Rithöfundasamband Íslands
Rithöfundasambandið er stéttarfélag rithöfunda á Íslandi sem var upphaflega stofnað árið 1957 sem bandalag tveggja rithöfundafélaga; Rithöfundafélags Íslands og Félags íslenskra rithöfunda. Félag íslenskra rithöfunda var klofningsfélag, stofnað 1945 vegna ágreinings innan Rithöfundafélagsins og félögin tvö skiptust lengi vel eftir pólitískum átakalínum. Við stofnun sambandsins tók það við aðild félaganna að Bandalagi íslenskra listamanna.
Árið 1974 var gamla Rithöfundasambandið lagt niður og nýtt stofnað sem eitt stéttarfélag íslenskra rithöfunda um leið og Rithöfundafélagið var lagt niður. Félag íslenskra rithöfunda var þó ekki lagt niður og hélt áfram einhverri starfsemi þótt það kæmi ekki lengur fram sem stéttarfélag og félagar þess væru einnig félagar í sambandinu. Árið 1982 lá við nýjum klofningi þegar félagar í FÍR lýstu því yfir að þeir teldu fram hjá sér gengið við úthlutanir Launasjóðs rithöfunda.
Sambandið hefur frá 1997 aðsetur í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, í Reykjavík.