Kolbeinn Kaldan kafteinn (Capitaine Archibald Haddock á frönsku) er einn af aðalpersónunum í myndasögunum um Ævintýri Tinna eftir belgíska teiknarann Hergé. Í sögunum er Kolbeinn gamall skipstjóri á kaupskipi og besti vinur Tinna.

Kolbeinn kafteinn (annar frá vinstri) ásamt öðrum persónum úr Ævintýrum Tinna.

Árið 1996 nefndu 37,5 % aðspurðra Kolbein kaftein sem uppáhaldspersónu sína í bókunum og er hann því vinsælasta persónan í Tinnabókunum.[1][2]

Uppruni

breyta

Kolbeinn kafteinn fylgir Tinna í öllum ævintýrum hans frá og með bókinni Krabbinn með gylltu klærnar (1941) þar sem félagarnir hittast í fyrsta sinn. Þegar Tinni hittir Kolbein er hann skipstjóri á skipinu Karaboudjan en er svo djúpt sokkinn í alkóhólisma að hinn svikuli stýrimaður hans, Hörður, ræður í raun öllu og notar skipið fyrir fíkniefnasmygl. Tinni frelsar hann úr haldi og með þeim tekst óbilandi vinskapur. Í seinni bókum kemur í ljós að Kolbeinn er afkomandi aðalsmannsins Kolbeins Kjálkabíts, skipstjóra í þjónustu Loðvíks 14. Frakklandskonungs.

Kolbeinn er sagður hafa verið lengi í kaupskipaflotanum áður en hann hitti Tinna. Í Dularfullu stjörnunni birtist gamall vinur hans af sjónum, Runólfur skipstjóri. Í nokkrum Tinnabókum gerist Kolbeinn skipstjóri á skipum sem hetjurnar sigla í svaðilförum sínum; hann stýrir skipinu Áróru í Dularfullu stjörnunni og skipi Runólfs skipstjóra, Síríus í Fjársjóði Rögnvaldar rauða. Í lok þessa ævintýris kaupir Vandráður prófessor gamalt ættarsetur Kolbeins kjálkabíts, Myllusetur, með ágóðanum af nýja kafbátnum sínum og gefur Kolbeini það í þakkarskyni fyrir að gefa honum tækifæri til að prufukeyra bátinn.[3] Eftir þetta virðist Kolbeinn sestur í helgan stein og reynir að lifa rólegu lífi sem óðalseigandi það sem eftir er bókanna.

Nafnið „Haddock“ birtist fyrst í glósum Hergés árið 1938. Samkvæmt Philippe Goddin, höfundi Chronologie d'une œuvre, kom hugmyndin að nafninu úr fransk-hollensku kvikmyndinni Le Capitaine Craddock (1931) eftir Hanns Schwarz og Max de Vaucorbeil, sem Hergé hafði mjög gaman af. Fyrsta eiginkona Hergés hélt því hins vegar fram að nafnið væri dregið af enska orðinu fyrir ýsu, „haddock“.[4]

 
Breski sjómaðurinn Nicholas Haddock á málverki í sjóferðasafninu í Greenwich.

Nafnið Haddock á sér þó einnig nokkra stoð í raunveruleikanum. Skipstjórinn Sir Richard Haddock stýrði skipinu Royal James í orrustunni við Solebay árið 1672.[5] Annar sonur hans, Nicholas Haddock, gerðist einnig sjómaður. Einnig má nefna að Herbert James Haddock (1861-1946)[6] var fyrsti skipstjórinn sem stýrði skemmtiferðaskipinu RMS Titanic og síðar systurskipi þess, Olympic.[7]

Fornafn Kolbeins á frummálinu, „Archibald“, heyrist fyrst í Tinna og pikkarónunum, síðustu Tinnabókinni sem lokið var við.[8] Þessu er öfugt farið í íslensku þýðingunni, þar sem fornafn kafteinsins hefur þekkst frá byrjun, en þess í stað heyrist í fyrsta sinn eftirnafn hans, „Kaldan“.[9]

Líkt og Skafti og Skapti eru ýktar útgáfur af gamalreyndri persónugerð; vitgrönnum leynilögreglumönnum; er Kolbeinn ýkt útgáfa af staðalmyndinni af hinum drykkfellda sjóara.

Persóna

breyta

Ólíkt hinum litlausa Tinna er Kolbeinn mjög skrautleg persóna. Kolbeinn er í öllum bókunum skapstór og mjög fljótur að skipta skapi. Þrátt fyrir að vera harður í horn að taka er hann einnig sýndur sem örlátur og skynsamur á köflum. Hann er tryggur vinur Tinna og hikar ekki við að fórna lífi sínu fyrir hann. Hann telur Vandráð prófessor einnig góðan vin sinn þrátt fyrir að hann fari oft í taugarnar á honum.

