Wikipedia:Það sem Wikipedia er ekki
Þessi síða
lýsir samþykkt sem gildir á íslensku Wikipediu og allir notendur ættu að virða eins og kostur er. Ekki breyta henni í ósátt við aðra notendur. |
Wikipedia er alfræðirit á netinu og samfélag fólks, sem hefur það markmið að vinna saman í góðum anda að því að búa til gott áreiðanlegt alfræðirit. En sumt er Wikipedia ekki.
Það sem Wikipedia er ekki
breytaWikipedia er ekki prentað alfræðirit
breytaWikipedia er ekki prentað alfræðirit. Þetta þýðir að í reynd eru því nánast engin takmörk sett hversu mikið efni Wikipedia getur innihaldið.
Það er æskilegt að einstakar greinar séu ekki stærri en svo að hægt sé að hlaða þeim niður með góðu móti með venjulegri internet-tengingu. Það er líka æskilegt að þær séu ekki svo langar og umfangsmiklar að þær séu ekki lengur læsilegar (sjá Wikipedia:Lengd greina). Á ákveðnum punkti verður skynsamlegra að skipta greininni upp í minni greinar og gefa einungis ágrip af viðeigandi köflum (sjá Wikipedia:Ágrip). Í prentuðum alfræðiritum er einungis fjallað um sum efni í stuttum greinum en úr því að Wikipedia er ekki prentaður miðill er hægt að fjalla um þessi sömu viðfangsefni í lengra máli hér, bæta við tenglum á aðrar greinar um skyld efni og svo framvegis.
Þetta þýðir einnig að um sjaldgæfari efni þarf ekki alltaf að vísa lesandanum á aðra grein sem fjallar einungis að hluta til um sama efni. Í kafla undir yfirskriftinni „tengt efni“ er hægt að benda lesandanum á að frekari upplýsingar um skylt efni sé einnig að finna í öðrum greinum.
Wikipedia er ekki orðabók
breytaWikipedia er ekki orðabók eða handbók um orðanotkun og slangur. Greinar á Wikipediu eru ekki:
- Orðabókaskilgreiningar. Gjörið svo vel að hafa í huga að Wikipedia er ekki orðabók og búið ekki til síður einungis til þess að skilgreina hugtak eða greina frá notkun orðs. Greinar ættu oftast að byrja á góðri skilgreiningu. Ef þú rekst á grein sem er ekkert annað en skilgreining, athugaðu þá hvort þú gætir bætt við einhverjum upplýsingum sem ættu heima í alfræðiriti.
- Listar yfir slíkar skilgreiningar. En það eru aftur á móti aðgreiningarsíður þar sem eru tenglar yir á aðrar síður ásamt stuttum lýsingum. Þessar síður eru notaðar til að hjálpa lesandanum að finna rétta grein.
- Leiðbeiningar um orðanotkum eða slangur- og orðtakasafn. Það er ekki hlutverk Wikipediu að leiðbeina um rétta notkun orða, orðasambanda, orðtaka, málshátta og þar fram eftir götunum. Aftur á móti getur verið mikilvægt að geta þess í grein á Wikipediu að greina frá því hvernig orð eru notuð, t.d. til að greina á milli skyldra hugmynda sem oft er ruglað saman. Í undantekningartilfellum er réttlætanlegt að skrifa grein um slanguryrði eða orðtak.
Um orðabókaverkefni Wikimedia, sjá Wiktionary.
Wikipedia er ekki vettvangur fyrir frumlegar pælingar
breytaWikipedia er ekki rétti staðurinn til þess að birta þínar eigin hugmyndir eða kenningar eða nýjar upplýsingar sem hafa ekki áður birst annars staðar. Vinsamlegast ekki nota Wikipediu fyrir eftirfarandi:
- Frumrannsóknir svo sem nýjar kenningar, tilgátur, hugmyndir, rök, lausnir, skilgreiningar, og svo framvegis. Ef þú hefur unnið frumrannsóknir á einhverju viðfangsefni, birtu þá niðurstöður þínar á öðrum stöðum, svo sem í ritrýndum tímaritum eða öðrum prentmiðlum eða á virtum netmiðlum. Wikipedia mun greina frá niðurstöðunum þegar þær hafa birst annars staðar og hlotið viðurkenningu. Ekki allt efni sem birt er á Wikipediu þarf að vera úr ritrýndum tímaritum, en vinsamlegast reynið að ganga úr skugga um að upplýsingarnar séu áreiðanlegar og sannreynanlegar. Til dæmis er hægt að sýna að upplýsingar séu sannreynanlegar og séu ekki frumrannsóknir eða einungis skoðun notandans sem setti þær inn með því að vísa í heimildir, t.d. bækur, tímaritsgreinar, aðra netmiðla og svo framvegis.
