Þjóðfylkingin (Frakkland)

Þjóðfylkingin (franska: Rassemblement national, skammstafað RN; áður þekkt sem Front national frá 1972 til 2018) er franskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn er staðsettur lengst til hægri í frönskum stjórnmálum og hugmyndafræði hans einkennist af þjóðernishyggju, gagnrýni á Evrópusambandið og andstöðu við komu innflytjenda til Frakklands.

Þjóðfylkingin
Rassemblement national
Forseti Jordan Bardella
Varaforseti Louis Aliot
David Rachline
Hélène Laporte
Edwige Diaz
Julien Sanchez
Sébastien Chenu
Þingflokksformaður Marine Le Pen
Stofnár 5. október 1972; fyrir 52 árum (1972-10-05)
Stofnandi Jean-Marie Le Pen
Höfuðstöðvar 114 bis rue Michel-Ange 75016, París
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frönsk þjóðernishyggja, hægri-popúlismi
Einkennislitur Dökkblár  
Sæti á neðri þingdeild
Sæti á efri þingdeild
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða rassemblementnational.fr

Söguágrip

breyta

Þjóðfylkingin var stofnuð árið 1972 af Jean-Marie Le Pen, sem byggði flokkinn upp í andstöðu við fjölmenningu og fólksflutning, sér í lagi við aðflutning fólks frá múslimaríkjum. Flokkur Le Pen einkenndist jafnframt af andúð á innlendri elítu og af efnahagsstefnu í anda frjálshyggju.[1] Þjóðfylkingin var samruni ýmissa öfgahægrihreyfinga í frönskum stjórnmálum sem sameinuðust í upphafi aðallega vegna afstöðu þeirra til Alsírstríðsins, sér í lagi vegna óánægju þeirra með ákvörðun Charles de Gaulle forseta um að binda enda á stjórn Frakka í norðurhluta Afríku.[2]

Þjóðfylkingin átti erfitt uppdráttar fyrstu árin vegna daðurs við fasisma og ásakana um Gyðingahatur innan flokksins.[2] Á níunda áratugnum tókst flokknum hins vegar að auka lögmæti sitt í augum franskra kjósenda með því að hreinsa marga nýnasista úr röðum sínum og laða til sín almennari fylgismenn. Flokkurinn náði í fyrsta sinn verulegum árangri í sveitarstjórnarskosningum árið 1983 og þáttaskil urðu í sögu hans þegar Jean-Marie Le Pen náði kjöri á Evrópuþingið árið 1988. Sama ár hlaut Le Pen 14 prósent atkvæða í forsetakosningum Frakklands.[3]

Þjóðfylkingin hefur frá upphafi verið andsnúin Evrópusambandinu og flokkurinn beitti sér bæði gegn upptöku evrunnar og inngöngu Frakklands í Schengen-samstarfið.[3] Á tíma kalda stríðsins lagði Þjóðfylkingin mikla áherslu á baráttu gegn meintum samsærum kommúnista, sem flokkurinn sagði að hefðu tekið sér bólfestu innan ýmissa alþjóðastofnana til þess að leggja grunn að nýrri heimsskipan. Með tímanum hefur orðræða Þjóðfylkingarinnar í auknum mæli beinst gegn íslamisma fremur en kommúnisma.[4]

Í forsetakosningum Frakklands árið 2002 lenti Jean-Marie Le Pen óvænt í öðru sæti í fyrri umferðinni og því var kosið á milli hans og sitjandi forsetans Jacques Chirac í þeirri seinni. Í seinni umferðinni sameinuðust andstæðingar Þjóðfylkingarinnar gegn Le Pen og því galt hann afhroð gegn Chirac og hlaut aðeins 17,8% greiddra atkvæða.[5]

