Loftur Þorsteinsson

Loftur Þorsteinsson (1702 - ?) var íslenskur menntamaður á 18. öld sem miklar þjóðsögur hafa farið af og er þekktastur undir nafninu Galdra-Loftur.

Loftur var sonur Þorsteins Jónssonar fálkafangara á Vörðufelli í Skógarstrandarhreppi og fyrri konu hans, Ástu Loftsdóttur. Hann ólst að einhverju eða öllu leyti upp hjá Þormóði Eiríkssyni í Gvendareyjum, sem talinn var kraftaskáld og fjölkunnugur. Hann var settur í Hólaskóla árið 1716. Samkvæmt þjóðsögunum stundaði hann galdrakukl í skóla og í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, Galdra-Lofti, verður það banabiti hans á meðan hann er enn á Hólum en Loftur lauk raunar stúdentsprófi árið 1722 og er ekkert vitað um hann með vissu eftir það.

Í þjóðsögunum af Galdra-Lofti segir að hann hafi sturlast eftir að honum mistókst að ná galdrabókinni Rauðskinnu og hafi þá verið komið fyrir hjá öldruðum presti á Staðarstað en hann slapp úr gæslu hans, reri einn út á litlum bát og var sagt að grá hönd og loðin hefði sést koma upp og draga bátinn í djúpið.

Hvað sem sögunum líður er víst að Loftur hefur dáið ungur en óvíst er hvenær það var eða hvernig dauða hans bar að höndum.

Tenglar

breyta

„Þjóðsagan um Galdra-Loft (hjá snerpu.is)“.