- Nýjar uppfinningar, þ.á m. nýyrði. Ef þú smíðar orðið vimbur eða finnur upp nýtt dansspor, þá er það ekki efni í grein á Wikipediu fyrr en greint er frá því í annarri heimild.
- Persónulegar ritgerðir sem lýsa þínum skoðunum (fremur en samkomulagi sérfræðinga). Wikipedia á að safna saman mannlegri þekkingu. Hún er ekki tæki til þess að gera skoðanir manns að hluta af mannlegri þekkingu. Í þeim undantekningartilfellum, þar sem skoðanir eins einstaklings eru nógu mikilvægar til þess að um þær sé fjallað, þá er betra að láta aðra um að fjalla um þær. Persónulegar hugleiðingar þínar geturðu sett á notandasíðu þína, en ekki í greinar á Wikipediu.
- Skoðanir á málefnum líðandi stundar er dæmi um persónulega ritgerð, sem fjallað er um hér að ofan. Wikipedia er ekki vettvangur fyrir fólk sem vill tjá sig um málefni líðandi stundar. Í greinum verður að gæta jafnvægis og hlutleysis. Notendur ættu líka að reyna að skrifa ekki greinar sem verða fljótlega úreltar.
- Spjallvef. Vinsamlegast reynið að halda ykkur við efnið að setja saman alfræðirit. Þú getur spjallað við aðra notendur um málefni tengd Wikipediu á spjallsíðum þeirra. Þú getur hafið umræðu um efni tiltekinnar greinar á spjallsíðu greinarinnar.
- Fréttaveitu. Wikipedia ætti ekki að miðla fréttum. Wikipedia er ekki frumheimild. Systurverkefnið Wikinews miðlar hins vegar fréttum og er ætlað að vera fréttaveita.
Wikipedia er ekki átakasvæði
breytaWikipedia er ekki staður til þess að takast á eða dreifa áróðri eða auglýsingum. Af þessum sökum eru greinar á Wikipediu ekki:
- Áróður af neinu tagi. Í greinum má auðvitað fjalla á hlutlægan hátt um slíka hluti, svo lengi sem efnið er nálgast á hlutlausan hátt. Ef þú vilt dreifa þínum skoðunum, þá er betra að opna bloggsíðu. En Wikipedia er ekki bloggsíða.
- Staður til að koma sér á framfæri. Það er ef til vill freistandi að skrifa grein um sjálfan sig eða eitthvert verkefni sem maður hefur verið að vinna að en þó ber að hafa í huga að Wikipedia er alfræðirit og grein um mann sjálfan þarf að uppfylla öll skilyrði sem gilda einnig um aðrar greinar, þ.á m. hlutleysi. En það er oft erfitt að fjalla á hlutlausan hátt um sjálfan sig. Þess vegna er betra að láta öðrum eftir að skrifa um mann sjálfan.
- Auglýsingar. Greinar um fyrirtæki og framleiðsluvöru eru ásættanlegar ef þær eru skrifaðar frá hlutlausu sjónarhorni. Enn fremur verða allar greinar að vera sannreynanlegar. Þar af leiðandi eiga greinar um smáfyrirtæki líklega ekki erindi í ritið.
Wikipedia er ekki tenglasafn eða myndaalbúm
breytaWikipedia er hvorki tengla safn né myndaalbúm eða annars konar skjalavarsla. Allt efni á Wikipediu verður að vera laust undan höfundarrétti undir GNU FDL leyfinu. Greinar á Wikipediu eru ekki:
- Einungis safn tengla á aðrar síður Það er ekkert athugavert við að setja gagnlega tengla á síður Wikipediu. Aftur á móti getur óhóflegur fjöldi tengla skyggt á greinina og hindrað Wikipediu-greinina í tilgangi sínum.
- Einungis safn tengla á aðrar greinar í Wikipediu. Undantekningin er aðgreiningarsíður og ýmsir listar.
- Einungis safn efnis sem er laust undan höfundarrétti svo sem heilu bækurnar, lagabálkar og annað slíkt. Frumheimildir sem eru lausar undan höfundarrétti eiga heima á Wikisource en ekki Wikipediu. En það er ekkert athugavert við það að nota efni sem er laust undan höfundarrétti til að auka við efni greina, t.d. úr 1911 útgáfu Encyclopædia Britannica.
- Einungis myndaalbúm eða annars konar skjalasafn. Myndir sem þú telur að geti átt heima í alfræðiriti eiga heima á Wikimedia Commons.
