Dala-Kollur Veðra-Grímsson

Dala-Kollur Veðra-Grímsson eða Kollur Grímsson var landnámsmaður í Dalasýslu. Hann kom með Auði djúpúðgu til landsins, fékk land hjá henni og giftist sonardóttur hennar.

Í Sturlubók Landnámu segir að Kollur hafi verið sonur Veðrar-Gríms og Laxdæla kallar hann hersi. Auður hafði að sögn tuttugu frjálsborna menn á skipi sínu og var Kollur þeirra virðingarmestur og hafði forráð með henni.

Sama vorið og Auður reisti bæ í Hvammi gifti hún Kolli Þorgerði Þorsteinsdóttur rauðs, sonardóttur sína, og hélt brúðkaupsveislu þeirra. Lét hún þau fá miðhlutann úr landnámi sínu, allan Laxárdal og allt til Haukadalsár og telst hann því landnám Kolls, sem eftir það nefndist Dala-Kollur. Bær þeirra var fyrir sunnan Laxá og nefndist seinna Höskuldsstaðir.

Börn þeirra Dala-Kolls og Þorgerðar voru þau Höskuldur, Gróa kona Véleifs gamla og móðir Hólmgöngu-Bersa, og Þorkatla, kona Þorgeirs Ljósvetningagoða. Kollur dó þegar börn hans voru stálpuð en Þorgerður festi þá ekki lengur yndi á Íslandi, að því er segir í Laxdælu, heldur fluttist til Noregs og gekk þar að eiga Herjólf Eyvindarson. Áttu þau son sem hét Hrútur. Þorgerður flutti aftur til Íslands eftir lát Herjólf og dó hjá Höskuldi syni sínum. Hrútur Herjólfsson flutti seinna til Íslands og bjó á Hrútsstöðum (Rútsstöðum).

Tenglar breyta

  • „Landnámabók. Af snerpa.is“.
  • „Laxdæla saga. Af snerpa.is“.