Rosalia mey
Rosalia mey er verndardýrlingur í heimaborg sinni, Palermo á Sikiley. Hún var góðrar ættar, fékk ung löngun til að helga sig kristinni trú og gerðist einsetukona, ef til vill nunna af reglu heilags Basilíusar. Helgisaga greinir, að tveir englar hafi fylgt henni að helli uppi á Monte Pellegrino, og þar hafi hún sest að en dáið 4. september 1165. Sums staðar er ártalið haft 1166.
Árið 1624 geysaði drepsótt í Palermo, og þá á Rosalia að hafa birst veikri konu, sagt henni frá hellinum og ráðlagt að sækja líkamsleifar sínar og bera þær í helgigöngu inn í Palermo. Það var gert, og drepsóttin rénaði. Urbanus páfi VIII. lýsti árið 1630 yfir helgi þessarar meyjar. Messudagar hennar eru 15. júlí og 4. september.
Heimildir
breyta- Borrelli, Antonio @ Santi, beati e testimoni: Santa Rosalia Vergine, eremita di Palermo. Skoðað 4. september 2010.
- Odden, séra Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge: Den hellige Rosalia av Palermo. Skoðað 4. september 2010.
- Wikimedia Commons hefur efni um heilaga Rosaliu.