Wikipedia er ekki bloggsíða, vefhýsingaraðili eða vinavefur
breytaWikipedia er ekki MySpace. Wikipedia er ekki rétti staðurinn fyrir heimasíðuna þína og bloggið þitt. Greinar á Wikipediu eru ekki:
- Einkavefsíður. Skráðir notendur Wikipediu hafa eigin notandasíðu, en þær eru einungis ætlaðar til þess að hýsa efni sem varðar Wikipediu á einhvern hátt. Ef þú vilt eignast eigin vefsíðu eða bloggsíðu, þá er nóg af hýsingaraðilum á netinu sem bjóða upp á ókeypis vefsíðu- eða bloggsíðuhýsingu. Notendasíður ættu að auka samstarfsmöguleika notenda.
- Skjalavörslur. Vinsamlegast ekki hlaða upp efni sem verður ekki notað í alfræðiritinu. Efni sem á ekki erindi í alfræðiritið verður líklega eytt. Ef þú býrð yfir myndum sem þú telur að eigi erindi á Wikipediu og vilt deila þeim er best að setja þær á Wikimedia Commons, en þaðan er hægt að tengja í myndirnar á Wikipediu á öllum tungumálum.
- Stefnumótaþjónusta. Wikipedia er ekki rétti staðurinn til þess að auglýsa löngun þína eftir sambandi eða kynlífi. Notendur ættu ekki að ganga lengra en að segja í mesta lagi frá almennri kynhneigð sinni á notendasíðu sinni. Þetta gildir ekki síst um hvers kyns athafnir sem eru ólöglegar, svo sem kynlíf með börnum eða dýrum.
Wikipedia er ekki gagnagrunnur
breytaWikipedia er ekki gagnagrunnur sem heldur utan um allt sem til er. Greinar á Wikipediu eru ekki:
- Ættfræðiskrár. Á Wikipediu ættu einungis að vera æviágrip frægs fólks, afreksfólks og markverðs fólks. Einn mælikvarðinn er sá hvort einhvers er getið í nokkrum óháðum heimildum. Minna þekkts fólks má geta í öðrum greinum.
- Símaskrár. Greinar á Wikipediu ættu ekki að vera viðskiptatól eða heimasíður fyrirtækja þar sem símanúmer fyrirtækisins eru birt.
Wikipedia er ekki einfaldlega safn upplýsinga
breytaWikipedia er ekki einfaldlega safn upplýsinga. Þótt eitthvað sé 100% satt, þá er ekki þar með sagt að það sé efni í grein á Wikipediu. Greinar á Wikipediu eru ekki:
- Listar yfir algengar spurningar. Greinar á Wikipediu ættu ekki að innihalda lista yfir algengar spurningar og svör við þeim. Þess í stað ætti að setja efnið fram í formi greinar í alfræðiriti og gæta hlutleysis.
- Ferðaleiðbeiningar. Grein um París ætti að geta þekktra kennileita eins og Eiffelturnsins og Louvre safnsins, en ekki símanúmer og götunúmer uppáhalds hótelsins þíns eða verðið á café au lait á Champs-Élysées. Slík smáatriði eru hins vegar vel þegin á Wikitravel.
- Minningargreinar. Wikipedia er ekki rétti vettvangurinn til þess að heiðra látna vini eða ættingja. Greinar í alfræðiriti verða að vera hlutlausar og sannreynanlegar um markverða einstaklinga.
- Leiðbeiningar. Wikipedia inniheldur lýsingar á fólki, stöðum, hlutum og hugtökum en ætti ekki að innihalda almennar leiðbeiningar eða húsráð eða aðrar tillögur. Þetta á einnig við um mataruppskriftir. Athugið að þetta á ekki við um síður sem hefjast á „Wikipedia:“ þar sem notendum er kennt að nota Wikipediu sjálfa, t.d. Wikipedia:Að byrja nýja síðu. Systurverkefnið Wikibooks inniheldur ýmsa leiðbeiningarbæklinga og þar gætirðu ef til vill lagt þitt af mörkum ef þú vilt skrifa leiðbeiningar fremur en greinar í alfræðiritið.
- Kennslubækur. Wikipedia er alfræðirit. Tilgangur hennar er að setja fram staðreyndir en ekki að kenna tiltekið fag. Greinar ættu ekki að líta út eins og texti í kennslubók. Slíkar greinar eiga heima á Wikibooks.
- Endursögn á söguþræði. Greinar á Wikipediu sem fjalla um bækur og kvikmyndir ættu að innihalda umfjöllun um verkið, t.d. sögulegt mikilvægi þess og áhrif þess en ekki einungis endursögn á söguþræðinum. Endursögn getur verið viðeigandi sem kafli í grein.
- Gagnagrunnar fyrir lagatexta. Flestir lagatextar eru háðir höfundarrétti. Á því eru undantekningar. En grein á Wikipedia ætti ekki að innihalda einungis lagatexta heldur einnig umfjöllun um hann, t.d. sögulegt mikilvægi hans og áhrif hans, höfundinn, útgáfudag og svo framvegis. Lagatextar eiga almennt heima á WikiSource.
