Andrej Kúrkov

Úkraínskur rithöfundur

Andrej Júrjevítsj Kúrkov (rússneska: Андре́й Ю́рьевич Курко́в; úkraínska: Андрій Юрійович Курков; Andríj Júríjovytsj Kúrkov; f. 23. apríl 1961) er úkraínskur rithöfundur sem skrifar á rússnesku. Hann hefur gefið út nítján skáldsögur, þar á meðal metsölubókina Dauðann og mörgæsina.

Andrej Kúrkov
Андре́й Курко́в
Андрій Курков
Андре́й Курко́в
Andrej Kúrkov árið 2022.
Fæddur: 23. apríl 1961 (1961-04-23) (63 ára)
Leníngrad, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
Starf/staða:Rithöfundur
Þjóðerni:Úkraínskur
Þekktasta verk:Dauðinn og mörgæsin (1996)

Æviágrip

breyta

Andrej Kúrkov er fæddur í Leníngrad (nú Sankti Pétursborg) í Sovétríkjunum en ólst upp í Kænugarði í Úkraínu og stundaði þar nám. Á meðan Kúrkov gegndi herþjónustu í sovéska hernum vann hann sem fangavörður í fangelsi í Odessa. Hann öðlaðist jafnframt reynslu í blaðamennsku og kvikmyndatöku.[1] Kúrkov skrifaði meðal annars greinar af fremstu víglínu frá Króatíu í Júgóslavíustríðunum á tíunda áratugnum.[2]

Kúrkov hóf að skrifa bækur, bæði fyrir börn og fullorðið fólk, og náði nokkurri velgengni. Hrun Sovétríkjanna árið 1991 hafði hins vegar slæm áhrif á bókaútgáfu í fyrrum sovétlýðveldum, sem lagðist víða nánast af vegna hvarfs opinberra sjóða sem studdu við útgáfu og listsköpun. Kúrkov sneri sér því skrifa kvikmyndahandrit til að framfleyta sér.[3] Árið 1997 var hann tilnefndur til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir handrit sitt að kvikmyndinni Vinur hins látna. Sú kvikmynd var fyrsta úkraínska myndin sem náði heimsdreifingu og hún átti þátt í því að auka áhuga á fyrri verkum Kúrkovs.[1]

Skáldsagan Lautarferð á ís eftir Kúrkov sló í gegn árið 1999 og var gefin út víða um Evrópu. Bókin Dauðinn og mörgæsin, sem Kúrkov skrifaði á árunum 1994 til 1996, varð vinsælasta bók hans á Vesturlöndum og sú fyrsta sem var þýdd á ensku. Bókin fjallar um rithöfund að nafni Viktor sem tekur að sér mörgæs sem dýragarðurinn í Kænugarði hefur ekki lengur ráð á að fóðra. Mörgæsirnar eru þar táknrænar fyrir fyrrum aðildarríki Sovétríkjanna sem reynast nánast ófærar um að sjá um sig sjálfar.[1]

Um skeið átti Kúrkov erfitt með að öðlast viðurkenningu sem úkraínskur rithöfundur þar sem hann skrifar verk sín á móðurmáli sínu, rússnesku. Kúrkov segist aðeins hafa verið tekinn í sátt af úkraínskum þjóðernissinnum eftir aldamótin.[3] Að sögn Kúrkovs voru bækur hans fjarlægðar úr mörgum helstu bókaverslunum Rússlands eftir aldamótin vegna gagnrýni hans á Vladímír Pútín, forseta Rússlands.[4]

Kúrkov var búsettur í Kænugarði til ársins 2022 en varð að flýja þaðan til vesturhluta landsins þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar það ár.[2] Kúrkov hefur ferðast milli landa til að upplýsa heimsbyggðina um innrásina, meðal annars með útgáfu bókar sem hann skrifaði á ensku upp úr dagbókarfærslum sínum um innrásina undir titlinum Diary of an Invasion.[5] Kúrkov hætti að skrifa skáldskap eftir upphaf innrásarinnar þar sem hann telur hættulegt að leyfa skáldverkum að taka sig frá raunveruleikanum í stríðsástandinu sem nú er við lýði.[6]

Árið 2022 hlaut Kúrkov Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Hann kom til Íslands í september það ár og tók við verðlaununum frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Árni Matthíasson (10. september 2005). „Kurkov og dýrin“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 9.
  2. 2,0 2,1 Margrét Marteinsdóttir (2. mars 2022). „„Hafið okkur í hjörtum ykkar". Stundin. Sótt 20. maí 2023.
  3. 3,0 3,1 Árni Matthíasson (5. nóvember 2005). „Móðurmálið grundvöllurinn“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 11.
  4. Valur Gunnarsson (20. september 2005). „Skáldsagan er dauð! Lengi lifi skáldsagan!“. Dagblaðið Vísir. bls. 33.
  5. Atli Ísleifsson (23. ágúst 2022). „Andrej Kúr­kov hlýtur bók­mennta­verð­laun Hall­dórs Lax­ness“. Vísir. Sótt 20. maí 2023.
  6. Þorvaldur S. Helgason (8. september 2022). „Ég vil að Rússland falli“. Fréttablaðið. bls. 33.
  7. „Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness 2022?“. Rithöfundasamband Íslands. 23. ágúst 2022. Sótt 20. maí 2023.