Páll Vigfússon (lögmaður)

Páll Vigfússon (d. 1570) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 16. öld. Hann er ein aðalpersónan í Önnu á Stóru-Borg, sögulegri skáldsögu Jóns Trausta rithöfundar, en Anna var systir Páls.

Páll var sonur Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra og lögmanns og Guðrúnar Pálsdóttur konu hans. Hann var á æskuárum sveinn Ögmundar Pálssonar biskups. Síðan varð hann sýslumaður í Rangárþingi og svo lögmaður sunnan og austan frá 1556, þegar Eggert Hannesson færði sig um set eftir fráfall Odds Gottskálkssonar og varð lögmaður norðan og vestan. Hann bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð.

Upp úr 1560 lagði prestur nokkur fram kæru til Páls Stígssonar höfuðsmanns um að Páll lögmaður hefði, þegar hann var sveinn Ögmundar biskups, riðið á spjótskaft annars biskupssveins, Eyjólfs Kollgrímssonar, sem hefði hlotið bana af. Höfuðsmaður dæmdi Páli tylftareið og sór hann að hann hefði ekki átt neinn þátt í dauða Eyjólfs. Presturinn sem kærði viðurkenndi þá að það hefði hann gert af hatri við Pál og var hann sjálfur dæmdur á náð konungs fyrir róg og rangar sakargiftir. Þegar kaupmaður í Vestmannaeyjum kærði aftur á móti Pál fyrir að hafa liðkað fyrir verslun Englendinga við landsmenn, var honum stefnt á konungsfund og á endanum dæmdur úr embætti 1569. Hann dó ári síðar.

Kona Páls var Guðný Jónsdóttir prests Gíslasonar í Holti undir Eyjafjöllum. Þau voru barnlaus.


Fyrirrennari:
Eggert Hannesson
Lögmaður sunnan og austan
(15561569)
Eftirmaður:
Þórður Guðmundsson