Wikipedia:Grein mánaðarins/12, 2022
Að kvöldi 13. nóvember 2015 hófst röð hryðjuverka í París og Saint-Denis í Frakklandi. Meðal annarra árása voru sex skotaárásir og þrjár sprengjuárásir samtímis. Sprengjur sprungu við íþróttavöllinn Stade de France í Norður-París kl. 21:16 þar sem fram fór vináttulandsleikur á milli Þýskalands og Frakklands. Meðal áhorfenda á leiknum var forseti Frakklands François Hollande og fluttu öryggisverðir hann strax á öruggan stað. Í hverfum 10 og 11 létust margir í skotaárásum. Mannskæðasta árásin var í Bataclan-leikhúsi þar sem skotið var á áhorfendur á tónleikum þar sem bandaríska hljómsveitin Eagles of Death Metal kom fram. Nokkrum áhorfendum var haldið í gíslingu þangað til pattstaða við lögreglumenn sem stóð yfir í hálftíma leystist skömmu eftir miðnætti þann 14. nóvember.
Þann 14. nóvember lýsti Íslamska ríkið yfir ábyrgð á árásunum og sagði að skotmörkin hefðu verið „vandlega valin“. Í yfirlýsingunni sagði að árásirnar hefðu verið viðbrögð við aðgerðum Frakka í Miðausturlöndum og vanvirðingu þeirra við Múhameð. Árásirnar voru þær mannskæðustu í París frá seinni heimsstyrjöldinni og þær mannskæðustu í Evrópu frá sprengjuárásunum í Madrid 2004. Árásirnar komu í kjölfar skotárásarinnar á Charlie Hebdo í janúar 2015.