Marine Le Pen, dóttir Jean-Marie, tók við stjórn Þjóðfylkingarinnar af föður sínum árið 2011. Hún hófst strax handa við að reyna að mýkja ímynd flokksins í augum fransks almennings og gefa honum breiðari skírskotun.[6] Árið 2015 lét Marine Le Pen reka föður sinn úr flokknum vegna umdeildra ummæla hans sem gengu út á að helförin hefði aðeins verið aukaatriði í seinni heimsstyrjöldinni.[7] Á stjórnartíð Marine Le Pen hefur Þjóðfylkingin hætt að tala fyrir útgöngu Frakklands úr Evrópusambandinu og talar þess í stað fyrir því að Frakkland beiti sér fyrir endurskipulagningu á ESB innan frá.[8] Marine Le Pen lét jafnframt árið 2018 breyta nafni flokksins úr Front national í Rassemblement national til þess að bæta ímynd hans.[9]

Þjóðfylkingin hefur átt æ meira fylgi að fagna á síðustu árum undir forystu Marine Le Pen. Marine Le Pen var frambjóðandi flokksins í forsetakosningum Frakklands árin 2012, 2017 og 2022 og komst í seinni umferð í síðari tveimur kosningunum. Í báðum þessum kosningum tapaði Le Pen fyrir Emmanuel Macron.[10]

Le Pen hefur hrósað Vladímír Pútín, forseta Rússlands, og flokkurinn hefur talað fyrir auknu samstarfi við Rússland. Le Pen studdi á sínum tíma innlimun Rússlands á Krímskaga og hvatti til þess að efnahagsþvingunum gegn Rússlandi í kjölfar hennar yrði hætt. Þau Pútín funduðu í Moskvu í aðdraganda forsetakosninga Frakklands árið 2017.[11]

Jordan Bardella tók við af Le Pen sem forseti Þjóðfylkingarinnar árið 2022, þar sem Le Pen vildi einbeita sér að forsetaframboði sínu, og deilir forystu flokksins með henni.[12] Flokkurinn lenti í fyrsta sæti í Evrópuþingskosningum ársins 2024, sem leiddi til þess að Emmanuel Macron forseti lét rjúfa þing og flýkka þingkosningum. Í fyrri umferð þingkosninganna, sem fóru fram þann 30. júní 2024, lenti Þjóðfylkingin aftur í fyrsta sæti, sem var í fyrsta sinn sem jaðarhægriflokkur hefur unnið sigur í þingkosningum í Frakklandi.[13] Þjóðfylkingin missti hins vegar flugið í seinni umferð þingkosninganna, sem haldin var þann 7. júlí, og lenti í þriðja sæti á eftir Nýju alþýðufylkingunni, kosningabandalagi vinstriflokka, og miðjubandalagi Macrons forseta.[14]

Heimildir

breyta
  • Eiríkur Bergmann (2021). Þjóðarávarpið: Popúlísk þjóðernishyggja í hálfa öld. Reykjavík: JPV útgáfa. ISBN 978-9935-29-078-6.

Tilvísanir

breyta
  1. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 79.
  2. 2,0 2,1 Eiríkur Bergmann 2021, bls. 95.
  3. 3,0 3,1 Eiríkur Bergmann 2021, bls. 96.
  4. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 98.
  5. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 171.
  6. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 295.
  7. Pálmi Jónasson (16. mars 2017). „Sprengjutilræði, móðurmissir og föðurmorð“. RÚV. Sótt 1. júlí 2024.
  8. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 296.
  9. „Le Pen vill nýtt nafn á flokkinn“. mbl.is. 11. mars 2018. Sótt 1. júlí 2024.
  10. Ólöf Ragnarsdóttir (24. apríl 2022). „Emmanuel Macron hafði betur gegn Marine Le Pen“. RÚV. Sótt 24. apríl 2022.
  11. „Marine Le Pen vill aukið samstarf við Rússa – Moskvuferð ekki til fjáröflunar“. Varðberg. 27. mars 2017. Sótt 1. júlí 2024.
  12. Jón Þór Stefánsson (16. júní 2024). „Hver er þessi 28 ára maður sem gæti orðið for­sætis­ráð­herra Frakka?“. Vísir. Sótt 1. júlí 2024.
  13. Sólrún Dögg Jósefsdóttir (30. júní 2024). „Sögu­legur dagur fyrir frönsku þjóðina að baki“. Vísir. Sótt 1. júlí 2024.
  14. Ólafur Björn Sverrisson (7. júlí 2024). „Attal segir af sér og Melénchon vill stjórnarmyndunarumboð“. Vísir. Sótt 8. júlí 2024.