Björn Guðnason
Björn Guðnason (f. um 1470, d. 1518) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 15. og 16. öld. Hann bjó í Ögri við Ísafjarðardjúp, var valdamesti maður á Vestfjörðum um sína daga og átti í miklum deilum við Skálholtsbiskup.
Foreldrar Björns voru Guðni Jónsson (um 1430-1507), sýslumaður og lögréttumaður á Hvammi í Hvammssveit og Kirkjubóli í Langadal, bróðir þeirra Páls Jónssonar lögmanns á Skarði og Orms Jónssonar í Klofa og síðar á Skarði, og kona hans Þóra Björnsdóttir, laundóttir Björns Þorleifssonar ríka. Á meðal systkina Björns var Helga, kona Torfa Jónssonar í Klofa á Landi, bandamanns Bjarnar í deilum við Skálholtsbiskup.
Bjðrn var sagður héraðsríkur stórbokki, óvæginn og harður í horn að taka (Jón Espólín kallar hann illmenni) og deildi hart um vald yfir kirkjujörðum við Stefán Jónsson biskup í Skálholti. Vorið 1513 beittu þeir Jón Sigmundsson lögmaður, sem hafði átt í hörðum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup, sér fyrir Leiðarhólmssamþykkt, þar sem höfðingjar skuldbundu sig til að þola ekki biskupum ójöfnuð en hlíta þó kirkjulögum. Björn mun hafa samið það skjal. Sagt er að Stefán hafi sumarið 1517 komið í Ögur með 300 manna lið en Björn hafi haft að minnsta kosti jafnmarga menn hjá sér. Þó kom ekki til átaka og þeir sættust að sinni en dóu báðir á næsta ári.
Kona hans var Ragnhildur Bjarnadóttir frá Ketilsstöðum á Völlum, dóttir Hákarla-Bjarna Marteinssonar og konu hans Ragnhildar, dóttur Þorvarðar Loftssonar ríka. Á meðal barna þeirra var Guðrún eldri, sem fyrst giftist Bjarna Andréssyni bónda á Brjánslæk og síðar Hannesi Eggertssyni hirðstjóra.