Vantrú er félag trúleysingja sem rekur samnefnt vefrit. Vefritið var stofnað í ágúst 2003 og formlegt félag árið 2004. Vefritið hefur oft verið umdeilt vegna hispurslausra greinaskrifa um trúmál og efahyggju. Yfirlýst stefna félagsins er að veita mótvægi við boðun hindurvitna.

Vantrú.

Félagið

breyta

Meðlimir félagsins eru á annað hundrað talsins á öllum aldri (að lágmarki 18 ára) og af báðum kynjum. Árlega er haldinn aðalfundur þar sem stjórn félagsins er kosin. Í stjórn sitja 5 meðlimir: Sindri Guðjónsson (formaður), Þórður Ingvarsson (varaformaður), Bjarki Sigursveinsson (gjaldkeri), Svavar Kjarrval (ritari) og Hjalti Rúnar Ómarsson (ritstjóri).[1] Í lögum félagsins stendur: „Tilgangur félagsins er að veita mótvægi við boðun hindurvitna og vinna gegn áhrifum þeirra í samfélaginu, s.s. skipulögðum trúarbrögðum, skottulækningum og gervivísindum.“[2] Félagið hefur veitt trúleysingjum sem ekki hafa viljað koma fram undir nafni tækifæri til að tjá sig opinberlega á vef sínum.

Vefurinn

breyta

Vefritið Vantrú.is er stærsta vefrit sinnar tegundar á Íslandi. Vefritið er uppfært daglega eða því sem næst, og opið er fyrir athugasemdir við hverja færslu. Auk þess er á vefnum opið spjallborð. Vantrú hefur haldið uppi þeim sið að hafa aprílgabb á hverju ári.

Ritstjórn vefritsins er í höndum ritstjóra, núverandi ritstjóri er Hjalti Ómarsson. Ritstjórastöðunni gegndu áður:

  • Óli Gneisti Sóleyjarson 2004-2005
  • Hjalti Rúnar Ómarsson 2005-2007
  • Birgir Baldursson 2007-2008
  • Þórður Ingvarsson 2008-2015

Önnur starfsemi

breyta

Auk þess að reka vefritið hefur Vantrú staðið fyrir árlegu páskabingói Vantrúar á Austurvelli til að mótmæla ákvæðum í helgidagalöggjöf. Bingóið er haldið á föstudaginn langa og er því ætlað að vekja athygli á ákvæði helgidagalöggjafar sem bannar meðal annars „skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram“ á ákveðnum „helgidögum þjóðkirkjunnar“. Einnig er því ætlað að vekja athygli á óeðlilegu sambandi ríkis og kirkju. Þó þessi hefð sé nýlega komin til hafa talsmenn Vantrúar heitið því að þessu verði haldið áfram þar til lögin verða endurskoðuð. Boðið hefur verið upp á kakó og kleinur meðan skemmtunin fer fram.

Þann 1. október 2004 bauð Vantrú alþingismönnum upp á skyr fyrir setningu þings í Dómkirkjunni. Með því vildu Vantrúarmenn minna á aðskilnað ríkis og kirkju og mál Helga Hóseassonar, sem var á staðnum í boði Vantrúar, og er m.a. þekktur fyrir að hafa ausið skyri yfir þingmenn, forseta og biskup við setningu Alþingis árið 1972.

Einnig hafa talsmenn Vantrúar tekið þátt í trúmálaumræðum í útvarpi og sjónvarpi og á síðum dagblaða.

Gagnrýni

breyta

Félagið hefur eignast marga óvini með beinskeyttri og óvenju harkalegri umfjöllun um viðkvæm málefni. Hafa þeir þess vegna fengið á sig mikla og harða gagnrýni.

Þótt móttökur páskabingósins hafi almennt verið góðar hefur þetta athæfi verið gagnrýnt harðlega meðal annars af biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni, og fleiri kirkjunnar mönnum. Meðal annars kallaði Kristján Björnsson, sóknarprestur í Vestmannaeyjum, þá „bingófífl“.[3]

Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson stundakennara Háskóla Íslands til Siðanefndar háskólans fyrir ummæli um félagið sem hann lét falla í kennslustund og spunnust af því harðar deilur innan Háskólans. Vantrú dró síðar kæruna til baka og sagði málið hafa ónýst vegna viðbragða starfsmanna Háskólans.

Tilvísanir

breyta
  1. Vantrú.is: „Um Vantrú“
  2. Vantrú.is: „Lög Vantrúar“
  3. „Trú.is: „Stórir helgir dagar og fíflalegt bingó". Afrit af upprunalegu geymt þann 16. júní 2008. Sótt 4. júní 2008.

Tenglar

breyta