Wikipedia er ekki kristalkúla
breytaWikipedia er ekki safn ósannreynanlegra hugleiðinga. Allar greinar um óorðna atburði verða að vera sannreynanlegar og viðfangsefnið verður að vera nægilega markvert til að verðskulda grein ef atburðurinn hefði þegar átt sér stað. Greinar um óorðna atburði og vörur sem eru ekki enn komnar á markað (t.d. kvikmyndir, bækur, tölvuleiki o.s.frv.) þurfa sérstaka meðhöndlun.
Wikipedia er ekki ritskoðuð
breytaWikipedia gæti innihaldið efni sem sumum lesendum finnst ekki smekklegt. Allir lesendur Wikipediu geta breytt greinum og breytingarnar taka strax gildi án þess að neinn leggi fyrst mat á þær og/eða samþykki þær. Wikipedia getur því ekki ábyrgst að greinar og myndir séu allar smekklegar í augum allra lesenda eða samræmist félagslegum eða trúarlegum stöðlum eða kröfum. Margt efni sem á alls ekki heima á Wikipediu er fjarlægt samstundis en sumar greinar gætu samt innihaldið texta, myndir eða tengla sem varða efni greinarinnar en sumum lesendum þykir ósmekklegt (til dæmis í grein um efni eins og klám) og mega gera það ef efnið brýtur ekki í bága við reglur Wikipediu um hlutleysi, sannreynanleika og frumrannsóknir eða varðar við lög í Florída-ríki í Bandaríkjunum, þar sem vefþjónar Wikipediu eru hýstir.
Það sem Wikipedia samfélagið er ekki
breytaAthugasemdirnar hér að ofan eiga við um greinar á Wikipediu. Eftirfarandi gildir um Wikipedia samfélagið og umræður á Wikipediu.
Wikipedia er ekki vígvöllur
breytaWikipedia er ekki vettvangur þar sem maður getur barist gegn öðrum, sem eru manni ekki sammála, og stofnað til illinda. Að snúa umræðum á Wikipediu upp í rifrildi er andsætt reglum og tilgangi Wikipediu. Sjá Wikipedia:Framkoma á Wikipediu.
Ætlast er til þess að allir notendur komi fram við aðra af kurteisi og virðingu og í anda samvinnu. Ekki móðga, hrella eða hræða þá sem eru ekki sammála þér. Ræddu málin frekar af skynsemi og yfirvegun. Ef annar notandi hagar sér ósæmilega gagnvart þér, þá hefur þú ekki rétt á að svara í sömu mynt. Svaraðu einungis staðhæfingum um staðreyndir sem leynast í máli dónalega notandans sem þú ert að ræða við og leiddu restina hjá þér eða leiddu hjá þér allt sem dónalegi notandinn segir.
Ef rifrildið dregst á langinn, misstu þá ekki þolinmæðina en leitaðu heldur til annarra notenda sem miðla málum fyrir þig.
Ekki búa til nýjar greinar einungis til þess að sýna fram á eitthvað.
Wikipedia er ekki stjórnleysi
breytaWikipedia er frjáls og opin en frelsinu eru skorður settar ef það kemur í veg fyrir að hægt sé að setja saman alfræðirit, sem er tilgangur Wikipediu og ástæða þess að hún er til. Wikipedia er þess vegna ekki bara spjallvefur þar sem málfrelsi ríkir.
Wikipedia er ekki lýðræði
breytaWikipedia er ekki lýðræði eða neitt annað stjórnmálakerfi. Meginaðferðin til þess að ná samkomulagi á Wikipediu er umræður, ekki kosningar. Stundum eru kosningar notaðar til að ná samkomulagi en stundum koma kosningar í veg fyrir áframhaldandi samræður. Kosningar ættu því alltaf að koma á eftir umræðum og þær eru ekki bindandi.
Wikipedia er ekki skrifræði
breytaWikipedia er ekki skrifræði og þótt reglur geti létt okkur lífið eru þær ekki tilgangur Wikipedia-samfélagsins. Það er betra að fylgja anda Wikipediu en reglunum of bókstaflega.
Ef þú ert í vafa um hvað skal gera
breytaEf þú ert í vafa um hvort eitthvað á heima í grein eða ekki, spurðu þá sjálfan þig hvað lesandi myndi búast við að finna í alfræðiriti. Fordæmi eru ekki reglur en það getur verið gott að hafa þau í huga.
Það sem notandasíðan er ekki
breytaMargt af því sem kemur fram hér að ofan gildir einnig um notandasíðu þína. Hún er ekki persónuleg heimasíða eða bloggsíða. Enn fremur er notandasíðan þín ekki þín síða. Hún er hluti af Wikipediu og er til svo að auðvelda megi samvinnu milli notenda.