Andrej Kúrkov
Andrej Júrjevítsj Kúrkov (rússneska: Андре́й Ю́рьевич Курко́в; úkraínska: Андрій Юрійович Курков; Andríj Júríjovytsj Kúrkov; f. 23. apríl 1961) er úkraínskur rithöfundur sem skrifar á rússnesku. Hann hefur gefið út nítján skáldsögur, þar á meðal metsölubókina Dauðann og mörgæsina.
Andrej Kúrkov árið 2024. | |
Fæddur: | 23. apríl 1961 Leníngrad, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
---|---|
Starf/staða: | Rithöfundur |
Þjóðerni: | Úkraínskur |
Þekktasta verk: | Dauðinn og mörgæsin (1996) |
Æviágrip
breytaAndrej Kúrkov er fæddur í Leníngrad (nú Sankti Pétursborg) í Sovétríkjunum en ólst upp í Kænugarði í Úkraínu og stundaði þar nám. Á meðan Kúrkov gegndi herþjónustu í sovéska hernum vann hann sem fangavörður í fangelsi í Odessa. Hann öðlaðist jafnframt reynslu í blaðamennsku og kvikmyndatöku.[1] Kúrkov skrifaði meðal annars greinar af fremstu víglínu frá Króatíu í Júgóslavíustríðunum á tíunda áratugnum.[2]
Kúrkov hóf að skrifa bækur, bæði fyrir börn og fullorðið fólk, og náði nokkurri velgengni. Hrun Sovétríkjanna árið 1991 hafði hins vegar slæm áhrif á bókaútgáfu í fyrrum sovétlýðveldum, sem lagðist víða nánast af vegna hvarfs opinberra sjóða sem studdu við útgáfu og listsköpun. Kúrkov sneri sér því skrifa kvikmyndahandrit til að framfleyta sér.[3] Árið 1997 var hann tilnefndur til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir handrit sitt að kvikmyndinni Vinur hins látna. Sú kvikmynd var fyrsta úkraínska myndin sem náði heimsdreifingu og hún átti þátt í því að auka áhuga á fyrri verkum Kúrkovs.[1]
Skáldsagan Lautarferð á ís eftir Kúrkov sló í gegn árið 1999 og var gefin út víða um Evrópu. Bókin Dauðinn og mörgæsin, sem Kúrkov skrifaði á árunum 1994 til 1996, varð vinsælasta bók hans á Vesturlöndum og sú fyrsta sem var þýdd á ensku. Bókin fjallar um rithöfund að nafni Viktor sem tekur að sér mörgæs sem dýragarðurinn í Kænugarði hefur ekki lengur ráð á að fóðra. Mörgæsirnar eru þar táknrænar fyrir fyrrum aðildarríki Sovétríkjanna sem reynast nánast ófærar um að sjá um sig sjálfar.[1]
Um skeið átti Kúrkov erfitt með að öðlast viðurkenningu sem úkraínskur rithöfundur þar sem hann skrifar verk sín á móðurmáli sínu, rússnesku. Kúrkov segist aðeins hafa verið tekinn í sátt af úkraínskum þjóðernissinnum eftir aldamótin.[3] Að sögn Kúrkovs voru bækur hans fjarlægðar úr mörgum helstu bókaverslunum Rússlands eftir aldamótin vegna gagnrýni hans á Vladímír Pútín, forseta Rússlands.[4]
Kúrkov var búsettur í Kænugarði til ársins 2022 en varð að flýja þaðan til vesturhluta landsins þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar það ár.[2] Kúrkov hefur ferðast milli landa til að upplýsa heimsbyggðina um innrásina, meðal annars með útgáfu bókar sem hann skrifaði á ensku upp úr dagbókarfærslum sínum um innrásina undir titlinum Diary of an Invasion.[5] Kúrkov hætti að skrifa skáldskap eftir upphaf innrásarinnar þar sem hann telur hættulegt að leyfa skáldverkum að taka sig frá raunveruleikanum í stríðsástandinu sem nú er við lýði.[6]
Árið 2022 hlaut Kúrkov Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Hann kom til Íslands í september það ár og tók við verðlaununum frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 Árni Matthíasson (10. september 2005). „Kurkov og dýrin“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 9.
- ↑ 2,0 2,1 Margrét Marteinsdóttir (2. mars 2022). „„Hafið okkur í hjörtum ykkar"“. Stundin. Sótt 20. maí 2023.
- ↑ 3,0 3,1 Árni Matthíasson (5. nóvember 2005). „Móðurmálið grundvöllurinn“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 11.
- ↑ Valur Gunnarsson (20. september 2005). „Skáldsagan er dauð! Lengi lifi skáldsagan!“. Dagblaðið Vísir. bls. 33.
- ↑ Atli Ísleifsson (23. ágúst 2022). „Andrej Kúrkov hlýtur bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness“. Vísir. Sótt 20. maí 2023.
- ↑ Þorvaldur S. Helgason (8. september 2022). „Ég vil að Rússland falli“. Fréttablaðið. bls. 33.
- ↑ „Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness 2022?“. Rithöfundasamband Íslands. 23. ágúst 2022. Sótt 20. maí 2023.