Bernhard von Bülow

Prússneskur stjórnmálamaður (1849-1929)

Bernhard Heinrich Martin Karl von Bülow (3. maí 1849 – 28. október 1929) var þýskur stjórnmálamaður sem gegndi ýmsum mikilvægum ríkisstjórnarembættum á ferli sínum. Hann var utanríkisráðherra frá 1897 til 1900 og kanslari Þýskalands frá 1900 til 1909.

Bernhard von Bülow
Kanslari Þýskalands
Í embætti
17. október 1900 – 14. júlí 1909
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 2.
ForveriChlodwig zu Hohenlohe-Schillingsfürst
EftirmaðurTheobald von Bethmann-Hollweg
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. maí 1849
Klein Flottbek, Holtsetalandi, þýska ríkjasambandinu
Látinn28. október 1929 (80 ára) Róm, Ítalíu
ÞjóðerniÞýskur
MakiMaria Beccadelli di Bologna
Undirskrift

Bülow kom úr fjölskyldu sem átti sér langa sögu af ríkisþjónustu. Faðir hans var ríkiserindreki og móðir hans var dóttir samningamanns. Bernhard von Bülow óx úr grasi í miðju ýmissa helstu stjórnmálaviðburða síns tíma. Faðir hans var í þjónustu Danmerkur og varð því vitni að rígnum milli danskra og þýskra þjóðernissinna í Holtsetalandi sem leiddi til síðara Slésvíkurstríðsins árið 1864.

Æviágrip

breyta

Bakgrunnur

breyta

Bernhard von Bülow fæddist til Bülow-aðalsættarinnar frá Mecklenburg.[1] Hann var sonur utanríkisráðherrans Bernhards Ernst von Bülow. Afabróðir hans, Heinrich von Bülow, hafði verið sendiherra Prússa í Englandi frá 1827 til 1840.

Kona Bernhards von Bülow var furstaynjan Maria Anna Zoë Rosalia di Camporeale, stjúpdóttir ítalska forsætisráðherrans Marco Minghetti.[1]

Ferill

breyta

Bülow barðist sem sjálfboðaliði í fransk-prússneska stríðinu árið 1870. Eftir stríðið gerðist Bülow ríkiserindreki fyrir nýja þýska keisaraveldið og vann sem ritari þýsku sendiherranna í París, St. Pétursborg og Búkarest. Árið 1893 var hann útnefndur sendiherra Þýskalands í Róm.

Árið 1897 var Bülow útnefndur utanríkisráðherra Þýskalands.[2] Sem utanríkisráðherra einbeitti hann sér að nýlendumálum Þýskalands og gekk meðal annars frá innlimun Karólínueyja í þýska nýlenduveldið. Fyrir þetta fékk hann greifanafnbót.

Vilhjálmur 2. Þýskalandskeisari útnefndi Bülow kanslara Þýskalands árið 1900. Bülow gegndi kanslaraembættinu í níu ár, næstlengst allra kanslara þýska keisaraveldisins á eftir Otto von Bismarck. Hann hélt saman stjórnarsamstarfi frjálslyndra og íhaldsmanna með viðleitni sinni til að miðla málum og feta milliveginn. Sem kanslari rak hann virka utanríkisstefnu og bætti við í þýska nýlenduveldið. Hann stóð meðal annars fyrir því að Þýskaland eignaðist nýlendu í Jiaozhou-flóa í Kína.

Árið 1905 hlaut Bülow furstanafnbót fyrir afrek sín í þýskri utanríkispólitík.

Sumarið 1909 mistókst ríkisstjórn Bülows að koma fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þýska ríkisþingið. Bülow neyddist í kjölfarið til að segja af sér sem kanslari þann 14. júlí 1909.[3][4]

Árin 1914–1915 var Bülow aftur sendiherra Þjóðverja í Róm. Honum var falið að telja Ítali á að ganga til liðs við Miðveldin. Honum mistókst þetta og í apríl árið 1915 gekk Ítalía inn í fyrri heimsstyrjöldina í liði með bandamönnum. Bülow hélt því síðar fram að honum hefði verið falið vonlaust verkefni.

Þegar Theobald von Bethmann-Hollweg, eftirmaður Bülows sem kanslari, neyddist til að segja af sér í júlí árið 1917 vonuðust margir til að Bülow myndi gerast kanslari á ný. Vilhjálmur keisari valdi þess í stað Georg Michaelis til að taka við embættinu.

Bülow gaf út endurminningar sínar eftir að stríðinu lauk. Endurminningarnar þykja vel skrifaðar en deilt er um sagnfræðilegt gildi þeirra. Bülow lést þann 28. október 1929, daginn áður en kreppan mikla hófst.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Heinrich Otto Meisner (1955). „von Bülow“. Neue Deutsche Biographie.
  2. „Bülow, Bernhard Fürst von“. Das Bundesarchiv: Akten der Reichskanzlei. Weimarer Republik.
  3. Dorlis Blume/Andreas Michaelis (2015). „Chronik 1909“. Deutsches Historisches Museum, Berlin.
  4. „Kanslaraskiptin á Þýskalandi, v. Bülow – v. Bethmann-Hollweg“. Ísafold. 28. júlí 1909. Sótt 6. júní 2018.


Fyrirrennari:
Chlodwig zu Hohenlohe-Schillingsfürst
Kanslari Þýskalands
(17. október 190014. júlí 1909)
Eftirmaður:
Theobald von Bethmann-Hollweg