Anna Vigfúsdóttir á Stóru-Borg

Anna Vigfúsdóttir (d. um 1571), þekktust sem Anna á Stóru-Borg eða Anna frá Stóruborg, var íslensk hefðarkona á 16. öld. Hún er kunn fyrir ástamál sín og samband við Hjalta Magnússon. Um þau skrifaði Jón Trausti þekkta skáldsögu.

Ættir breyta

Anna var af einhverjum mestu höfðingjaættum Íslands. Faðir hennar var Vigfús Erlendsson lögmaður og hirðstjóri á Hlíðarenda í Fljótshlíð en Loftur ríki Guttormsson var langafi hans. Móðir hennar var Guðrún, laundóttir Páls Jónssonar sýslumanns á Skarði og því náskyld Birni Guðnasyni í Ögri og fleiri höfðingjum.

Bróðir Önnu var Páll Vigfússon lögmaður. Guðríður systir hennar giftist Sæmundi ríka Eiríkssyni á Ási í Holtum, einum ríkasta höfðingja Sunnlendinga, og Kristín varð fylgikona séra Magnúsar á Grenjaðarstað, sonar Jóns biskups Arasonar.

Kynni Önnu og Hjalta breyta

Anna, sem sögð er hafa verið stórlát og mikil fyrir sér, reisti aftur á móti bú á Stóru-Borg (Stóruborg) undir Eyjafjöllum, sem hún hafði erft ásamt fleiri eignum eftir föður sinn þegar hann lést 1521, og bjó þar ein stórbúi. Sagt er að margir auðmenn hafi beðið hennar en hún hryggbrotið þá alla.

Hjalti Magnússon var af fátæku fólki kominn og er sagt að hann hafi verið smalapiltur á Stóru-Borg. Samkvæmt sögnum kom hann einu sinni kaldur og blautur heim með féð þegar vinnumenn voru að slætti en þeir mönuðu hann þá til að sýna karlmennsku og fara þannig á sig kominn upp í rúm húsfreyjunnar og hétu honum verðlaunum ef hann gerði það. Hann hélt þá heim og sagði Önnu frá öllu saman en hún bauð honum upp í til sín og lét svo kalla á vinnumennina til að sýna þeim og heimtaði að þeir greiddu Hjalta launin. En Hjalti gisti rekkju hennar þaðan í frá og varð Anna fljótlega barnshafandi og eignaðist fjölda barna með Hjalta, enda var hann auknefndur Barna-Hjalti.

Í skáldsögu sinni lætur Jón Trausti Hjalta vera fimmtán ára ungling en Önnu um þrítugt þegar samband þeirra hefst en ekkert í heimildum bendir til þess að aldursmunur þeirra hafi verið mikill.

Stríðið við Pál lögmann breyta

Páll lögmaður, bróðir Önnu, var siðavandur maður og reyndi mikið að vanda um fyrir systur sinni og stía þeim Hjalta í sundur og þegar það tókst ekki reyndi hann að handtaka Hjalta til að taka hann af lífi. Hjalti er sagður hafa verið hraustleikamaður og vel íþróttum búinn, enda veitti ekki af til að sleppa undan krumlu sjálfs lögmannsins. Anna faldi hann fyrst í Skiphellum skammt frá Stóru-Borg og fór hann þangað hvenær sem hætta var talin á komu lögmanns en einu sinni kom Páll óvænt og er þá sagt að Anna hafi falið Hjalta í fatakistu sinni.

Að lokum þótti Önnu Skiphellar ekki duga sem felustaður og fékk hún með aðstoð sveitunga sinna bóndann í Fit undir Eyjafjöllum til að fela Hjalta í Fitjarhelli, sem nú heitir Paradísarhellir, og er sagt að hann hafi dvalið þar árum saman en hefur þó án efa oft verið á Stóru-Borg hjá Önnu og börnum þeirra, þegar óhætt þótti.

Sættir breyta

Hjalti var fræknleikamaður og sagt er að hann hafi einu sinni bjargað Páli lögmanni þegar hann féll af hesti sínum í Markarfljót í vexti en hlaupið síðan burtu eins og fætur toguðu, áður en lögmaður áttaði sig á hver þar var á ferð. Eftir það er sagt að hugur Páls hafi mildast og einnig er sagt að Anna hafi sent stálpaða syni sína til Páls til að biðja hann að taka þau Hjalta í sátt. Svo mikið er víst að á endanum fór svo að hann sá til þess að þau gátu gengið í hjónaband gegn því að greiða sektir fyrir barneignir sínar, en þau áttu þá átta börn. Ekki er víst hvenær þetta var en það hefur örugglega verið nokkru fyrir lögleiðingu Stóradóms 1568. Anna og Hjalti bjuggu síðar í Teigi í Fljótshlíð; þau voru bæði enn á lífi 1570 en Anna var dáin fyrir 1572.

Páll lögmaður dó barnlaus árið 1569 og börn tveggja systra hans, Guðríðar og Önnu, erfðu eignir hans. Árni Gíslason sýslumaður á Hlíðarenda var giftur einkadóttur Guðríðar og véfengdi hann arfsrétt barna Hjalta og Önnu en í dómi á Alþingi 1571 kemur fram að þar sem Páll hafði viðurkennt hjónaband þeirra og sektir þeirra höfðu verið greiddar að fullu skyldu börnin vera arfgeng samkvæmt eldri lögum, sem þau hefðu ekki verið samkvæmt Stóradómi.

Miklar ættir eru komnar frá börnum Önnu og Hjalta en þekktastur þeirra var Magnús Hjaltason, lögréttumaður í Teigi, sem oft er getið í dómum og heimildum frá síðasta fjórðungi 16. aldar og fram til 1609.

Skáldsaga Jóns Trausta breyta

Árið 1914 sendi rithöfundurinn Jón Trausti frá sér skáldsöguna Anna frá Stóruborg, sem byggð er á heimildum og sögnum um ævi Önnu og Hjalta, ástir þeirra og átök við Pál lögmann.

Heimildir breyta

  • „Ást og útlegð í Paradísarhelli. Fálkinn, 21. tölublað 1962“.
  • „„Hér gengur enginn aftur". Þjóðviljinn, 24. júlí 1985“.