Auður djúpúðga Ketilsdóttir
Auður djúpúðga Ketilsdóttir (stundum einnig nefnd Unnur (Laxdæla) eða Uður) var landnámskona í Dölum og ættmóðir Laxdæla. Samkvæmt Eyrbyggju nam hún „öll Dalalönd í Breiðafirði, í milli Skraumuhlaupsár og Dögurðarár, og bjó í Hvammi“. Ekki má rugla Auði djúpúðgu Ketilsdóttur við Auði djúpúðgu Ívarsdóttur.
Auður var dóttir Ketils flatnefs sem var hersir í Noregi en hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar. Móðir Auðar var Yngveldur, dóttir Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Bræður hennar voru þeir Björn austræni og Helgi bjóla og systur hennar Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka. Eiginmaður hennar hét Óleifur (Ólafur) hvíti, eða eins og segir í upphafi Eiríks sögu rauða:
Óleifur hét herkonungur er kallaður var Óleifur hvíti. Hann var son Ingjalds konungs Helgasonar, Ólafssonar, Guðröðarsonar, Hálfdanarsonar hvítbeins Upplendingakonungs. Óleifur herjaði í vesturvíking og vann Dyflinni á Írlandi og Dyflinnarskíri og gerðist konungur yfir. | ||
— Upphaf Eiríks sögu rauða
|
Þorsteinn rauður var eini sonur Ólafs og Auðar. Hann var í Suðureyjum með móður sinni eftir að faðir hans féll og giftist þar Þuríði dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga magra. Hann herjaði á Skotland og varð vel ágengt, svo vel að hann gerðist konungur Skota, en þeir gerðu uppreisn gegn honum og felldu hann á Katanesi. Faðir Auðar var þá látinn og bjóst hún ekki við að fá neina uppreisn eða bætur fyrir son sinn. Nánustu ættmenn Auðar voru þá flestir fyrir vestan haf en um 886 fór Björn bróðir hennar til Íslands, litlu síðar Helgi bróðir hennar og svo Þórunn hyrna systir hennar og Helgi magri mágur hennar.
Auður lét að sögn Laxdælu gera knörr á laun úti í skógi en þegar skipið var fullbúið hélt hún af stað til Íslands með fríðu föruneyti, tengdadóttur sinni og börnum hennar, öðru frændliði og fólki; í Landnámu segir að á skipi hennar hafi verið tuttugu frjálsbornir karlmenn. „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna,“ segir í Laxdælu.
Mestur virðingarmaður af fylgdarmönnum Auðar var Kollur, sem seinna nefndist Dala-Kollur. Þau sigldu fyrst til Orkneyja og stóðu þar við einhvern tíma. Þar segir Laxdæla að Auður hafi gift Gró sonardóttur sína, dóttur Þorsteins, og var dóttir hennar Grélöð, kona Þorfinns jarls Torf-Einarssonar Rögnvaldssonar Mærajarls, og voru Orkneyjajarlar frá þeim komnir. Síðan hélt Auður til Færeyja og staðnæmdist þar einnig um tíma. Þar gifti hún Ólöfu dóttur Þorsteins og frá henni komu Götuskeggjar, ein ágætasta ætt í Færeyjum.
Þegar til Íslands kom braut Auður skip sitt á Víkarsskeiði við Ölfusá, en fólk bjargaðist. Hún hélt þá til Helga bróður síns á Kjalarnesi og hann bauð henni að vera um veturinn með helming liðs síns en það þótti henni ekki nógu stórmannlega boðið. Hún hélt þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns og hann bauð henni að vera með allt sitt lið. Það þáði hún en um vorið hélt hún inn í botn fjarðarins og nam Dalalönd öll kringum Hvammsfjörð, frá Skraumudalsá að sunnan til Dögurðarár að norðan og valdi sér bústað í Hvammi. Hún gaf nokkrum skipverjum sínum, frjálsbornum og leysingjum, lönd í landnámi sínu.
Þegar Auður var orðin ellimóð hélt hún mikla veislu í Hvammi og gifti um leið Ólaf feilan, sonarson sinn, Álfdísi barreysku. Þar gaf hún Ólafi bústað sinn og eignir og öðrum vinum sínum góðar gjafir og réð þeim heilræði og sagði að veislan skyldi standa í þrjá daga og vera erfidrykkja sín. Hún dó svo og var grafin í flæðarmáli eins og hún hafði sjálf mælt fyrir, því að hún var skírð og vildi ekki liggja í óvígðri mold, en engin kirkja var á landinu og sjálfsagt enginn prestur. Eftir dauða hennar spilltist trú ættmenna hennar og þeir urðu heiðnir.
Skáldsagan Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur rithöfund, sem kom út haustið 2009, segir frá unglingsárum Auðar djúpúðgu.