Höfuðlöstur Kolbeins er veikleiki hans fyrir áfengi, sérstaklega viskíi. Þegar Kolbeinn birtist fyrst er hann svo djúpt sokkinn í alkóhólisma að hann er ófær um að stjórna skipi sínu en honum fer brátt batnandi eftir að hann kynnist Tinna. Í Dularfullu stjörnunni er hann orðinn formaður bindindisfélags sjómanna. Uppáhaldsáfengi Kolbeins er viskíið Loch Lomond, sem birtist oft í bókunum. Áfengið stígur Kolbeini mjög fljótt til höfuðs: Þegar hann er fullur er hann algerlega skynlaus og gengur svo langt að kveikja í björgunarbáti á útsjó. Kolbeinn er einnig mikill reykingamaður og er gjarnan með tóbakspípu í munnvikinu. Í bókunum er Kolbeinn yfirleitt klæddur í sjómannsfötum; í svörtum buxum, blárri peysu með akkeri á brjóstinu og sjómannskaskeiti á höfðinu.

Aldur Kolbeins er aldrei gefinn upp. Skeggið bendir til hás aldurs en fimleiki hans bendir til þess að hann sé enn sem sprækastur. Hann virðist vera sestur í helgan stein í seinni bókunum en líklega er það frekar sökum þess að hafa fundið fjársjóð forföður síns en vegna aldurs. Líkt og aðrar persónur í Ævintýrum Tinna eldist Kolbeinn ekki eftir því sem líður á bækurnar þótt tíminn líði í kring um hann.

Frá og með lokum bókarinnar Fjársjóðs Rögnvaldar rauða býr Kolbeinn á sveitasetrinu Myllusetri ásamt brytanum sínum, Jósep. Hann reynir stundum að lifa lífi virðulegs landeiganda: Í Sjö kraftmiklum kristallskúlum klæðir hann sig upp í fínan reiðbúning og setur á sig einglyrni. Hann er þó fljótt kominn aftur í sjómannsfötin.

Líkt og Tinni er Kolbeinn einhleypur. Lítið er um kvenpersónur í bókunum og Vaíla Veinólínó er þar helsta undantekningin. Í bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó gera slúðurblaðasnápar sér í hugarlund að þau eigi í ástarsambandi en Kolbeinn þvertekur fyrir allt slíkt. Kolbeinn virðist ekki hrifinn af söngrödd Vaílu, sér í lagi þegar hún syngur einkennislag sitt, Gimsteinaaríuna úr Fást.

Orðbragð

breyta

Þegar Kolbeinn var kynntur til sögunnar á fimmta áratugnum var það viss áskorun fyrir Hergé að skrifa talmál persónunnar. Þar sem Kolbeinn var sjómaður vildi Hergé að hann talaði með nokkuð skrautlegu orðbragði en Hergé var ekki leyft að leggja kafteininum nein blótsyrði í munn þar sem bækurnar áttu að höfða til barna. Lausnin kom þegar Hergé mundi eftir atviki frá árinu 1933, stuttu eftir að fjögurra velda sáttmáli var undirritaður milli Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Ítalíu. Hafði Hergé þá heyrt kaupmann nota orðið „fjögurraveldasáttmáli“ sem fúkyrði.[10] Fékk hann því þá hugmynd að láta Kolbein nota framandi og furðuleg orð sem væru ekki í raun niðrandi en hann hrópaði þó af ofsa eins og þau væru grófustu blótsyrði. Þetta varð brátt eitt eftirminnilegasta persónueinkenni Kolbeins.

Algengasta upphrópun Kolbeins á íslensku er „Milljón marglittur!“ ásamt ýmsum afbrigðum af sama frasa. Þetta samsvarar upphrópuninni „Mille sabords!“ á frönsku, en „sabord“ er franskt orð yfir fallbyssuop á gömlum herskipum og útfærist því upphrópunin á frummálinu sem „Þúsund fallbyssuop!“ Fúkyrði Kolbeins í íslenskum þýðingum Lofts Guðmundssonar eru yfirleitt byggð á fisksheitum, öðrum sjávardýrum og siglingahugtökum. Meðal annars má nefna fúkyrðin „Níu þúsund nístandi náhveli!,“ „Sautján sjódrukknaðir draugar!“ og „Skáröndóttir skötuselir!“

Tilvísanir

breyta
  1. Daniel Couvreur, Archibald Haddock : Les Mémoires de Mille Sabords, Brussel, Éditions Moulinsart, 2011, bls. 64.
  2. L'élection du personnage principal préféré des internautes Geymt 12 maí 2004 í Wayback Machine sur le site free-tintin.net, sótt 2. október 2017.
  3. Fjársjóður Rögnvaldar rauða, bls. 59, 2. rammi.
  4. Daniel Couvreur, Archibald Haddock : Les Mémoires de Mille Sabords, Bruxelles, Éditions Moulinsart, 2011, bls. 8-9.
  5. « Les Personnages de Tintin dans l'histoire », Historia, 2011.
  6. Louis Francken, Le Vrai Capitaine Haddock : Herbert James, éditions Avant-Propos, Waterloo, 2011.
  7. Herbert James Haddock, 'Encyclopedia Titanica.
  8. Tintin et les Picaros
  9. Aukasíðan í Tinna og pikkarónunum, sótt 2. október 2017.
  10. Thompson, Harry (1991). Tintin: Hergé and his creation (1. útgáfa). Hodder & Stoughton.