William Pitt eldri
William Pitt, fyrsti jarlinn af Chatham, (15. nóvember 1708 – 11. maí 1778) var breskur stjórnmálamaður úr röðum Vigga sem var tvisvar ríkisstjórnarleiðtogi Bretlands á miðri 18. öld. Hann er ýmist kallaður Pitt af Chatham eða William Pitt eldri til að greina hann frá syni sínum, William Pitt yngri, sem var einnig forsætisráðherra. Pitt var einnig kallaður „alþýðumaðurinn mikli“ þar sem hann neitaði í mörg ár, til ársins 1766, að þiggja aðalstitil.
William Pitt | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 30. júlí 1766 – 14. október 1768 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 3. |
Forveri | Markgreifinn af Rockingham |
Eftirmaður | Hertoginn af Grafton |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. nóvember 1708 Westminster, Middlesex, Englandi |
Látinn | 11. maí 1778 (69 ára) Hayes, Kent, Englandi |
Stjórnmálaflokkur | Viggar |
Maki | Hester Grenville (g. 1754) |
Börn | 5, þ. á m. William Pitt yngri |
Undirskrift |
Pitt var óformlegur leiðtogi bresku ríkisstjórnarinnar frá 1756 til 1761 (með stuttu hléi árið 1757) í sjö ára stríðinu. Hann var aftur ríkisstjórnarleiðtogi og innsiglisstjóri frá 1766 til 1768. Pitt var framúrskarandi ræðumaður. Hann var í stjórnarandstöðu mikinn hluta ferils síns og var þekktur fyrir harðsvíruga gagnrýni sína gegn stjórnvöldum, þar á meðal fyrir spillingu Roberts Walpole á fjórða áratugnum, greiðslu til konungsfjölskyldunnar á fimmta áratugnum, frið við Frakkland á sjöunda áratugnum og harðlínustefnu gegn amerískum nýlendubúum á áttunda áratugnum.[1]
Pitt er þekktastur sem leiðtogi Breta í sjö ára stríðinu, þar sem Bretar festu sig í sessi sem sterkasta veldi í heimi. Pitt er einnig þekktur fyrir vinsældir sínar, baráttu sína gegn spillingu, stuðning sinn við réttindi nýlendubúa í aðdraganda bandaríska frelsisstríðsins, nýlendu- og útþenslustefnu sína og hatur sitt á keppinautum Bretlands um nýlenduáhrif, Frakklandi og Spáni.[2][3]
Breski sagnfræðingurinn Peter D. G. Thomas hefur sagt um Pitt að völd hans hafi ekki byggst á fjölskyldutengslum hans heldur á hæfileikum hans sem þingleiðtogi sem gerðu honum kleift að stjórna neðri deild breska þingsins. Pitt var valdmannslegur, rökfastur og fróður bæði um sögu og bókmenntir.[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ Jeremy Black, "William Pitt the Elder" (1998)
- ↑ Black (1992)
- ↑ Marie Peters, "The Myth of William Pitt, Earl of Chatham, Great Imperialist: Part One, Pitt and Imperial Expansion 1738–1763," Journal of Imperial & Commonwealth History, January 1993, vol. 21, issue 1, pp. 31–74
- ↑ Peter D.G. Thomas, "'The Great Commoner': The Elder William Pitt as Parliamentarian," Parliamentary History, July 2003, vol. 22, issue 2, pp. 145–63
Fyrirrennari: Markgreifinn af Rockingham |
|
Eftirmaður: Hertoginn af Grafton |