Hans J. G. Schierbeck

Hans Jacob George Schierbeck (24. febrúar 18477. september 1911) var danskur læknir sem starfaði í um áratug sem landlæknir á Íslandi.

Minnismerki um Schierbeck í Fógetagarðinum.

Ævi og störf

breyta

Schierbeck fæddist í Óðinsvéum, sonur málmiðnaðarmanns þar í borg. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði árið 1876 og sótti síðar framhaldsmenntun í París og víðar.

Árið 1883 var Schierbeck settur landlæknir á Íslandi og gegndi þá jafnframt forstöðu Læknaskólans. Hann sagði sig frá embætti árið 1894 og flutti þá alfarinn frá Íslandi. Hann gerðist síðar stiftsyfirlæknir á Norður-Sjálandi.

Arfleifð á Íslandi

breyta

Koma Schierbecks til Íslands 1883 hafði í för með sér ýmsar jákvæðar nýjungar í íslenskum heilbrigðisvísindum. Hann vakti athygli lækna á mikilvægi aukins hreinlætis, en talsvert hafði skort á í þeim efnum. Hann gerði sömuleiðis miklar rannsóknir á holdsveiki, sem var þrálátari sjúkdómur hér á landi en víðast hvar annars staðar í Evrópu.

Einna kunnastur er Schierbeck þó í Íslandi fyrir framlag sitt til garðyrkjumála. Hann var ástríðufullur garðyrkjumaður frá æskuárum og kom sér upp fjölskrúðugum matjurtargarði við hús sitt í Reykjavík. Hann varð fyrsti formaður Hins íslenska garðyrkjufélags, sem stofnað var árið 1885. Starfsemi þess varð til þess að vekja athygli fjölmargra landsmanna á möguleikum garðyrkju.

Silfurreynir Schierbecks í Fógetagarðinum hefur lengi verið þekkt sem elsta tré Reykjavíkur.

Tenglar

breyta