Skotárásin á Charlie Hebdo
Skotárásin á Charlie Hebdo átti sér stað að morgni 7. janúar 2015 um það bil kl. 11:30 að staðartíma á skrifstofum franska skoptímaritsins Charlie Hebdo í miðborg Parísar. Tveir grímuklæddir byssumenn vopnaðir rifflum komust inn á skrifstofur tímaritsins og skutu allt að 50 skotum meðan þeir öskruðu Allahu akbar („Guð er glæstastur“ á arabísku). Þeir drápu ellefu manns og særðu ellefu aðra. Stuttu eftir drápu þeir franskan lögreglumann. Byssumennirnir sögðust vera meðlimir í jemenskri grein Al-Kaídu sem lýsti árásinni á hendur sér. Fimm voru drepnir og ellefu aðrir meiddir í skotaárásum í kjölfar þessarar í héraðinu Île-de-France.
Franska ríkisstjórnin setti viðbragðsstöðuna í hæsta stigið: hryðjuverksviðvörun. Hermönnum var komið fyrir í Île-de-France og Picardy. Umfangsmikil mannaleit hófst en grunuðu mennirnir þeir Saïd og Chérif Kouachi voru fundnir þann 9. janúar, þegar þeir skutu á lögreglumenn. Þeir héldu starfsmönnum skiltasmiðju í Dammartin-en-Goële í gíslingu en bræðurnir voru skotnir um leið og þeir fóru út úr smiðjunni í skothríð.
Þann 11. janúar söfnuðust um 2 milljónir manns, þar á meðal 40 þjóðarleiðtogar, saman í götum Parísar í fjöldafund um þjóðarsamheldni. 3,7 milljónir annarra um allt Frakkland tóku þátt í fjöldafundum. Slagorðið je suis Charlie („ég er Charlie“) var mikið notað til stuðnings á fundunum og á samfélagsmiðlum. Þeir starfsmenn Charlie Hebdo sem eftir voru fóru að vinna að næsta tölublaði tímaritsins sem var prentað í sjö milljónum eintaka á sex tungumálum og seldist upp. Lesendafjöldi blaðsins er vanalega 45.000 til 60.000 manns.