Alaskalúpína (fræðiheiti: Lupinus nootkatensis) er 30 til 90 sentimetra há fjölær jurt af ertublómaætt. Hún ber blá eða fjólublá blóm. Alaskalúpína hefur lengi verið notuð í landgræðslu á Íslandi en er upprunalega frá Alaska. Alaskalúpína er talin ágeng tegund á Íslandi af Náttúrufræðistofnun Íslands.[1]

Alaskalúpína
Alaskalúpínubreiða
Alaskalúpínubreiða
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Undirflokkur: Rosidae
(óraðað) Eurosids I
Ættbálkur: Belgjurtabálkur (Fabales)
Ætt: Ertublómaætt (Fabaceae)
Undirætt: Faboideae
Ættflokkur: Genisteae
Undirættflokkur: Lupininae
Ættkvísl: Úlfabaunir (Lupinus)
Tegund:
L. nootkatensis

Tvínefni
Lupinus nootkatensis
Donn ex. Sims
Lúpína í Öræfasveit.

Lýsing breyta

Blóm lúpínunnar eru einsamhverf og í 20 til 30 sentimetra löngum klösum. Blómleggir eru 1 cm á lengd, eilítið loðnir. Krónan er 5-deild og óregluleg. Fánablaðið er með aftursveigðar hliðar sem eru rauðar að framan. Bikarinn er loðinn og eru 10 fræflar í hverju blómi. Þeir eru samvaxnir að neðan með fagurgular frjóhirslur. Frævan hins vegar er með einn stíl og verður að 2 til 5 sentimetra löngum belg við þroskun.

Blöðin hafa langa stilki og 7 til 8 smáblöð sem eru öfugegglaga. Þau eru hærð sem og stilkurinn.

Kjörlendi lúpínu eru melar, áreyrar og mólendi. Hún er dugleg að koma sér á legg þar sem lítill gróður er fyrir og græðir þannig upp ógróin svæði en getur einnig dreift sér inn í gróin svæði og eytt úr þeim öllum öðrum gróðri.[2]

Alaskalúpína er eilítið eitruð (beitarvörn) og sauðfé sem beitt er á lúpínubreiður getur lamast ef það fær of mikið af eitrinu í sig. Þetta ætti þó ekki að vera vandamál þar sem aðgengi að öðrum beitarplöntum er ótakmarkað.[3]

Í samvinnu við Rhizobium-gerla getur lúpínan unnið köfnunarefni úr andrúmsloftinu en þar sem þeir fyrirfinnast yfirleitt ekki í íslenskum jarðvegi er skortur á þeim þó hamlandi þáttur á vöxt lúpínunar .[4]

Sem landgræðslutegund breyta

Lúpínan er góð á melum og söndum þar sem áfok er ekki mikið því henni er illa við slíkt. Hún nýtir kraft Rhizobium-gerla til að vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu og þarf því ekki áburðargjöf þó að hún nái betri fótfestu fái hún léttan áburðarskammt fyrsta árið. Þar sem tegundin er fjölær en vex upp af rót á ári hverju myndast mikil sina og lífræn efni í jarðveginum sem bætir vaxtarskilyrðin fyrir komandi tegundir.[5] Niturbindingin er um 150kg á hektara á ári.[6] Hún blómgast og setur fræ fyrst við 3 til 5 ára aldur. Um 70% allra frjóvgana hjá lúpínu eru vegna sjálfsfrjóvgunar en restin verður við hjálp býflugna.[7]

Tegundin er ljóselsk en hægt er að halda aftur af henni í byrjun útbreiðslu, t.d. með beit búfjár. Alaskalúpína skilur eftir sig mjög næringarríkan jarðveg. Á sumum stöðum hörfar hún undan öðrum tegundum eftir 15 til 25 ár en á öðrum viðheldur hún miklum þéttleika eftir 30 ár.[7] Rannsóknir á frævistfræði alaskalúpínu á Íslandi benda til þess að langlífur fræforði tegundarinnar myndist í efri lögum jarðvegs, sem gerir mönnum erfiðara að stýra útbreiðslu lúpínunnar á þeim svæðum sem ekki á að leggja undir lúpínu.[8]

