framleiðsluþátta sem land hefur í gnægð. Einnig er lögð áhersla á innflutning á vörum sem þjóð getur ekki framleitt á eins hagkvæman hátt. Kenningin tekur þá afstöðu að lönd ættu helst að flytja út efni og auðlindir sem þau hafa umframmagn af, en flytja hlutfallslega inn þær auðlindir sem þau þurfa. Þær forsendur sem þurfa að standa fyrir til að hægt sé að nota líkanið er að framleiðsluþættir séu ekki fáanlegir í sömu hlutföllum fyrir bæði löndin, vinnuafl og fjármagn mega ekki færast á milli landanna, að það sé enginn flutningskostnaður fyrir vörurnar og að tæknin sé sú sama á milli landanna.[5]

Heckscher-Ohlin líkanið hentar vel til þess að lýsa viðskiptum milli þróunarlanda og þróaðra landa. Líkanið telst vera framlenging af kenningu David Ricardo um hlutfallslega yfirburði landa. Helsti munurinn á milli kenninganna felst í framleiðsluþáttum og tæknimismunum. Ricardo hefur einn framleiðsluþátt í stað tveggja eins og í Heckscher-Ohlin líkaninu og í Ricardo líkaninu er mismunandi tæknistig á milli landa en í Heckscer-Ohlin er tæknistiginu haldið föstu.

Tilvísanir

breyta
  1. „Eli Heckscher“.
  2. „Eli Heckscher“.
  3. The Editors of Encyclopaedia Britannica. „Eli Filip Heckscher“.
  4. „Heckscher-Ohlin theory“.
  5. Carol M. Kopp. „Heckscher-Ohlin Model Definition: Evidence and Real-World Example“.