Ari Jónsson lögmaður
Ari Jónsson (um 1508 – 7. nóvember 1550) var lögmaður á 16. öld og bjó á Möðrufelli í Eyjafirði. Hann var sonur Jóns Arasonar biskups og Helgu Sigurðardóttur fylgikonu hans og var hálshöggvinn ásamt föður sínum og bróður.
Sagt er að Ari hafi verið fyrir bræðrum sínum að skörungsskap, greindur og vel lærður, örlátur og vinsæll en harður í horn að taka, stórlyndur og skapmikill. Faðir hans hafði mætur á honum og sagt er að öllum óvildarmönnum hans hafi líkað vel við hann en illa við Björn bróður hans. Ari er fyrst nefndur við dómarastörf 1528 og hefur þá líklega verið orðinn tvítugur en samkvæmt ákvæðum Jónsbókar þurftu menn að hafa náð þeim aldri til að mega sitja í dómi.
Ári síðar var hann kjörinn lögmaður að undirlagi föður síns en þó ekki mótstöðulaust, vegna þess hve ungur hann var, og skrifuðu Ögmundur biskup, Diðrik hirðstjóri, Erlendur lögmaður og fleiri konungi og báðu hann að samþykkja Þorleif Pálsson í embættið, því Ari væri of ungur. Ekkert mark var tekið á þeim bréfum og Ari gegndi lögmannsstörfum næstu tvo áratugi og studdi föður sinn með ráðum og dáð. Þó er sagt að hann hafi latt föður sinn til stórræða en Björn hafi aftur á móti hvatt hann.
Vorið 1541, þegar Ari og Jón voru á leið á Alþingi, fréttu þeir af komu Kristófers Hvítfelds og handtöku Ögmundar biskups. Sneru þeir þá við og komu ekki til þings og Ari skrifaði þinginu opið bréf og sagði af sér embættinu, en Þorleifur Pálsson tók við. Nokkrum árum síðar reyndu þeir feðgar að ná lögmannsembættinu aftur fyrir Ara en tókst það ekki.
Haustið 1549, eftir að Gissur Einarsson biskup var látinn og Marteinn Einarsson tekinn við, ákvað Jón biskup að láta til skarar skríða gegn andstæðingum sínum og sendi þá Ara og Björn suður. Handtóku þeir Martein og annan mann til og færðu þá norður. Ari hafði Martein biskup hjá sér á Möðrufelli í góðu yfirlæti.
Vorið eftir riðu biskup og synir hans til Alþingis með fjölmennt lið og létu dólgslega við Dani sem þar voru, meðal annars sló Ari hirðstjórann, Lauritz Mule, í andlitið með fullum poka af silfurpeningum. Þeir fóru svo í Skálholt og einnig í Viðeyjar- og Helgafellsklaustur og endurreistu þau. Um haustið riðu þeir svo vestur í Dali og ætluðu að ráða niðurlögum Daða í Snóksdal. Þeir komu að Sauðafelli þar sem Daði átti bú og biðu þar um tíma en á meðan safnaði Daði liði og tókst að króa feðgana af í kirkjugarðinum á Sauðafelli og handtaka þá. Þeir voru svo fluttir í Skálholt og höggnir þar 7. nóvember.
Kona Ara var Halldóra Þorleifsdóttir, sem var dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði og konu hans Sigríðar Sturludóttur. Dætur þeirra voru Helga, kona Staðarhóls-Páls Jónssonar, sýslumanns á Staðarhóli og Reykhólum, og Þóra, kona Sigurðar Þorbergssonar lögréttumanns á Möðruvöllum. Fylgikona Ara um tíma var Þórunn ríka Jónsdóttir og áttu þau eina dóttur sem dó ung.
Ari var sagður listfengur og þess hefur verið getið til að hann hafi jafnvel sjálfur smíðað Grundarstólinn sem kenndur er við hann.
Tengill
breytaHeimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Hrafn Brandsson (yngri) |
|
Eftirmaður: Þorleifur Pálsson |