Lirfur tegunda á borð við Melanchra pisi og Euxoa ochrogaster eru skaðvaldar sem leggjast einkum á lúpínuna og valda þar usla. Fyrrnefnda tegundin veldur því að laufið fellur en sú síðarnefnda dregur einungis úr vaxtargetu plöntunnar.[7]

Sem ágeng tegund breyta

Lúpína myndar oft stórar þéttar breiður þar sem aðrar tegundir eiga erfitt uppdráttar. Hún hefur því verið flokkuð sem ágeng tegund í íslenskum vistkerfum og gerðar ráðstafanir til að stemma við útbreiðslu hennar.[9]

Saga breyta

Á 18. öld komu lúpínur fyrst til Evrópu en heimkynni hennar eru sem fyrr segir í Alaska og árið 1795 var hún fyrst notuð sem garðplanta í Englandi. Vinsældir hennar sem slík jukust og talið er að hún hafi verið flutt til Svíþjóðar fyrst árið 1840. Þar var nýting hennar sú sama og í Englandi en dreifðist svo út í náttúrunni. Um sama leyti var henni sáð meðfram vegum og jarðbrautateinum í Noregi til að binda jarðveg og hefur síðan verið náttúruleg tegund þar í landi. Alaskalúpína er óalgeng í Finnlandi en hefur þó talist slæðingur frá 1986.

Elstu heimildir um lúpínu á Íslandi eru frá 1885 þar sem hún var notuð við plöntutilraunir hjá Georg Schierbeck, landlækni í Reykjavík. Náði hún engri útbreiðslu í það skiptið. Þá eru til heimildir um ræktun hennar í garðyrkjustöð í Reykjavík árið 1911 og sem fyrr náði hún ekki að skapa sér vinsældir.[7][10]

Árið 1945 safnaði Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, fræjum af alaskalúpinu við College-fjörð (Prins Vilhjálms-sundi) á vesturströnd Alaska og flutti til Íslands. Sá Hákon að þar væri komin tilvalin landgræðslutegund. Var hún prófuð á ólíkum svæðum og við ólík skilyrði áður en hún var tekin upp sem ein af aðaltegundum Landgræðslunnar.[7][10]

Árið 2016 var talið að alaskalúpína þakti að lágmarki 314 ferkílómetra á Íslandi eða um 0,3% lands. [11]

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla Ríkisins (2010). Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi. Útbreiðsla, varnir og nýting (Skýrsla til umhverfisráðherra). Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla Ríkisins. ISBN 978‐9979‐9335‐7‐1
  2. „Flóra Íslands: Alaskalúpína“. Sótt 6. apríl 2008.
  3. Þóra Ellen Þórhallsdóttir (27. nóvember 2000). „Hvaða plöntur á Íslandi eru eitraðar?“. Vísindavefurinn. Sótt 13. apríl 2008.
  4. „Fræverkunarstöð: Alaskalúpína“. Sótt 6. apríl 2008.
  5. Valgerður Jónsdóttir (24. júlí 2000). „Hverjir eru kostir og gallar lúpínu sem landgræðsluplöntu?“. Vísindavefurinn. Sótt 13. apríl 2008.
  6. Jón Guðmundsson (27. nóvember 2000). „Ráðuneytafundur 1989“ (PDF). Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins. Sótt 29. október 2017.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 Borgþór Magnússon (2006). „NOBANIS - Invasive Alien Species Fact Sheet: Lupinus nootkatensis (PDF). Sótt 6. apríl 2008.
  8. Bjarni Diðrik Sigurðsson & Borgþór Magnússon (2004). Frævistfræði lúpínu. Náttúrufræðingurinn 72(3-4): 110-116.
  9. Kristín Svavarsdóttir, Menja von Schmalensee, Ása L. Aradóttir, Anne Bau og Róbert A. Stefánsson, Áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar, Náttúrufræðingurinn 86 (1–2), bls. 5–18, 2016
  10. 10,0 10,1 Borgþór Magnússon (21. maí 2003). „Hvenær var lúpínan flutt til Íslands og hver var tilgangurinn?“. Vísindavefurinn. Sótt 13. apríl 2008.
  11. Lúpínan þekur að lágmarki 314 ferkílómetra Vísir. Skoðað 11. október árið 2016.

Heimildir breyta


 
Wikilífverur eru með efni sem tengist