Ísfélagið við Faxaflóa
Ísfélagið við Faxaflóa var fyrsta íshúsið í Reykjavík. Það var stofnað 5. nóvember 1894. Í þessu fyrsta alvöru íshúsi Íslendinga voru engar vélar, heldur var geymslugetan fengin með því að blanda saman ís og snjó og salti á vetrum. Ísinn var tekinn af Tjörninni í Reykjavík, og var þá talað um ístöku.
Nordalsíshús var fyrsta íshúsið á Íslandi, stofnað árið 1894 og byggt í Reykjavík, Hafnarstræti 23. Stofnendur þess voru þeir Tryggvi Gunnarsson útgerðarmaður og þáverandi Vestur-Íslendingurinn Jóhannes Nordal.
Stofnun Nordalsíshússins kom til fyrir tilverknað samfunda Tryggva og Sigurðar J. Jóhannessonar frá Mánaskál. Þeir voru staddir á mannamóti í Reykjavík árið 1893, en þar var Sigurður vændur um að vera Vesturfaraagent sem þótti skammaryrði. Tryggvi tók þá upp hanskann fyrir hann og bað hann að sanna góðvild sína til Íslendinga með því að senda aftur íslenska menn til að koma til landins og kenna Íslendingum að útbúa íshús til að geyma í beitu og matvæli í frosti. Sigurður hafði þá milligöngu um að Ísak Jónsson og Jóhannes Nordal komu til landsins, en Jóhannes hafði farið til Ameríku árið 1887. Hann vann þar við að byggja íshús og frysta fisk, þar til hann fékk tilboð Sigurðar (að boði Tryggva) að snúa aftur heim og hafði þá með sér verðmæta þekkingu. Úr þessu samkrulli varð fyrirtækið til.
Nordalsíshús var byggt í mörgum áföngum. Síðasti hluti þess var rifinn árið 1945.
Upphaf Ísfélagsins
breytaSumarið 1894 var Tryggvi Gunnarsson (lengi kaupstjóri Gránufélagsins), þá bankastjóri Landsbankans, orðinn mjög áfram um að koma upp íshúsi í Reykjavík. Hann var þá formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og hafði þá nýlega fengið bréf frá Ísak Jónssyni um þetta framfaramál, en hann hafði kynnst rekstri íshúsa við Winnipegvatn í Kanada.
Verslunarmannafélagið hafði beitt sér fyrir því að C.F. Drechsel sjóliðsforingi héldi fyrirlestur í Reykjavík í júlí þetta sumar. Þar talaði hann um tilraun að flytja nýjan fisk í ís frá Reykjavík til hafna erlendis. Á fundi hjá félaginu 15. september þá um haustið hélt Tryggvi erindi um „klakageymsluhús“. Hann taldi Reykjavík vera á eftir öðrum kaupstöðum í ýmsum greinum. Hann hvatti menn til að koma upp íshúsi og voru fundarmenn því hlynntir, t.d. Helgi Helgason kaupmaður og Halldór Jónsson bankagjaldkeri. Matthías Jóhannessen kaupmaður vildi fara varlega í sakirnar. Kosin var nefnd til að fylgja málinu eftir og sátu í henni auk Tryggva Guðbrandur Finnbogason konsúll, Matthías Jóhannessen, Björn Jónsson ritstjóri og Helgi Helgason.
Á fundi félagsins 22. september var nefndin komin með tillögur sínar. Hún lagði til að ísgeymsluhús yrði komið upp, stofnfé yrði 8-10.000 kr, en Landsbankinn væri tilbúinn að leggja fram helminginn. Hinn helminginn skyldi koma frá einstaklingum sem keyptu 50 kr. hlutabréf. Einnig var lagt til að húsið yrði reist á stakkstæði Christens Zimsens, sem var á lóð Hafnarstrætis 23.
Hafist var handa þetta sama haust. Fundarmenn lýstu áhuga sínum á málinu og nefndinni var falið að ganga frá stofnun. Í boðsbréfi frá nefndinni var félagið nefnt: „Klakageymslu- og fiskifélag Reykjavíkur“. Á stofnfundi 5. nóvember 1894 fékk félagið heitið Ísfélagið við Faxaflóa.