Makedónía (fornöld)

(Endurbeint frá Makedónía hin forna)

Makedónía (hin forna) var konungsríki á Balkanskaganum í fornöld, á útjaðri hins grískumælandi heims.

Rústir í Pella, höfuðborg Makedóníu til forna

Uppgangur

breyta

Konungdæmið Makedónía varð líklega til á 8. eða 7. öld f.Kr. Það kom lítið við sögu í grískum stjórnmálum fyrir 5. öld f.Kr. Um tíma á 6. og 5. öld f.Kr. var Makedónía undir yfirráðum Persa, en öðlaðist sjálfstæði eftir Persastríðin. Einnig tók Makedónía þátt í Pelópsskagastríðinu og studdi þá Spörtu og Aþenu á víxl.

Filippos 2., konungur Makedóníu 359 – 336 f.Kr., beitti sér fyrir því að auka völd og virðingu Makedóníu í hinum gríska heimi. Filippos var mjög herskár konungur og gerði talsverðar breytingar á makedónska hernum sem urðu til þess að hann hafði yfirburði yfir flesta andstæðinga sína. Hann hertók borgirnar Amfipolis, Meþone og Potidaja og náði með því völdum yfir gull- og silfurnámum Makedóníu og varð sér með því úti um mikilvægar auðlindir sem hann gat nýtt til að gera draum sinn um makedónískt stórveldi að veruleika. Filippos náði yfirráðum yfir Þessalíu og Þrakíu og árið 348 f.Kr. réð hann yfir öllu landsvæðinu norðan Laugaskarða (Þermopylai). Hann nýtti auð sinn til að múta grískum stjórnmálamönnum og kom á fót „makedónskum stjórnmálaflokki“ í öllum grískum borgríkjum. Afskipti hans af stríðinu milli Þebu og Fókis færðu honum mikla virðingu og gáfu honum tækifæri á að ná miklum áhrifum í grískum stjórnmálum.

Aþenski stjórnmálamaðurinn Demosþenes hvatti Aþeninga til þess að standa gegn áhrifum Filipposar í frægum ræðum (filippísku ræðunum) og árið 339 f.Kr. mynduðu Þeba og Aþena bandalag gegn Makedóníu. Filippos hélt inn í Grikkland og réðst gegn þeim og sigraði bandalagsríkin í orrustunni við Kæróneu árið 338 f.Kr. Venjulega er litið svo á að hnignun borgríkjanna hafi hafist eftir ósigurinn við Kæróneu, enda þótt þau hafi að mestu leyti verið sjálfstæð allt þar til Rómverjar náðu yfirráðum.

Filippos reyndi að heilla Aþeninga með gjöfum en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann kom á fót Kórintubandalaginu og tilkynnti að hann myndi ráðast gegn Persíu til þess að frelsa grísku borgríkin og hefna fyrir innrásir Persa á 5. öld f.Kr. En áður en hann gat komið áformum sínum í verk var hann ráðinn af dögum árið 336 f.Kr.

Alexander mikli

breyta

Tvítugur sonur Filipposar, Alexander, tók við sem konungur að föður sínum látnum. Hann hóf þegar í stað að undirbúa það að hrinda í framkvæmd áformum föður síns um innrás í Persíu. Hann fór til Kórintu þar sem grísku borgríkin viðurkenndu hann sem leiðtoga Grikkjanna en hélt síðan norður til Þrakíu að gera her sinn reiðubúinn. Herinn sem hann hélt með til Persíu var í meginatriðum makedónskur, en margir sjálfboðaliðar frá öðrum borgríkjum gengu í herinn. En þegar Alexander var önnum kafinn í Þrakíu barst honum fregn um uppreisn grísku borgríkjanna. Hann hélt suður í skyndi, hertók Þebu og jafnaði borgina við jörðu, öðrum grískum borgum til varnaðar.

Árið 334 f.Kr. hélt Alexander til Litlu-Asíu og sigraði Persa við ána Granikos. Þar með réð hann yfir jónísku strandlengjunni og fór sigurför um grísku borgirnar sem hann hafði frelsað. Þegar hann hafði útkljáð mál í Litlu-Asíu hélt hann suður á bóginn gegnum Kilikíu inn í Sýrland, þar sem hann sigraði Dareios 3. í orrustunni við Issos 333 f.Kr. Þá hélt hann í gegnum Fönikíu til Egyptalands, sem hann náði á sitt vald án mikillar mótspyrnu. Egyptar tóku vel á móti honum sem frelsara undan kúgun Persa.

Dareios var nú viljugur til þess að semja um frið og Alexander hefði getað haldið heim sigri hrósandi. En Alexander var staðráðinn í að leggja undir sig Persíu. Hann hélt í norðaustur gegnum Sýrland og Mesópótamíu og sigraði Dareios aftur í orrustunni við Gaugamela 331 f.Kr. Dareios flúði og var drepinn af eigin þegnum. Alexander var nú herra yfir öllu Persaveldi og lagði undir sig Susa og Persepolis án mótspyrnu.

Grísku borgríkin voru enn á ný að reyna að komast undan stjórn Makedóníu. Í orrustunni við Megalopolis árið 331 f.Kr. sigraði Antipater, fulltrúi Alexanders, Spartverja, sem höfðu neitað að ganga í Kórintubandalagið og viðurkenna yfirráð Makedóníu.

Alexander hélt lengra í austur, þangað sem nú eru Afganistan og Pakistan, allt að Indusdalnum, og 326 f.Kr. hafði hann náð til Punjab-héraðs. Hann hefði getað lagt leið sína niður meðfram Ganges til Bengal hefði ekki herinn, sem var fullviss um að hann væri kominn að endimörkum heimsins, neitað að fara lengra. Alexander sneri aftur nauðugur viljugur og lést úr hitasótt í Babýlon árið 323 f.Kr.

Helleníski tíminn

breyta

Veldi Alexanders leystist upp skömmu eftir andlát hans og ný konungdæmi voru stofnuð úr leifum þess, í Egyptalandi, Sýrlandi og Íran. Á Balkanskaganum hélt Antipater völdum yfir mestöllu Grikklandi og stofnaði þar nýtt makedónískt konungsríki. Fljótlega brutust þó út átök um völdin sem veiktu ríkið, en upp úr þeim átökum náði Antigónid-ættin völdum og hóf útþenslu ríkisins á ný. Undir stjórn Filipposar 5. (221–179 f.Kr.) og Perseifs sonar hans (179–168 f.Kr.) lenti Makedónía í átökum við Rómverja í Makedóníustríðunum. Rómaveldi var í mikilli sókn á þessum tíma og var orðið valdamesta ríkið við vestanvert Miðjarðarhaf. Ríkin mættust í fjórum mismunandi stríðum og fóru Makedóníumenn halloka í þeim. Í lok þriðja Makedóníustríðsins skiptu Rómverjar Makedóníu niður í fjögur leppríki, en eftir fjórða stríðið, sem í raun var uppreisn gegn áhrifavaldi Rómverja, var Makedónía gerð að rómversku skattlandi og leið þar með undir lok sem sjálfstætt ríki.