Walter Benjamin (15. júlí 1892 - 26. september 1940) var þýskur heimspekingur, bókmenntagagnrýnandi, pistlahöfundur, þýðandi og listfræðingur af gyðingaættum. Fyrsta rit hans var um upphaf þýska sorgarleiksins (Ursprung des deutschen Trauersþiels) og kom út árið 1928 en um svipað leyti varð hann fyrir miklum áhrifum frá Bertolt Brecht og gerðist marxisti. Benjamin lauk ekki doktorsprófi og fékk því ekki fast starf við háskóla. Hann vann við skriftir og þýðingar og dvaldi oft í París.

Walter Benjamin – 1928

Benjamin er þekktur fyrir framlag sitt til menningarfræða og oft er vitnað í verk hans í fræðilegu og listfræðilegu samhengi og þá sérstaklega í verkin „The Task of the Translator“ (1923) and „The Work of Art in the Age of Mechanical Reproduction“ (1936) en það hefur komið út í íslenskri þýðingu undir titlinum Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar. Þegar hann skrifaði þá bók þá var hann flóttamaður í París í Frakklandi á flótta undan ofsóknum nasista og hafði dvalið í París í þrjú ár. Árið 1927 hóf hann að rita verkið Das Passagen-Werk (e. The Arcades Project) en það er ófullgert handrit sem var athugun hans á mannlífi í París á 20. öld. Hann hafði upphaflega ætlað að skrifa stóra bók um París á 20. öld en skildi eftir sig mikið magn af tilvitnunum tengt því verki. Þessar nótur hafði hann skrifað yfir 13 ára tímabil. Þessi drög voru fyrst gefin út árið 1982 og er yfir 1.000 blaðsíður. Hann taldi París bera merki hnignunar sem væri fyrir tilstuðlan mikilla þjóðfélagsbreytinga og hann skoðaði allt það smáa sem hafði breyst í mannlífinu á tímum nýrrar tækni, hann skoðaði götulíf, markaði og tívolí en hafði sérstaklega mikinn áhuga á Les Passages á vesturbakka Signu en það var verslunarmiðstöð þess tíma. Árið 1937 vann Benjamín að Das Paris des Second Empire bei Baudelaire og þá hitti hann franska rithöfundinn Georges Bataille sem hann fékk til að geyma handrit að Das Passagen-Werk. Árið 1938 fór hann í síðasta skipti í heimsókn til Bertolt Brecht sem þá var í útlegð í Danmörku. Um þetta leyti svipti nasistastjórnin í Þýskalandi alla þýska gyðinga ríkisfangi sínu og Benjamin varð því ríkisfangslaus og var af þeim sökum fangelsaður af frönsku yfirvöldum og var um hríð í fangabúðum nærri Nevers í Burgundy. Hann kom til Parísar í janúar 1940 og þá skrifaði hann ritið Über den Begriff der Geschichte (e. Theses on the Philosophy of History).

Benjamin reyndi að fá ríkisborgararétt í Frakklandi og innflytjendaleyfi til Bandaríkjanna en umsókn hans um ríkisfang var hafnað. Þegar Þjóðverjar hertóku París í byrjun ársins 1940 lagði hann á flótta. Hann fór fyrst Marseille og reyndi að komast þar á skip en það tókst ekki. Þá lagði hann á stað fótgangandi yfir Pýreneafjöllin til Spánar en þaðan átti að reyna að komast til Portúgals og þaðan í skip til Bandaríkjanna. Hann og samferðamenn hans voru handsamaðir á landamærum inn í Spáni og til stóð að senda þau aftur til Frakklands. Hann gafst upp og framdi skömmu síðar sjálfsmorð.

Heimildir

breyta