Persaveldi

(Endurbeint frá Akamenídar)

Persaveldi, einnig nefnt Akkamenídaríkið (persneska: هخامنشیان, unipers: Haxâmanešiyan, IPA: [haχɒmaneʃijɒn]) var veldi Akkamenída, sem réðu ríkjum frá um 559 f.Kr. til um 330 f.Kr. Það var fyrsta persneska stórveldið, arftaki Medaveldisins og náði yfir mestan hluta Stór-Íranssvæðisins, frá Indusdal í austri til Þrakíu og Makedóníu við norðausturmörk Grikklands í vestri, þegar það var stærst.[1] Á hátindi sínum náði ríkið yfir Íran, Írak, Sýrland, Jórdaníu, Palestínu, Egyptaland, Lýdíu, Litlu-Asíu, Anatólíu (Tyrkland) Þrakíu og yfir svæði, sem í dag eru Pakistan og Afganistan allt að Aralvatni og Kaspíahafi í norðri. Um 1 milljón manna bjó innan marka þess þegar það var fjölmennast. Trúarbrögð og siður Persa höfðu mikil áhrif langt út fyrir endimörk Persaveldis og má greina meðal annars hjá Grikkjum og Kínverjum. Persaveldi leystist upp árið 330 f.Kr. í kjölfar ósigra Persa gegn Alexander mikla.

Persaveldi um 500 f.Kr.
Persaveldi um 480 f.Kr.
Persía hin forna (sem í dag heitir Fars)
Kýros mikli.

Persar áttu uppruna sinn í suðvesturhluta írönsku hásléttanna, austur af Tígris-fljóti og norðan Persaflóa. Þeir nefndu sig Parsa og upphaflegt yfirráðasvæði sitt Parsua en í dag heitir það Fars. Frá þessu svæði kom Kýros mikli, sem sigraði Meda, Lýdíuveldið og Babýlóna og greiddi þannig götuna fyrir frekari landvinninga í Egyptalandi og Litlu Asíu. Hann stofnaði ríkið árið 550 f.Kr.

Persar komust í kynni við Grikki undir lok 6. aldar f.Kr. þegar þeir sigruðu Lýdíuríki og náðu í kjölfarið yfirráðum yfir grískum borgríkjum í Jóníu við strönd Eyjahafs. Grísku borgríkin gerðu uppreisn árið 499 f.Kr. Stuðningur grískra borgríkja á meginlandi Grikklands við uppreisnarríkin í Jóníu leiddi til Persastríðanna, sem stöðvuðu útþenslu Persa í vestri. Árið 490 f.Kr. gerði Dareios Persakonungur tilraun til að leggja meginland Grikklands undir sig en beið ósigur fyrir töluvert fámennara liði Grikkja í orrustunni við Maraþon. Tíu árum síðar reyndi Xerxes sonur hans, sem tekið hafði við ríki Persa að föður sínum látnum, að gera öflugri innrás á meginland Grikklands. Lítill flokkur spartverskra hermanna auk annarra Grikkja tafði framsókn Persa suður við Laugaskörð en beið á endanum ósigur. Persar biðu hins vegar mikinn ósigur í sjóorrustu við Salamis árið 480 f.Kr. og aftur á landi í orrustunni við Plataju ári síðar. Þar með var tilraun Xerxesar til landvinninga í Grikklandi hrundið.

Konungar Akkæmenída

breyta

Óstaðfestir

breyta
Vitnisburð í áletrunum fyrir þessa konunga er ekki hægt að staðfesta og eru þeir stundum taldir uppspuni Dareiosar I

Staðfestir

breyta
Anshan-konungar
Konungur Valdatíð (f.Kr.) Maki Athugasemdir
Teispes frá Anshan 7. öld sonur Akkæmenesar, konungur í Anshan
Kýros I Síðari hluti 7. / fyrri hluti 6. aldar sonur Teispesar, konungur í Anshan
Kambýses I frá Anshan Fyrri hluti 6. aldar Mandana frá Medíu sonur Kýrosar I, konungur í Anshan
Kýros II mikli um 550 – 530 Kassandana frá Persíu sonur Kambýsesar I og Mandönu — sigraði veldi Meda 550 f.Kr., konungur í Medíu, Babýlon, Lýdíu, Persíu, Anshan og Súmer. Stofnaði Persaveldi Akkæmenída.
Persakonungar (529 – 359 f.Kr.); 27. veldi Egypta (525 – 399 f.Kr.)
Konungur Valdatíð (f.Kr.) Maki Athugasemdir
Kambýses II 529 – 522 sonur Kýrosar mikla og Kassandönu. Sigraði Egypta.
Bardíya (Smerdis) 522 Fædýmía Sonur Kýrosar mikla. (Svikahrappurinn Gaumata stjórnaði í hans stað)
Dareios I mikli 521 – 486 Atossa
Artystóna
Parmýs
Fratagúna
mágur Smerdiss (Bardíya), sonur Hystapess, sonarsonur Arsamesar.
Xerxes I mikli 485 – 465 Amestris sonur Dareiosar I og Atossu
Artaxerxes I 465 – 424 Damaspía
Kosmartidena
Alogýna
Andía
sonur Xerxesar I og Amestrisar
Xerxes II 424 sonur Artaxerxess I og Damaspíu
Sogdianos 424 – 423 Sonur Artaxerxess I og Alogýnu; hálfbróðir og keppinautur Xerxess II
Dareios II frá Persíu 423 – 405 Parýsatis Sonur Artaxerxess I og Kosmartidenu; hálfbróðir og keppinautur Xerxess II
Artaxerxes II Mnemon 404 – 359 Strateira sonur Dareiosar II

Snemma á valdatíð Artaxerxess II (árið 399 f.Kr.) misstu Persar yfirráðin yfir Egyptalandi en náðu aftur yfirráðunum 57 árum síðar — árið 342 f.Kr. — þegar Artaxerxes III sigrar Egypta.

Persakonungar (358 – 330 f.Kr.); 31. veldi Egypta (342 – 332 f.Kr.)
Konungur Valdatíð (f.Kr.) Maki Athugasemdir
Artaxerxes III 358 – 338 sonur Artaxerxess II og Stateiru
Artaxerxes IV Arses 338 – 336 sonur Artaxerxess III og Atossu
Dareios III 336 – 330 Stateira I langafabarn Dareiosar II

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. David Sacks, Oswyn Murray, Lisa R. Brody (2005). Encyclopedia of the ancient Greek world. Infobase Publishing. bls. 256 (á hægri hlið blaðsíðunnar).

Tengt efni

breyta