Wikipedia:Grein mánaðarins/10, 2023
Kristján Eldjárn var íslenskur fornleifafræðingur og þriðji forseti Íslands árin 1968 – 1980. Foreldrar hans voru hjónin Þórarinn Kr. Eldjárn, bóndi og kennari á Tjörn, og Sigrún Sigurhjartardóttir. Kristján lauk fyrrihlutaprófi í fornleifafræði frá Kaupmannahafnarháskóla en lærði síðan íslensk fræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi árið 1957 og nefnist ritgerð hans Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi.
Kristján var þjóðminjavörður og þjóðþekktur og vinsæll maður vegna þátta sinna í sjónvarpi um fornar minjar og muni í vörslu Þjóðminjasafnsins. Kristján var hispurslaus og alúðlegur í framgöngu og ávann sér miklar vinsældir þjóðarinnar. Hann sigraði mótframbjóðanda sinn, Gunnar Thoroddsen, í kosningunum 1968 með miklum atkvæðamun og var sjálfkjörinn eftir það.
Árið 1979 virtist stefna í að Kristján yrði að mynda utanþingsstjórn en hann komst hjá því þegar ríkisstjórn Benedikts Gröndals var mynduð.